Þrítugasti árgangur tímaritsins Sagna væntanlegur
29.4.2013 | 12:20
http://www.youtube.com/watch?v=x8cB5LCiyr4
Nú styttist óðum í að þrítugasti árgangur Sagna komi út. Í raun má segja að núverandi ritstjórn hafi rænt umboði til útgáfunnar, en það þurfti til að blaðið mætti koma út. Segja má jafnframt að ritstjórnin hafi verið svolítið anarkísk en eiginleg ritstjórnarstefna var ekki fyrir hendi heldur var lagt kapp á að blaðinu skyldi vera komið út og óheillaþróun síðustu ára snúið við. Þó var að sjálfsögðu lögð mikil áhersla á vönduð vinnubrögð í hvívetna, jafnt hvað efnistök og útlit ritsins áhrærir. Það er því von ritstjórnar að greinarnar sem í því birtast endurspegli að einhverju leyti áhugasvið nemenda við sagnfræðina í HÍ:
Fyrir Íslendinga var Ólympíusigur fjarlægur draumur, en eins og margir fræðimenn hafa bent á eru íþróttir vettvangur fyrir pólitík, valdabaráttu og tækifæri til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri."
Menn álitu að betur menntuð þjóð myndi ná betri árangri í að nýta þá möguleika sem Ísland ætti kost á."
Annað sem einungis fæst í sveitinni er hin líkamlega vinna. Hún eflir skilning á því að vinna útheimtir bæði kunnáttu og þekkingu þess sem innir hana af hendi, og hún eykur einnig samhyggð með þeim stéttum sem strita fyrir brauði sínu."
Hjartaknúsarinn írski, Johnny Logan, tók fyrstu skrefin í átt að krýningu sinni sem konungur Evrópusöngvakeppninnar með sigurlaginu Whats Another Year. Íslendingar vöktu heimsathygli sumarið 1980, þegar þeir kusu sér konu sem forseta; Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri hlaut 33,8% atkvæða og skaut þar með þremur landsþekktum karlmönnum ref fyrir rass."
Hér voru engar borgir, ekkert háskólasamfélag eða markaður fyrir ódýrar pappírsbækur. Ísland var bændasamfélag án borgarmyndunar, hér var ekki blómlegt viðskiptalíf eða fjölmenn stétt menntamanna."
Þótt ekki sé hægt að alhæfa um að allar konur þessa tíma hafi reitt sig jafnmikið á skoðanir karlmannanna sem þær litu upp til er engu að síður áhugavert að 27 ára kona sem hugði að hjónabandi hafi byggt þá ákvörðun sína á áliti bróður síns."
Þar hefðu nasistar orðið herrar samfélags, gegnsýrðu af fjandskap í garð gyðinga, sem gerði afar róttæka og öfgafulla leið til upprætingar þeirra framkvæmanlega."
Var lífsmáti þeirra leið til að ögra hinum hefðbundnu gildum samfélagsins eða voru þetta bara ungar stúlkur að njóta lífsins og klæða sig eftir nýjustu tísku? Dreymdi þær um æðri menntun og starfsframa, eða um huggulegan eiginmann og börn?"
Hún sá varla handa sinna skil og hræddist allan tíman að hún myndi fara út í Kálfslækinn og drukkna, því hann var svo djúpur. Hún bað bænirnar sínar í sífellu í huganum og þurrkaði tárin sem runnu niður kinnarnar. Kjarkurinn var ekki mikill eftir en hún gafst ekki upp og barðist áfram í hríðinni."
Minna mætti suma stjórmálamenn nútímans á að ýmsar þær framfarir og breytingar sem urðu á íslensku samfélagi fyrri alda komu að utan."
Aristókratar deila ekki um konur. Til þess virða þeir hvorn annan of mikið. En það voru ekki aðeins karlmenn sem þurftu að laga sig að hugsjónum riddaramennskunnar. Konur urðu einnig að temja sér ákveðna félagslega hegðun til að hin aristókratíska hjónabandspólitík gengi upp."
[Hann] ... mun hafa litið þannig á, að nú væri tækifæri til að sýna það, að kommúnistar sköruðu fram úr öðrum í stjórnsemi, fyrirhyggju og öðrum mannkostum, þeim er alþýðunni gæti orðið að liði, og skar hann því herör upp um gjörvalt landið og kallaði til sín sinn rauða her. Voru þar kommúnistar saman komnir úr öllum landsfjórðungum ..."
Það var þó meira en andúð á einræði sem leiddi til þessara viðbragða á Íslandi. Eins og Þjóðviljinn benti réttilega á í upphafi stríðsins, hafði almenningur ekki tekið jafn skýra samúðarafstöðu til þeirra þjóða sem þegar höfðu orðið Þýskalandi og Sovétríkjunum að bráð."
Undir lok aldarinnar völdu börn sér hinsvegar oftar búninga með skírskotun til eitthvers hræðilegs og ógnvekjandi, líklegast vegna áhrifa frá afþreyingarmiðlum. Norna-, vampíru- og Frankensteinbúningar voru algengastir, að ógleymdri hinni sívinsælu Scream-grímu."
En þrátt fyrir fátæklega myndlist á Bessastöðum skorti ekkert á að lögð væri stund á heimsbókmenntir því meðfram skólastarfi vann faðir hans að þýðingum einhverra mikilvægustu fornbókmenntaverka allra tíma; kviður Hómers, Ilionskviðu og Odisseyfskviðu."
Höfundur greinarinnar undrast ekki að þessi trú hafi verið ríkjandi í landinu á meðal fáfróðrar alþýðu," því margar misheppnaðar tilraunir höfðu verið gerðar."
Þetta er aðeins brot af því sem birtast mun í veglegri þrítugustu útgáfu Sagna sem væntanleg er innan mjög skamms. Þeir sem vilja vita meira ættu að hafa hraðar hendur og senda tölvupóst á
mth39@hi.is - upplagið verður takmarkað!
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
HVAR VORU LANDSMÆÐURNAR? Hlutverk og staða kvenna í amerísku byltingunni
26.4.2013 | 16:46
Þó konur séu og hafi verið um helmingur mannkyns hafa þær fram á seinustu ár verið aukaleikarar á sviði sögunnar. Löngum var sagan skrifuð um sigursæla hershöfðingja, konunga og keisara sem oftast voru karlkyns. Helsta gagnrýni á sagnfræði fyrri tíma er einmitt skortur á konum þó það væri jafnvel talið að sá skortur stafaði af því að þær hefðu gert svo fátt.[1] Smám saman efldist ritun sögu kvenna sem er talin eiga sér þrjú blómaskeið, það tilþrifamesta hófst á sjöunda áratug síðustu aldar með tilkomu kvennahreyfinga víða um veröld. Kvennasagan hefur þróast í þá átt að fjalla um samskipti beggja kynja í félagslegu samhengi, er orðin kynjasaga. Nýjar áherslur í söguritun, með áherslu á hversdagslífið, hið einstaka og persónulega, hafa dregið konur fram úr skúmaskotum sögunnar.[2] Einstaklingar úr minnihlutahópum hafa orðið sýnilegir og mikilvægir sem viðfang sögunnar og ekki síður sem starfandi sagnfræðingar.[3] Fyrsta blómaskeið kvennasögu var um og eftir frönsku stjórnarbyltinguna en hér verður skoðuð staða kvenna í aðdraganda og eftirmálum annarar byltingar, fáum árum fyrr, þeirrar amerísku. Allmiklar breytingar urðu hugarfarslega, á sviði stjórnarfars og menningar en það er ekki fyrr en á síðari árum sem þáttur kvenna hefur verið skoðaður markvisst. Hvernig var staða kvenna í nýlendum Breta fyrir, eftir og á meðan á amerísku byltingunni stóð?
Þeir sem undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsingu og sömdu stjórnarskrá Bandaríkjanna hafa verið nefndir landsfeður Bandaríkjanna en hvar voru landsmæðurnar?
II
Á átjándu öld var veröldin að breytast, á annan bóginn hallæri og farsóttir en samtímis glitti í birtu upplýsingarinnar. Upplýsingin varð til þess að hugsuðir og framkvæmdamenn sannfærðust um að vísindin gætu útskýrt lögmál heimsins og ekki síst að mannkynið gæti stjórnað og ráðið eigin örlögum. Talið var að hægt væri að upplýsa fólk og fræða um að örlögin væru ekki fyrirfram ákveðin af guðlegri forsjón heldur gæti hver og einn skapað sína eigin framtíð. Framfaratrú upplýsingarinnar ásamt hugmyndum tengdum náttúrurétti auk kröfunnar um frelsi og jafnrétti allra skóp grundvöllinn fyrir frönsku byltingunni og ekki síður þeirri amerísku.
Nýlendur Breta voru orðnar mjög sjálfstæðar um stjórnarmálefni sín þegar um miðja átjándu öld með mjög sveigjanlegt pólítískt kerfi sem tiltölulega stórir hópar fólks tóku þátt í.[4] Með afar mikilli einföldun má segja að áralangar deilur við Breta um skattheimtu og stjórnskipan hafi valdið því að nýlendubúar risu upp, gerðu byltingu sem lauk með stofnun lýðveldis og tilurð stjórnarskrár sem samin var af hópi (vel stæðra) hvítra karlmanna. Þessir karlmenn litu á sig sem fulltrúa allra en hverjir voru þessir allir? Þegar réttindi til handa öllum voru tryggð í öndverðu ríkti sá skilningur að ekki væri átt við konur, ekki eignalausa, ekki indíána, svarta menn né aðra minnihlutahópa. Allir voru einfaldlega hvítir karlmenn á tilteknum aldri sem áttu eignir. Smátt og smátt hefur mengið allir stækkað mjög mikið. Hugmyndin um réttindi allra segir kvennasögufræðingurinn Joan Wallach Scott að hafi orðið til þess að amerískir karlar jafnt og konur hafi séð fyrir sér fullkomið, samhuga, jafnréttissamfélag[5] og Linda Kerber, sagnfræðingur telur að hugmyndin hefði verið að skapa samfélag, sem allir fullorðnir einstaklingar ættu að taka þátt í að móta.[6] Á átjándu öld hafði orðið mikil fólksfjölgun í nýlendunum, hlutfall karla og kvenna hafði jafnast, æ fleiri íbúar voru af öðrum uppruna en enskum og borgarmenningu hafði vaxið fiskur um hrygg. Fjölskyldan var mög mikilvæg eining í nýlendendunum.[7] Eftir 1775 varð sú hugarfarsbreyting að nýlendubúar hættu líta á sig sem þegna Bretakonungs og urðu þess í stað borgarar í lýðveldi, en hvað þýddi það?
Kvenfrelsishreyfingar hafa sótt réttlætingu sína í hugmyndir upplýsingartímans um frelsi og jafnrétti allra manna[8]. Áðurnefnd skilgreining á öllum, sem náði til hvítra, menntaðra, efnaðra karlmanna hefur mótað sjálfsmynd þjóða, sem aftur hafði áhrif á þjóðernislega sjálfsmynd kvenna án þess beinlínis að eiga við um þær[9] sem Joan Scott segir að sé þó ekki náttúrulögmál.[10] Samkvæmt kenningum Nira Yuval-Davis hafa þjóðernislegar hugmyndir um konur með móðurhlutverkið að gera, varðveislu menningararfsins og varðstöðu um þjóðlegt siðferði og hefðir. Sömuleiðis að konum hafi borið að styðja karlmenn í baráttu sinni en að ekki standa í henni sjálfar.[11] Þetta rímar við það sem franski kvennasögufræðingurinn Dominique Godineau hefur skrifað um konu lýðveldisins, sem átti að hafa það örláta hlutverk að vera móðir sem skyldi að byltingu lokinni ala upp synina og viðhalda siðavendni þjóðarinnar.[12] Fleiri skrif staðfesta þá skoðun og jafnframt að í kjölfar amerísku byltingarinnar hafi mótast skilningur á hver væri viðeigandi hegðun karla og kvenna, en hugmyndafræði lýðveldisins gerði ekki ráð fyrir breytingum á þessu hlutverki kvenna.[13] Bandaríski sagnfræðingurinn Betty Wood segir að borgaralegar skyldur konunnar hafi legið í því að hafa góð áhrif á eiginmann sinn og syni, henni bæri að sjá til þess að þeir yrðu vísir, dyggðugir, réttlátir og góðir menn.[14] Árið 1785 kom út bæklingurinn Women invited to war eftir óþekktan höfund sem kallaði sig Daughter of America", sem bergmálaði þetta.[15] Hin þekkta enska kvenréttindakona Mary Wollstonecraft spurði á móti hvernig nokkur gæti verið örlátur sem ekkert ætti sjálfur eða siðlegur án þess að vera frjáls.[16]
Í nútíma sagnfræði hafa menn séð að hlutverk kvenna hafi verið að starfa innan einkasviðsins, en þær hafi lítið látið fyrir sér fara á því opinbera.[17] Karlmennskan var fyrirferðarmeiri á opinbera sviðinu og öðlaðist merkingu sína með því að vera andstaða þess kvenlega. Karl- og heiðursmennsku var stillt upp í Norður Ameríku sem andstæðum kvenlegra eiginda og jafnvel vansæmdar, sem skapaði ójöfn valdatengsl og -stöðu.[18] Konur í nýlendunum vestanhafs munu almennt ekki hafa tekið opinberan þátt í pólítísku lífi á átjándu öld[19] en þær voru ötulir þátttakendur í ýmsum trúarhópum.[20] Þó voru þær alls ekki áhugalausar um stjórnmál, þvert á móti.[21] Hinir svokölluðu Sons of Liberty, sem var leynilegur andspyrnuhópur kaupmanna og menntamanna í nýlendunum, hvöttu konur þegar árið 1765 til að hætta að drekka innflutt te, og jafnvel til að búa sjálfar til fatnað og fleira sem ella væri keypt innflutt. Linda K. Kerber tekur undir þetta, að það hafi verið talið hlutverk kvenna að sniðganga innfluttar, breskar, vörur.[22] Þessu er Betty Wood sammála og segir að mikilvægi þessarar þátttöku kvenna hafi verið ljóst þeim karlmönnum sem börðust fyrir frelsi Ameríku.[23] Konur komu saman á heimilum sínum, þar sem þær drukku kaffi frekar en te, prjónuðu eða ófu og héldu þannig afskiptum sínum af byltingunni á einkasviðinu, litlu virtist skipta hvar í virðingarstiga þjóðfélagsins þær voru. Konur í Norður Ameríku munu að mestu leyti hafa unnið að hinu sameiginlega markmiði, einar eða í litlum hópum. Þegar vopnuð átök brutust loks út milli Ameríkumanna og Breta, sáu margar konur einar um rekstur sveitabýla og fyrirtækja bænda sinna meðan þeir börðust á vígvellinum.
Dominique Godineau heldur fram að þó allmargar konur hafi tjáð sig opinberlega um byltinguna hafi stuðningurinn við hana oftar verið með einstaklingsbundnari hætti; þær voru uppljóstrarar, hjúkrunarkonur, eldabuskur eða þvottakonur og margar keyptu svokölluð stríðsskuldabréf (e. War Bonds).[24] Þau viðskipti fóru ekki alltaf vel eins og frásögn gamallar konu sem hafði keypt slík bréf af New Jersey ríki sýnir, en hún fékk ekki greidda vexti af því á grundvelli þess að hún bjó ekki lengur í sama ríki þegar frelsisstríðinu lauk.[25] Dominique Godineau fullyrðir að eina samvinnuverkefnið sem konur tóku að sér í byltingunni hafi verið peningasöfnun fyrir hermenn sem eiginkonur stjórnmálamanna í félagsskap nefndum Philadelphia Ladies Association, stóðu fyrir. Linda K. Kerber er ekki alveg á sama máli og nefnir nokkur atriði sem sýna að konur hafi sýnt hug sinn opinberlega gagnvart byltingunni, þar á meðal með þátttöku í mótmælum á götum úti.[26] Hún segir einnig að byltingin hafi haft mikil áhrif á félagsleg tengsl eiginmanna og -kvenna, hún hafi breytt miklu um stigveldisskiptingu milli kynjanna. Sömuleiðis hafi mun meiri fjöldi kvenna verið á vígvöllunum sjálfum en ætlað hefur verið, að þær hafi reynt að koma að gagni hvar sem það var mögulegt. Að sögn Kerber fylgdu konurnar, sem oft voru bláfátækar, iðulega hersveitum manna sem þær áttu í samböndum við, þó helstu forystumenn hersins væru fremur andvígir því. Undir lok byltingarinnar munu konur tengdar hernum hafa verið orðnar ein á móti hverjum fimmtán karlmönnum.[27] Til eru fjölmargar sögur af konum sem dulbjuggu sig sem karlmenn til að geta tekið þátt í bardögum, en ekki er rúm til að rekja þær hér.
III
Þó Abigail Adams, eiginkona Johns Adams sé sennilega ein frægasta kona byltingartímans í Norður Ameríku, var hún á þeim tíma aðeins þekkt í tiltölulega stórum en mjög lokuðum hópi. Hún skrifaðist reglulega á við mann sinn, var með gott pólítískt nef og var eldsnögg að átta sig á stöðu mála.[28] Bréf hennar voru að mati Dominique Godineau stundum með femíniskum undirtóni, eins og þegar hún eitt sinn varaði mann sinn við því að gleyma konum Ameríku við setningu stjórnlaga, ella gæti þjóðin átt á hættu að standa frammi fyrir byltingu kvenna.[29] Það fylgdi ekki sögunni hvaða áhrif þessi skrif höfðu á manninn sem síðar varð annar forseti Bandaríkjanna, en kvenna og sérstakra réttinda þeirra er hvergi getið í stjórnarskránni, né viðbótum hennar frá 1789. Þar er aðeins fjallað um einstaklinga og almenning. Giftar konur máttu ekki sjálfar eiga eignir og jafnvel þó mikil áhersla væri lögð á jafnrétti og einstaklingsfrelsi þótti ekki hæfa að konur fengju kosningarétt, því það væri eins og að veita eiginmönnum þeirra rétt yfir tveimur atkvæðum.[30] Betty Wood telur að þó byltingin hafi hvatt til endurmats á stöðu kvenna hafi engar stórkostlegar breytingar orðið á lífi þeirra fyrstu árin eftir hana.[31] Margir umbótamenn hvöttu konur til að mennta sig, fyrst og fremst til að geta alið börnin sín almennilega upp.[32] Þó ruddust fram á ritvöllinn konur eins og Judith Sargent Murray sem vildi sjá ungar konur skapa nýtt tímabil í sögu þeirra, hún vildi að konur menntuðu sig, sín vegna, en létu sér ekki nægja að bíða eftir draumaprinsinum og öryggi hjónasængurinnar.[33]
Þó amerískar konur hefðu ekki bein afskipti af stjórnmálafélögum fullnægðu þær félagsþörf sinni með stofnun ýmis konar líknarfélaga, sem oft voru tengd kirkjum og trúfélögum. Þar fengu konur tækifæri til að vinna margskonar góðverk, meðal annars til aðstoðar ekkjum og munaðarlausum, í mun meira mæli en áður hafði þekkst. Þessi þátttaka kvenna í kirkjulegu starfi átti síðar eftir að hafa áhrif innkomu þeirra á svið stjórnmálaumræðunnar í Bandaríkjunum. Þar með hófu þær innreið sína á opinbera sviðið.
Lokaorð
Á stuttum tíma breyttist staða Ameríkumanna úr því að vera þegnar bresku krúnunnar yfir í að vera borgarar hins nýja lýðveldis. Hugtakið borgari hélst samt kynbundið um hríð, þó mögulegum borgararétti kvenna væri fagnað í aðra röndina var djúpstætt vantraust gegn honum á hinn bóginn. Því er óhætt að fullyrða að þó að atburðirnir í Ameríku á seinni hluta 18. aldar séu svo sannarlega bylting sem margar konur tóku þátt í af heilum hug, breyttu þeir ekki miklu til skamms tíma fyrir þorra kvenna. Fjölmargar konur komu við sögu byltingarinnar, opinberlega og á einkasviðinu, með skrifum, ræðuhöldum og mótmælagöngum. Aðrar létu sér nægja að sniðganga breskar vörur og kaupa stríðsskuldabréf meðan allnokkrar gengu hreinlega til liðs við byltingarherinn. Þegar friður komst á varð einfaldlega ekki pláss fyrir róstursama kvenmenn í lýðveldinu, þær konur sem höfðu haft sig í frammi á meðan óróinn varði urðu að hverfa aftur til þess að vera gjafmildar og siðavandar eiginkonur og mæður. Smám saman fikruðu amerískar konur sig inn á svið stjórnmálanna í gegnum trú- og líknarfélög ýmis konar en verkefni framtíðarinnar var að gera róttækari breytingar.
[1] Sheila Rowbotham, Hidden from History, bls. xvi.
[2] Duby og Perrot, Writing the History of Women", bls.ix-x.
[3] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 179.
[4] Jack P. Greene, The Preconditions of the American Revolution, bls. 48-49.
[5] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 214.
[6] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.
[7] Robert V. Wells, Population and family in early America", bls. 40-48.
[8] Sigríður Matthíasdóttir, Hin svokallaða þjóð", bls. 421.
[9] Sigríður Matthíasdóttir, Hin svokallaða þjóð", bls. 423.
[10] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425.
[11] Sigríður Matthíasdóttir, Hin svokallaða þjóð", bls. 423.
[12] Dominique Godineau, Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 28-29.
[13] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 304.
[14] Betty Wood, The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 407.
[15] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 301.
[16] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 303.
[17] Sigríður Matthíasdóttir, Hin svokallaða þjóð", bls. 424.
[18] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425 og Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 302.
[19] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.
[20] Dominique Godineau , Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 22.
[21] Betty Wood, The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 403.
[22] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.
[23] Betty Wood, The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 405.
[24] Dominique Godineau , Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.
[25] Rachel Wells, I have Don as much to Carrey on the Warr as maney ...", bls. 88-89.
[26] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 299-300.
[27] Linda K. Kerber, The Revolution and Women´s Rights", bls. 296-297.
[28] Linda K. Kerber, The Republican Mother", bls. 91.
[29] Dominique Godineau , Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.
[30] Linda K. Kerber, The Republican Mother", bls. 90.
[31] Betty Wood, The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 399.
[32] Robert V. Wells, Population and family in early America", bls. 50.
[33] Dominique Godineau , Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 27.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvenær hófst kalda stríðið?
24.4.2013 | 19:03
Síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 eftir að bandamenn unnu fullnaðarsigur á Þjóðverjum og Japönum. Áður en styrjöldinni lauk mátti sjá að veröldin var að breytast. Tvö ný stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin, urðu til. Eldri stórveldi Evrópu stóðu á brauðfótum eftir hildarleikinn mikla og veröldin skiptist skyndilega í tvennt milli ríkjanna sem áður höfðu barist við sameiginlega óvini. Gríðarlegar andstæður á auði, hugmyndafræði og stjórnarformi hinna nýju stórvelda hlutu að kalla á gerbreyttan heim. Enda fór svo að áratugina eftir síðari heimsstyrjöldina geisaði stríð milli stórveldanna, stríð sem átti engan sinn líka í veraldarsögunni því þau háðu ekki eina einustu orrustu sín á milli, þó þau vígbyggjust af kappi. Stríðsástand þetta hefur verið nefnt kalda stríðið. Sagnfræðingar hafa löngum reynt að greina upphaf og orsakir kalda stríðsins og eru hvergi nærri sammála. Fræðimenn hafa leitað orsaka kalda stríðsins í áður nefndum andstæðum, einnig í valdatómarúminu sem myndaðist við ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni og í þeirri staðreynd að Bandaríkjamenn einir bjuggu í upphafi yfir stríðstólinu ógurlega, kjarnorkusprengjunni. Pólítísk deilumál tengd framtíð Þýskalands, Póllands og annarra ríkja Austur-Evrópu höfðu mikil áhrif á samskipti stórveldanna. Nokkrir lykilatburðir hafa einnig verið nefndir sem upphafspunktar kalda stríðsins, hver þeirra markar skref að því ástandi sem varði í veröldinni í hálfa öld. Er einn þeirra öðrum mikilvægari í að ákvarða hvenær kalda stríðið hófst?
TVÆR RÁÐSTEFNUR, YALTA OG POTSDAM
Skömmu áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk höfðu leiðtogar bandamanna, Winston Churchill forsætisráðherra Breta, Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna og Josep Stalín leiðtogi Sovétríkjanna, komið saman í Yalta-borg á Krímskaga, til að ákveða framtíð stríðshrjáðrar Evrópu. Fullyrða má að á ráðstefnunni hafi þjóðirnar ákveðið yfirráð hinna herteknu landsvæða, en sovéski herinn var þegar búinn að ná yfirráðum yfir stærstum hluta Austur-Evrópu. Það má velta fyrir sér hvort vantraust milli stórveldanna hafi ríkt fyrir ráðstefnuna eða hafi skapast strax í kjölfar hennar. Bandarískum embættismönnum varð seinna tíðrætt um brot Sovétmanna á samkomulagi því sem gert hafði verið í Yalta. Þeir töldu sig hafa haft vilyrði fyrir því að lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir tækju við völdum í ríkjum Austur-Evrópu. Þrátt fyrir að hafa lofað viðsemjendum sínum að efna til kosninga í ríkjunum hafi Stalín alls ekki ætlað sér það, en þess í stað séð sér leik á borði að færa landamæri Sovétríkjanna mörg hundruð kílómetra til vesturs. Bandaríski sagnfræðingurinn John Lewis Gaddis, sem hefur rannsakað kalda stríðið gaumgæfilega, hefur haldið því fram að vegna samspils landfræðilegra og stjórnmálalegra andstæðna í hugmyndaheimi stórveldanna hafi þau þegar verið komin í hár saman fyrir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
Núningur milli stórveldanna jókst jafnvel enn frekar eftir að Potsdam ráðstefnunni lauk í ágúst 1945, þar sem ekki tókst að ákvarða sameiginlega lausn á hernámsáætlun gagnvart sigruðu Þýskalandi, sem lyktaði með því að til urðu tvö þýsk ríki, Vestur- og Austur-Þýskaland.
Einn helsti kenningasmiður breska kommúnistaflokksins um árabil, blaðamaðurinn Palme Dutt hélt því fram að það hefðu verið rof Breta og Bandaríkjamanna á Yalta og Potsdam samningunum en ekki ímynduð stefnubreyting í pólitík Sovétríkjanna sem væru ástæða erfiðleika þeirra sem steðjuðu að eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Hann hélt því enda fram að samningar sem gerðir voru þar hafi markað þá leið sem yrði að fara til þess að tryggja friðinn og lýðræðið." Ástæðurnar sagði hann vera þær að þau væru voldugustu auðvaldsríki veraldarinnar og að hernaðarlega væri Bretland orðið háð Bandaríkjunum. Dutt hélt því fram að útþenslustefna Bandaríkjanna væri fremur beint gegn breska heimsveldinu en Sovétríkjunum. Orð Dutts lýsa óneitanlega vel því andrúmi sem ríkti milli sigurvegara síðari heimsstyrjaldarinnar, nánast strax að henni lokinni.
LANGA SÍMSKEYTIÐ
Ungur stjórnarendreki í bandaríska sendiráðinu í Moskvu, George F. Kennan að nafni, sendi átta þúsund orða símskeyti til utanríkisráðuneytisins bandaríska í febrúar árið 1946, þar sem hann greindi stefnu Kremlverja og hvernig Bandaríkjunum væri best að bregðast við henni. Hann spáði í raun fyrir um hvernig andstæðar fylkingar austur og vesturs myndu skipa sér á næstu árum. Í skeytinu hvatti Kennan til að útþenslustefnu Sovétríkjanna yrði haldið í skefjum með harðri og ákveðinni innilokunarstefnu (e. containment). Skeytið fjallar því í meginatriðum um utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar og hvaða áhrif hún gæti haft að lokinni styrjöldinni. Kennan reyndi einnig að kafa í utanríkisstefnu Sovétríkjanna.
John L. Gaddis sagði að Stalín hefði fljótlega komist á snoðir um skrif Kennans og beðið sendiherra Sovétríkjanna í Washington um sambærilegt skeyti. Það fékk Sovétleiðtoginn og sagði Gaddis að það hafi endurspeglað skoðanir Stalín sjálfs um að Bandaríkin væru kapítalískt ríki sem stefndi að heimsyfirráðum og væri jafnframt að auka herstyrk sinn svo um munaði. Gaddis hélt því fram að vitneskja Stalíns um skeyti Kennans hafi orðið til þess að hann tók á móti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Moskvu í apríl 1947 og fullvissaði ráðherrann um að þó illa gengi að leysa málefni stríðshrjáðrar Evrópu væri það ekkert stórmál, ekkert lægi á. Gaddis fullyrti að það hefði langt í frá róað ráðherrann.
Kennan sagði sjálfur árið 1947 að Bandaríkin gætu ekki búist við friðsamlegri sambúð við Sovétríkin í fyrirsjáanlegri framtíð enda væri það stefna Kremlverja að brjóta smám saman niður og veikja andstæðing sinn. Hann hélt því fram að á móti kæmi að Sovétríkin væru mun veikbyggðari en Bandaríkin og að leiðin til sigurs á kommúnismanum væri að þrauka, vera staðfastir í trúnni á eigin gildi og verðleika og þannig þreyta Moskvuvaldið uns það gæfist upp og aðlagaði sig að vestrænum gildum. Sagnfræðingnum Anders Stephanson hefur fundist greining Kennans ófullnægjandi, fyrst og fremst því að Kennan hefði aldrei kannað mikilvægi hugmyndafræðilegrar stefnu Sovétríkjanna og hafi því frekar verið að réttlæta aðgerðir gegn þeim en reyna að spá raunverulega fyrir um hegðun þeirra í framtíðinni. Stephanson benti einnig á að Kennan hafi fljótlega fallið frá innilokunarstefnunni en það hafi verið orðið um seinan strax árið 1948.
TRUMAN-KENNINGIN OG MARSHALL-AÐSTOÐIN
Eftir lok síðari heimsstyrjaldar virðast Bandaríkjamenn hafa haft skilning á að Sovétmenn þyrftu að eiga vinveitta nágranna. Bandaríski sagnfræðingurinn Thomas A. Bailey hélt því fram þegar árið 1950 að útþenslustefna Sovétríkjanna strax eftir seinna stríð hafi orðið til þess að Bandaríkjamenn og Bretar töldu sig þurfa að bregða skjótt við. Hann sagði að yfirvöldum í Bandaríkjunum hafi þótt mikill munur á að halda góðu samkomulagi við nágrannaríki sín eða að ráða algerlega yfir þeim. Svo er að sjá að Bailey hafi talið að bandarísk stjórnvöld hafi óttast að í kjölfar styrjaldarinnar gæti hugmyndafræði sovétsins, kommúnisminn flætt nánast óstöðvandi yfir Evrópu. Hálfu öðru ári eftir sameiginlegan sigur bandamanna á Þjóðverjum lagði Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna fram kenningu sína sem gekk í meginatriðum út á nauðsyn þess að halda kommúnismanum í skefjum hvar sem hann seildist til áhrifa.
Þarna boðaði Bandaríkjaforseti nýja utanríkisstefnu. Sagnfræðingar eru ekki á einu máli hvort hún snerist um að vernda hagsmuni Bandaríkjanna gegn raunverulegri eða ímyndaðri ógn af hálfu Sovétríkjanna eða hvort hér var á ferðinni stefna sem ætluð var til að hafa bein afskipti af innanríkismálum annarra þjóða í þeim tilgangi að hafa hemil á kommúnismanum. Dennis Merrill sagnfræðingur sagði að Truman kenningin hafi komið fram á þeim tímapunkti þegar leiðtogar Bandaríkjanna voru teknir að átta sig á því að utanríkisstefna þeirra gæti haft áhrif á aðra menningarheima, enda óttuðust þeir að pólítískar væringar í fjarlægum löndum gætu haft gríðarleg áhrif, ekki aðeins á Bandaríkin heldur siðmenninguna alla. Truman sagði að sérhver þjóð yrði að velja milli tvenns konar lífshátta sem annars vegar byggjast á vilja meirihlutans, og birtist í mynd frjálsra stofnana, fulltrúaþingsstjórnar, frjálsra kosninga, öryggis fyrir frelsi einstaklingsins ... hinn byggist á vilja minnihlutans, sem er troðið upp á meirihlutann. Sá styðst við ofbeldi og kúgun ... fyrirfram ákveðnar kosningar og undirokun réttinda einstaklingsins." Grundvallarástæða Bandaríkjamanna fyrir að veita Tyrklandi og Grikklandi fjárhagsaðstoð var ótti við að kommúnistar næðu völdum í löndunum. Haldið hefur verið fram að eftir að Truman-kenningin kom fram hafi stjórn Stalíns ákveðið að loka Austur-Evrópu. Thomas Bailey lýsti ástandinu þannig að Grikkland og Tyrkland væru smáir fletir í varnarlínunni gegn útþenslu kommúnismans og að eitthvað enn áhrifameira yrði að gera til að verjast falli lýðræðisaflanna í veröldinni.
Marshall utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í júní 1947 að til stæði að halda áfram efnahagsendurreisn ríkja Evrópu en hvatti þau jafnframt til sjálfsþurftar. Ráðamenn í Sovétríkjunum urðu þegar mjög tortryggnir og höfnuðu þátttöku í ráðstefnu sem halda átti um samningu áætlunar til endurskipulagningar Evrópu. Hið sama gerðu nágrannaríki þeirra, enda fór svo að ekkert ríki sem talist gat til Austur-Evrópu tók þátt í ráðstefnunni sem haldin var í júlí 1947.
Viðbrögð Sovétmanna lýsa því vel hvernig andrúmsloft vantrausts varð æ meira áberandi eftir því sem fram liðu stundir. Markalínur stórveldanna urðu sífellt greinilegri. Geir Hallgrímsson síðar borgarstjóri og forsætisráðherra skrifaði í tímarit sjálfstæðismanna, Stefni, árið 1950 að samtök Vestur-Evrópuríkjanna í Marshall aðstoðinni hafi í bili í það minnsta stöðvað útþennslu kommúnista í vesturveg." Þessi orð geta bent til þess skilnings að hugmyndin að baki Marshall aðstoðinni hafi verið að stöðva útrás Sovétríkjanna til vesturs. Adlai Stevenson sem var sendifulltrúi Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu Þjóðanna 1962 hélt því reyndar fram að Sovétríkin hafi tekið til við útþenslu sína umsvifalaust og ljóst var að Þjóðverjar væru að bíða ósigur í styrjöldinni. Við það væru þær þjóðir sem vildu verja frelsi sitt ... neyddar til að grípa til varnaraðgerða." Það bendir sterklega til að grundvöllur kalda stríðsins hafi verið lagður all nokkru áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk.
KJARNORKUSPRENGJAN
Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima 6. ágúst 1945 sem sýndi glögglega fram á hernaðarlega yfirburði þeirra í veröldinni. Það breyttist þó í júlí fjórum árum síðar þegar kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup stórveldanna hófst við að Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju. Þrátt fyrir að stórveldin kepptust um að framleiða æ ógnvænlegri vopn hélt breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm því fram að sérstaða kalda stríðsins hafi einmitt verið sú að með því að viðhalda valdajafnvægi milli stórveldanna hafi ekki verið yfirvofandi hætta á heimsstyrjöld. Það stangast á við minningar þeirra sem lifðu þessa tíma þegar þeim fannst sú hætta æ vofa yfir, raunveruleg eða óraunveruleg, að heimsendir gæti skollið á fyrirvaralaust. Hobsbawn hélt því fram að bæði stórveldin hefðu fallið frá því að stríð væri liður í stefnu þeirra hvors gegn öðru, enda jafngilti það sjálfsmorðsyfirlýsingu af beggja hálfu. Tilvist kjarnorkusprengjunnar telur Hobsbawn að hafi aukið á vantraustið milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna enda mun Stalín hafa látið njósna um kjarnorkutilraunir bandamanna sinna í heimsstyrjöldinni. John L. Gaddis nefnir það sem dæmi um vantraustið sem ríkti milli þessara ríkja þrátt fyrir að þau væru að heygja stríð gegn sameiginlegum óvinum. Hið sama gilti að sjálfsögðu um að halda Sovétleiðtoganum óupplýstum um hið hræðilega nýja vopn. Stalín fannst, að sögn Gaddis, að ítökin sem ríkin ættu að fá að lokinni heimsstyrjöldinni ættu að vera í samræmi við hve miklu blóði þær hefðu þurft að úthella, þetta nýja vopn mun hafa ýtt enn frekar undir þá skoðun hans.
Þrátt fyrir að Sovétmenn lýstu yfir stríði á hendur Japönum tveimur dögum eftir kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna hefur því verið haldið fram að Bandaríkjamenn hafi viljað halda Sovétríkjunum utan við stríðið í Japan. Til að tryggja það hafi þeir flýtt því sem verða mátti að varpa kjarnorkusprengjum á tvær þarlendar borgir. Eins hefur sú skoðun komið fram að kjarnorkuárásirnar hafi komið Stalín og hans mönnum í Kreml í varnarstöðu gagnvart Bandaríkjunum, þó ekki hafi dregið úr samstarfsvilja þeirra, samstarfið yrði aðeins að vera á forsendum Kremlverja sjálfra. Thomas Bailey sagðist aftur á móti telja víst að Sovétmenn hafi vitað að árásirnar voru fyrirhugaðar og að fögnuður Bandaríkjamanna yfir því að Stalín hafi loks ákveðið að lýsa yfir stríði gegn Japönum hafi hratt breyst í mikla óánægju, fyrst og fremst vegna þess að þeir gáfust fljótlega upp og hins vegar þegar upp komst að Kremlverjar eignuðu sér sigurinn heimafyrir. Til að bæta gráu ofan á svart fannst bandarísku þjóðinni að Roosevelt Bandaríkjaforseti hafi þurft að greiða of hátt verð fyrir þátttöku Stalíns í stríði sem hann hefði engan veginn viljað láta fram hjá sér fara. Bailey þótti reyndar þjóðin fulldómhörð gagnvart Stalín, hann hafi verið í góðri samningsstöðu gagnvart Bandaríkjamönnum. Óneitanlega taldi Bailey þó að þessi framkoma hafi leitt til enn frekara vantrausts bandarísku þjóðarinnar gagnvart Sovétríkjunum.
Það er skoðun Johns L. Gaddis að Truman Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans hafi talið, að tilvist og notkun kjarnorkusprengjunnar myndi mýkja afstöðu Stalíns varðandi stöðu Sovétríkjanna í uppbyggingunni eftir stríð en þess í stað reyndi Sovétleiðtoginn af enn meiri hörku að ná fram stefnumiðum sínum. Með því gæti hann fyrst og fremst tryggt stöðu Sovétríkjanna. Vantraustið stigmagnaðist milli Breta og Bandaríkjamanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar, talsverðu áður en heimsstyrjöldinni lauk. Gaddis þykir, líkt og öðrum, erfitt að fullyrða nákvæmlega hvenær kalda stríðið hófst, enda voru ekki gerðar neinar árásir, ekki var lýst yfir nýju stríði né var skorið á diplómatísk tengsl. Það sem gerðist var að óöryggi æðstu ráðamanna þessara ríkja jókst sífellt meðan þau reyndu að tryggja innbyrðis stöðu sína í kjölfar ófriðarins. Niðurstaðan varð sú að Evrópa, og í raun veröldin öll skiptist nánast í tvennt, aðskilin með járntjaldi" milli austurs og vesturs.
Viðbrögð Palme Dutt lýsa andrúmsloftinu vel. Hann fullyrti að kjarnorkusprengjan og einokun vesturveldanna á henni, hafi breytt valdahlutföllum heimsins, skapað möguleika á endurlífgun ráðagerða um bresk-bandarísk heimsyfirráð og hefði kippt grundvellinum undan samvinnu og gagnkvæmu trausti, og henni fylgdi ný allsherjar áróðursherferð gegn Sovétríkjunum."
RÆÐA CHURCHILLS
Í mars árið 1946 flutti Winston Churchill ræðu í Westminster háskólanum í Fulton í Missouri-fylki í Bandaríkjunum þar sem hann notaði hugtakið járntjald" til að lýsa áhrifaskiptingu veraldarinnar milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Almenningur leit sennilega enn á Sovétmenn sem vini og vopnabræður sem hefðu af ósérhlífni barist við hlið vesturveldanna gegn yfirgangi nazismans og japanska keisaraveldisins. Því þótti það bera vott um óþarfa stríðsæsingatal þegar Churchill sagði:
Annarsstaðar en í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem kommúnismans gætir lítið, eru kommúnistaflokkar landanna, eða fimmta herdeildin, vaxandi ógnun og hætta allri kristilegri menningu. Þetta eru sorglegar staðreyndir og vér sýndum mikla fávísi, ef vér gerðum oss ekki fulla grein fyrir þeim meðan tími er til.
Enn er áhugavert að líta til hvað Palme Dutt hafði að segja. Hann rifjaði upp spádóm Jósefs Göbbels, áróðursmálaráðherra nazista sem hafði í einni af hinstu ræðum sínum fullyrt að Evrópu og Þýskalandi yrði skipt upp í bresk-amerísk og sovésk yfirráðasvæði, sem myndi leiða til árekstra milli stórveldanna. Í þeirri ræðu notaði Göbbels hugtakið járntjald" til að lýsa hulunni sem Sovétríkin myndi breiða yfir skipulagningu sína á Austur-Evrópu. Dutt hélt því fram að í ræðu sinni hefði Churchill í raun verið að reyna að blása til ófriðar gegn Sovétríkjunum, nánast að hvetja til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Hann hvatti til að Bretland horfði til lýðræðislegra utanríkisstjórnmála og fullyrti að breska þjóðin óskaði eftir vináttu við Sovétríkin en ekki við fimmtu herdeild" bandarísks auðvalds.. Á margan hátt er hægt að fullyrða að Churchill hafi haft rétt fyrir sér, enda reis járntjaldið svokallaða nánast eftir sömu markalínum og stórveldin höfðu ákvarðað á Yalta ráðstefnunni rúmu ári fyrr.
BARNIÐ FÆR NAFN
Það er í mannlegu eðli að gefa því sem ber fyrir í lífinu heiti. Við það öðlast það ákveðinn raunveruleika, sess og sæti. Það er nokkur óvissa um hver hafi fyrst notað hugtakið kalda stríðið yfir þá spennu sem ríkti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fyrir lok og í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Vitað er að breski rithöfundurinn George Orwell notaði það tvisvar, innan gæsalappa, fyrst í dagblaðinu Tribune í október 1945 og svo í The Observer hálfu ári síðar. Viðskiptajöfurinn og stjórnmálaráðgjafinn Bernard Baruch mun hafa sagt í ræðu sem hann hélt í apríl 1947 að Bandaríkin væru komin í kalt stríð og Walter Lippmann, blaðamaður, rithöfundur og stjórnmálaskýrandi, notaði hugtakið í samnefndri bók árið 1947.
Ástandið sem litaði heimsmálin um fimmtíu ára skeið var komið með nafn, og því var hægt að tala um það, reyna að útskýra það og átta sig á orsökum þess og afleiðingum.
NIÐURLAG
Ekki er mögulegt að benda á eina ákveðna dagsetningu og halda því fram að þann dag hafi kalda stríðið skollið á. Sumir sagnfræðingar og aðrir fræðimenn hafa miðað við árið 1945 en þá kom mismunandi stefna stórveldanna varðandi Austur-Evrópu upp á yfirborðið og vantraustið milli þeirra varð nánast áþreifanlegt. Upphaf óstöðugleika í samskiptum austurs og vesturs má óhikað rekja til aðstæðna og atburða sem gerðust áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk. Frumkvæði Bandaríkjamanna í smíði kjarnavopna, gagnkvæmar njósnir stórveldanna og ásakanir um brot á samningum á báða bóga urðu til að kynda hið ískalda ófriðarbál. Vantraustið stigmagnaðist mánuðina og árin eftir stríðslok og óhætt er að fullyrða að kalda stríðið hafi verið tekið að geysa fyrir árslok 1947, eftir að Truman-kenningin var lögð fram og Marshallaðstoðin hófst. Niðurstaðan er því sú að upphaf kalda stríðsins megi fyrst og fremst rekja til atburða sem gerðust á árabilinu frá 1945 til 1947.
Kalda stríðið fékk að lokum nafn og varð þar með samtvinnað raunveruleika veraldarinnar í fimm áratugi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ríkisvald
23.4.2013 | 11:49
Manneskjan er félagsvera sem frá örófi alda hefur búið í samfélagi við aðrar verur sömu tegundar. Samfélögin hafa verið misjöfn og margvísleg en hafa reynt að finna hina bestu leið sem völ er á til að sambúð fólksins verði sem þolanlegust. Frá sjónarhóli nútímamannsins hafa sumar þeirra tilrauna ekki verið ýkja skynsamlegar né sérstaklega hagkvæmar stærstum hluta þess fólks sem samfélögin hafa byggt. Smám saman hafa orðið til stofnanir innan samfélaga manna, sumar hafa orðið tímans tönn að bráð og horfið meðan aðrar hafa vaxið og dafnað.
Ein þeirra stofnana, þó huglæg sé, sem hafa gríðarleg áhrif á tilvist fólks er ríkið og ekki síður það vald sem því er búið, oft nefnt ríkisvald. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan einvaldskonungur einn í Evrópu á að hafa fullyrt hiklaust að hann sjálfur væri ríkið. Sjálfbirgingslegum konungi sem taldi sig fá valdið rakleiðis frá Guði var í þann tíð óhætt að tala þannig, en fljótlega eftir daga þessa konungs, og jafnvel meðan hann lifði, tók efasemda að gæta um að valdið kæmi frá himnaföðurnum sem fulltrúi hans á jörð sæi um að útdeila af visku sinni. Hugmyndir tóku að kvikna um að lýðurinn, fólkið sem skyldi háma í sig kökur vegna skorts á brauði, væri raunveruleg uppspretta valdsins. Hugsuðir víða um Evrópu settu fram hugmyndir um ríkið, valdið og tengsl hvors tveggja við almúgann. Síðan hafa liðið allmörg ár og aldir og nú virðist ríkja almenn samstaða um það að ríkið þiggi vald sitt frá almenningi, þegnum eða borgurum þess. En er það raunverulega svo? Þegar spurningunni um hvað ríki eða ríkisvaldið sé virðist aðspurðum oft vefjast tunga um tönn. Ríkið er bara þarna, hefur sína tilvist og hefur að margra mati alltaf verið til.
Hvað er ríkisvaldið, hver er uppspretta þess og hlutverk? Er tilvist ríkis og ríkisvalds algerlega óumflýjanleg? Þessum spurningum hyggst ég reyna að svara á næstu síðum.
I
Páll Skúlason, heimspekingur, hefur staðhæft að ríkisvald sé í sjálfu sér alræðislegt en hefur jafnframt, kannski til huggunar, bent á að lýðræði, það að fólk ráði sjálft sínum málum, sé leiðin til að komast hjá alræðinu. Til þess að það sé raunverulega mögulegt telur Páll þó nauðsynlegt að fólk sé vel upplýst.[1]
Á sautjándu öld benti enski heimspekingurinn Thomas Hobbes á það að náttúrulegt ástand stjórnarfars væri í raun óþolandi, því það væri eins og viðvarandi stríðsástand þar sem allir berðust gegn öllum. Hann hvatti til samvinnu byggðri á trausti um að hver og einn stæði við það sem af honum væri ætlast. Með slíku trausti taldi Hobbes að skapaðist tryggt samfélag sem væri hagkvæmara en hið náttúrulega. Til þess að þetta gengi eftir lagði Hobbes mikla áherslu að gerður yrði samfélagssáttmáli; ríki yrði stofnuð og settar á fót ríkisstjórnir, sem ásamt öðrum stofnunum samfélagsins tryggði tiltekið öryggi fólks í millum og gagnvart utanaðkomandi árásum.[2]
Enski raunhyggjumaðurinn John Locke gaf út hina síðari ritgerð sína um ríkisvald árið 1698 þar sem hann lagði fram stjórnspekikenningu sem byggðist á hugmyndum um náttúrurétt og samfélagssáttmála. Á hans tíma hafði konungsvald verið að eflast mjög í Vestur-Evrópu. Að mati Johns Locke byggist ríkisvald á rétti til að setja lög og leggja refsingar við brotum á þeim. Tilgangurinn er að hafa reglu á eignum manna og sjá þeim borgið. Afl samfélagsins, telur Locke, að rétt sé að beita til að framfylgja lögum og og til að verja ríkið fyrir utanaðkomandi árásum, í þágu almannaheillar.[3] Þarna er Locke fyrst og fremst að koma á framfæri hugmyndum sínum um hvernig ríkisvaldið skuli hegða sér og um rétt almennings til að gera uppreisn gegn kúgun og harðstjórn ríkisstjórnar sem ekki fer eftir þeim reglum sem henni hafa verið settar. Jean-Jacques Rousseau, fransk-svissneskur heimspekingur, ritaði samfélagssáttmála sinn sem kom fyrst út árið 1762 og vildi vísa mönnum veginn til æðra frelsis, sem byggjast átti á réttlátum lögum og stjórnskipun. Að mati Rousseaus átti almannaviljinn að vera æðsta vald samfélagsins, en hann hafði samtímis ofurtrú á skynsemi manna.[4] Ríkið ætti því að stjórnast af þessu birtingarformi hins góða í manninum, almannaviljanum.
Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins byggir á kenningum franska heimspekingsins Charles-Louis de Secondat Montesquieus sem hann aftur vann út frá hugmyndum Lockes. Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætisráðherra og lögspekingur, sagði þrískiptinguna í löggjafar- framkvæmda- og dómsvald vera grundvallarreglu stjórnskipunar, einkum í þeim ríkjum sem hann taldi vera lýðfrjáls". Tilvist þessara handhafa ríkisvaldsins taldi Ólafur semsé að hvíldi á þeirri grundvallarreglu að lýðræði ríkti, og að mati Ólafs er löggjafarvaldið frumstofn ríkisvaldsins.[5] Í lýðræðisríkjum er gert ráð fyrir að valdið komi frá almenningi sem kýs fulltrúa sína sem sjá eiga um að gæta og framfylgja valdinu. Miðstýring jókst og efldist í Vestur-Evrópu á 16. og 17. öld, þegar konungsvald styrktist og til urðu fullvalda ríki og ríkisvald í nútíma skilningi. Nítjánda öldin og fyrstu áratugir þeirra tuttugustu mörkuðu allmiklar breytingar í samskiptum ríkisvaldsins við almenning í ríkjum Evrópu. Einveldi liðu smám saman undir lok og lýðræðisþróun var mikil. Á sama tíma jukust möguleikar ríkisvaldsins á að beita áhrifum sínum til ystu endimarka ríkjanna.[6]
Á Bretlandi hófst þróun sem tók langan tíma, konungsvaldið takmarkaðist og kjörið þing tók við þeim völdum sem konungur áður hafði haft. Til varð fyrirbærið þingræði sem felur í sér að ríkisstjórn, sem er þá eftir orðanna hljóðan það fyrirbæri sem stjórnar ríkinu, hefur ríkisvaldið, verður að njóta stuðnings meirihluta þingsins.[7] Þingræðið er hugsanlega einhvers konar farvegur til að beisla almannaviljann sem Rousseau virtist hafa ofurtrú á.
Þess ber að sjálfsögðu að geta að hugsuðir eins og Tómas Aquinas og Georg Friedrich Hegel töldu ríkið af náttúrulegum meiði, að samfélag án ríkis væri óhugsandi og útilokað.
II
Ef við göngum út frá hugmyndum Lockes, Montesquieus og Rousseau um skynsamlegt, þrískipt ríkisvald sem sér um að hafa reglu á samfélaginu, má greina einhvers konar afl sem hefur almannaheill í þess orðs víðustu merkingu að leiðarljósi. Enda er það svo í nútímalýðræðisríkjum að til hefur orðið kerfi stofnana sem settar hafa verið á fót til að tryggja heill almennings, og samtímis jafnvel til að framfylgja almannaviljanum. Samkvæmt kenningu Lockes hefur ríkið rétt til að verja sig fyrir utanaðkomandi árásum, sem þýðir að því er afmarkað ákveðið landsvæði. Hvort tveggja á einmitt við um nútímaríki, þau eru landfræðilega afmörkuð og hafa rétt til að verja sig, inn- og út á við. Það ríki sem hefur getu og úrræði til að halda uppi eigin vörnum telst sömuleiðis vera fullvalda.
Hér má horfa til þýska félagsvísindamannsins Max Weber sem hefur haldið því fram að ríki hafi einokun á lögmætri valdbeitingu á afmörkuðu landsvæði sínu, og notar lagasetningarvald sitt til að setja þær reglur sem því og fólkinu ber að fara eftir. Með þessu er þó gert ráð fyrir að valdinu sem fulltrúum fólksins er fólgið sé ætíð beitt af skynsemi og góðvilja. Að mati Webers hafði hugtakið ríki þó ekki náð fullum þroska fyrr en í nútímanum, enda hafði það vaxið og þroskast í tímans rás.[8] Félagsfræðingurinn Michael Mann hefur haldið því fram að vald ríkisins sé nú orðið gríðarlegt. Hann hefur líka greint hversu voldugt ríkisvaldið er eftir mismunandi gerðum ríkja, þar sem greinilegt er að lénskerfi er lang valdaminnst og mesta valdið hvílir hjá valdboðsríkjum, eða í einræði.[9]
Ef við gerum ráð fyrir að ríkisvaldið þurfi að vera byggt á upplýsingu og almannavilja, má ætla að það ríkisvald sem hentar best sé það sem almenningur verður minnst var við. Í nútímaríki eru það embættismenn ríkisins sem hafa einir rétt til að beita valdi þess. Slíkt gæti auðveldlega valdið kvíða. Er tilvist ríkisins og einkaréttar þess á valdbeitingu algerlega nauðsynleg og óumflýjanleg? Anthony De Jasay, ungversk ættaður hagfræðingur og heimspekingur, mikill andstæðingur ríkisafskipta hefur til dæmis velt upp þeirri hugmynd hvort það tæki því að finna upp ríkisvaldið væri það ekki til. Hann fullyrðir að ríki séu á grundvelli uppruna síns, einhvers konar óhapp sem samfélagið hafi þurft að laga sig að, og að almenningur hafi ímyndað sér að hann þyrfti á ríkisvaldinu að halda. Jasay virðist ekki telja útilokað að ríkið gæti notað einokun sína á að beita afli gegn þeim sem það fær afl sitt frá; almenningi, sem í raun er algerlega á valdi ríkisvaldsins. Svo er að sjá að honum finnist það ekki áhættunnar virði.[10] Sennilega eru ekki allir sammála þessu mati Jasays, en ríkisvaldið hefur þó þanist mikið út, undanfarna áratugi, og með því hefur fjölgað lögum sem snúa beinlínis að rekstri ríkisins og stofnana þess, en eru ekki eingöngu með það að markmiði að auka vellíðan og réttindi almennings og að bæta samskipti þeirra innbyrðis. Að mati fræðimanna á borð við ítalska lög- og félagsfræðinginn Gianfranco Poggi er eitt helsta einkenni nútímaríkisins er mikil stofnanavæðing, enda er óhætt að fullyrða að það lætur fáa þætti mannlegs lífs óáreitta.[11] Það þarf ekki að líta lengi í kringum sig í íslensku samfélagi nútímans til að komast á snoðir um það.
Hluti af valdboði ríkisins nær til þess að útilokað sé fyrir íbúa þess að segja sig úr lögum við það; hvort sem mönnum líkar betur eða verr neyðast þeir til að tilheyra tilteknu samfélagi. Páll Skúlason segir beitingu alls valds ætíð vera vandasama, valdbeiting fulltrúa ríkisvaldsins á að hans mati að vera í þágu almennings.[12] Hann slær þó þann varnagla að ríkisvaldið sé alræðislegt í sjálfu sér, og er sama sinnis og Jasay að ekki sé til örugg trygging fyrir því að það misbeiti ekki afli sínu. Þó telur hann að öflugt dómsvald og réttarvitund borgaranna geti farið næst því að tryggja að ríkisvaldið haldi sig á mottunni.[13] Tilgangur laganna, frumstofns ríkisvaldsins, var að mati Lockes einmitt að vernda og auka frelsi en ekki að takmarka það eða afnema; að tryggja réttlæti í samskiptum þegnanna innbyrðis og gagnvart ríkisvaldinu.[14]
Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur, kemst að svipaðri niðurstöðu þegar hann segir að nútímaríki geti ekki beygt þegna sína nauðuga undir vald sitt til lengri tíma.[15] Niðurstaðan verður því ætíð sú sama að fulltrúar ríkisvaldins mega ekki misbeita afli þess, því þá glatar ríkið trausti almennings sem er uppspretta valdsins. Gera má sér í hugarlund að geri ríkisvaldið tilraun til kúgunar muni þeir sem valdið stafar frá brjótast undan henni og endurheimta vald sitt. Að mati marxista eru lögregla og her meginverkfæri ríkisvaldsins enda tilheyri það ráðandi yfirstétt.
III
Friedrich Nietzche notaði líkingamál um ríkið eins og svo margt annað, hann kallaði það köldustu ófreskju í heimi sem gleypti fjöldann, tyggði hann og jórtraði á honum.[16] Í gegnum þessa andstyggilegu lýsingu heimspekingins þýska mætti sjá glitta í nútímaríkið sem sífellt þarf að glefsa í almúgann, ríkið seilist alltaf dýpra í vasa borgaranna til að fjármagna æ dýrari starfsemi sína; ríkið hefur einkarétt á að skattleggja þegna sína, hefur algert leyfi til að taka fé hans án þess að upplýsa endilega að fullu fyrir hvað er verið að greiða. Þetta stunda handhafar valds nútímaríkisins að sögn til að efla innviði þess og viðhalda vexti, ásamt því að yfirlýstur tilgangur skattheimtunnar er að geta haldið uppi lögum og reglu í samfélaginu. Gera má ráð fyrir að hluti af skatttekjum ríkisins fari það mikilvæga verkefni að jafna lífsgæði milli fjarlægra svæða ríkisins og til að jafna hlut ólíkra hópa innan þess.
NIÐURLAG
Nútímaríkið nær yfir landfræðilega afmarkað svæði og inniheldur flókið kerfi margvíslegra stofnana með ólík hlutverk. Ríkið hefur orðið til eftir langa þróun í gegnum einhvers konar samfélagssáttmála, þar sem almenningur færir fulltrúum sínum umboð til að annast hlutverk þau sem ríkinu ber að sinna. Valdi þess hefur þótt réttast að skipta í þrennt, löggjafarvald, sem margir fræðimenn telja það allra mikilvægasta, framkvæmdavald og síðast en ekki síst dómsvald. Ríkinu ber að stjórnast af almannavilja, sem að mati hugmyndasmiða á borð við Locke, á að vera birtingarmynd hins góða í manninum. Helstu hlutverkin sem fólkið færir ríkisvaldinu eru að viðhalda innri friði og jafnframt þarf það að vera tilbúið að bregðast við utanaðkomandi ógn eða árás. Sömuleiðis færir almenningur ríkisvaldinu einkarétt til að setja lög og reglur og með þeim rétti fylgir réttur þess til beitingar valds, sem verður ætíð að vera í þágu almennings. Bregðist það mega, og jafnvel eiga, íbúar ríkisins að losa sig við valdhafa sem misbeita valdi sínu. Með skattheimtu, sem ríkið hefur sömuleiðis einkarétt á, ber því að tryggja að lífsgæðum sé jafnt skipt milli allra og að innviðir séu tryggir. Á liðinni öld óx ríkið og vald þess mjög og það tók að skipta sér af æ fleiri þáttum mannlegrar tilvistar.
Ýmsir hugsuðir og fræðimenn hafa talið ríkið náttúrulegt fyrirbæri og aðrir hafa fullyrt að það sé ónauðsynlegt og jafnvel hættulegt, alræðislegt í eðli sínu. Til að halda aftur af ógnareðli ríkisins hafa fræðimenn komist að þeirri niðurstöðu að mikil réttarvitund fólks og öflugt dómsvald þurfi að vera fyrir hendi.
Að öllu framangreindu metnu þykir mér óhætt að komast að þeirri niðurstöðu að ríki og ríkisvald í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, séu ill nauðsyn sem umbera þurfi, meðan við hvorki höfum né þekkjum annað betra.
[1] Páll Skúlason, Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum", Pælingar II (Reykjavík 1989), bls. 71-74.
[2] James Rachels, Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997), bls. 186-188.
[3] John Locke, Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986), bls. 45.
[4] Atli Harðarson, Neyddur til að vera frjáls", Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995), bls. 95.
[5] Ólafur Jóhannesson, Lög og réttur. Þættir um íslenska réttarskipan (Reykjavík 1985), bls. 35.
[6] Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001), bls. 113.
[7] Stefanía Óskarsdóttir, Þingræði verður til", Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011), bls. 39.
[8] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls. 114-115.
[9] Michael Mann, The Autonomous Power of the State", States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989) bls. 114.
[10] Anthony De Jasay, The State (Indianapolis 1998), bls. 35-38.
[11] Gianfranco Poggi, The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule", Handbook of Historical Sociology (London 2003) Gerard Delanty og Engin F. Isin (ritstjórar), bls. 253.
[12] Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 66.
[13] Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 71.
[14] Ritgerð um ríkisvald, bls. 93.
[15] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls.129.
[16] Friedrich Nietzche, Svo mælti Zaraþústra. Bók fyrir alla og engan. Íslensk þýðing eftir Jón Árna Jónsson (Reykjavik 1996), bls. 72-73.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grunnur að nýrri orðabók
22.4.2013 | 21:22
2. I measure one-pulled with it = Ég mæli eindregið með því.
3. Now there won't do any mitten-takes = Nú duga engin vettlingatök.
4. I come completely from mountains = Ég kem alveg af fjöllum.
5. Thank you for the warm words into my garden = Þakka þér fyrir hlý orð í
minn garð.
6. Everything goes on the back-legs = Það gengur allt á afturfótunum.
7. He's comepletely out driving = Hann er alveg úti að aka.
8. It lies in the eyes upstairs = Það liggur í augum uppi.
9. She gave me under the leg = Hún gaf mér undir fótinn.
10. He stood on the duck = Hann stóð á öndinni.
11. I teach in breast of him = Ég kenni í brjósti um hann.
12. On with the butter!!! = Áfram með smjörið!
13. In a green bang = Í grænum hvelli
14. I springteach him = Ég vorkenni honum
15. Front seat advise Sir = Forsætisráðherra
16. Stomp steel into them = Stappa stálinu í þá
17. Hot spring river this book = Hver á þessa bók?
18. Nobody becomes an unbeaten bishop = Enginn verður óbarinn biskup
19. I took him to the bakery = Ég tók hann í bakaríð
20. I will find you on a beach = Ég mun finna þig í fjöru
21.To put someone before a cats nose = Að koma einhverjum fyrir kattarnef
22. I only pay with an angry sheep = Ég borga bara með reiðufé
23. I'll show him where David bought the ale = Ég skal sýna honum hvar
Davíð keypti ölið.
24. I will not sell it more expensive than I bought it = Sel það ekki
dýrara en ég keypti það
25. He doesn't walk whole to the forrest = hann gengur ekki heill til
skógar
26. Mountain handsome = fjallmyndarlegur
27. Are you from you = Ertu frá þér
28. What s on the small fish? - Hvað er á seyði
Vopnaskak eða viðskipti? Ástæður stefnubreytingar vinstri stjórnarinnar 1956-1958 í varnarmálum
22.4.2013 | 10:53
Það geisaði stríð, kalt stríð, en samt var varla hægt að kalla þetta stríð. Íslensk stjórnvöld höfðu talið skynsamlegt vegna stöðu heimsmála að taka þátt í varnarbandalagi vestrænna þjóða, Nató, frá stofnun þess árið 1949 og höfðu gert varnarsamning við Bandaríkin árið 1951. Fram eftir sjötta áratugnum var þó talið að friðvænlegar horfði í veröldinni. Það varð til þess að Framsóknarmenn, sem höfðu setið í ríkisstjórn frá 1953, stóðu að þingsályktunartillögu ásamt stjórnarandstöðunni í mars 1956, um brottför varnarliðsins. Tillagan var m.a. byggð á 7. grein varnarsamningsins frá1951. Bandaríkjastjórn var síður en svo ánægð með þá atburðarás enda taldi hún hernaðarmikilvægi Íslands mikið. Boðað var til kosninga í júní 1956.
Eftir kosningar í júní 1956 mynduðu framsóknarmenn ríkisstjórn ásamt Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Stjórnin ákvað að standa við þingsályktunartillöguna um brottför hersins. Þó fór hann hvergi og hafa ýmsar skoðanir verið uppi um ástæður stefnubreytingar stjórnarinnar. Voru það váleg tíðindi úr veröldinni eða skortur á skotsilfri sem ollu stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar? Var þingsályktunartillagan hugsanlega aðeins kosningabrella af hálfu Framsóknar- og Alþýðuflokks eða beittu bandarísk yfirvöld þau íslensku ef til vill einhvers konar þvingunum til að ná sínu fram?
Hvað segja stjórnmálamennirnir?
Það er talið hafa verið grundvöllur þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var á Alþingi 28. mars 1956 að friðvænlegt væri um að litast í heiminum. Vera hers í landinu væri því óþörf enda héldu ráðamenn því að þjóðinni að uppsagnarferlið samkvæmt 7. grein varnarsamningsins hæfist þegar staðan væri þannig.
Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson hélt því fram að hræðslubandalagið" hafi ætlað að freista þess að ná í atkvæði þjóðvarnarmanna með því að gera kröfu um brottför varnarliðsins. Hann kallaði það ábyrgðarlausan og hættulegan sjónhverfingaleik sem honum hugnaðist ekki. Að hans mati var ályktunin frekar til heimabrúks í áróðursskyni heldur en til þess að umturna utanríkismálastefnu þjóðarinnar". Hann reyndi ekkert að útskýra stefnubreytingu vinstri stjórnarinnar í varnarmálunum en sagði að samningamönnum Íslands hefði tekist að afstýra vandræðum í þessum efnum ... með ... hæfni og lagni". Einar Olgeirsson var á sama máli og hélt því fram að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur hefðu ætlað að notfæra sér batnandi ástand í heimsmálunum sér til framdráttar í kosningunum. Ennfremur að sig hafi alltaf grunað að gripið yrði til einhverra tylliástæðna" til að standa ekki við þingsályktunartillöguna.
Hann taldi hinsvegar að lán Bandaríkjanna stæði í sambandi við það, hvort vinstri stjórnin situr áfram eða fer frá" en hafi ekki beint verið tengt hermálinu. Emil Jónsson, sem gegndi utanríkisráðherraembætti í vinstri stjórninni um skeið árið 1956, hélt því ítrekað fram að niðurstaða sú að herinn færi hvergi hafi eingöngu orðið vegna þess að einmitt um þetta leyti eða í byrjun nóvember, hófu Sovétríkin innrás í Ungverjaland". Ólafur Thors, sem var forsætisráðherra frá 1953 þar til vinstri stjórnin tók við í júlí 1956, sagði að enginn þeirra stjórnmálamanna sem um þetta tímabil fjalla, minnist einu orði á mútufé Bandaríkjastjórnar" sem að mati Ólafs og sjálfstæðismanna annarra átti ekki síður en uppreisnin í Ungverjalandi þátt í stefnubreytingu (vinstri stjórnarinnar)".
Það er greinilegt að stjórnmálamenn þess tíma sem hér um ræðir eru ekki á sama máli um hvað olli stefnubreytingu vinstri stjórnarinnar í herstöðvarmálinu árið 1956. Einn talar um áróðursleik hræðslubandalagsins" meðan annar heldur því fram að viðsjár í Ungverjalandi hafi verið megin ástæða stefnubreytingarinnar en sá þriðji tekur dýpst í árinni og segir að Bandaríkjastjórn hafi mútað" ríkisstjórninni til að skipta um skoðun með því að veita henni hátt lán. Það má hæglega gera því skóna að 1956 hafi farið í gang einhvers konar pólítísk refskák. Taflmennska var stunduð af miklu kappi af stjórnmálamönnum beggja þjóða og reynt að finna leiðir til að sigra andstæðinginn á svarthvítu borði stjórnmálanna.
Fyrir kosningar
Það er ekki síður mikilvægt að velta fyrir sér atburðum fyrir kosningarnar, í kjölfar þingsályktunarinnar, til að átta sig á hvaða stöðu stjórnin sem tók við var í. Hvernig var ástandið á Íslandi?
Mikilvægi varnarliðsins fyrir atvinnulíf á Íslandi var mikið. Margir veltu fyrir sér hvaða áhrif brotthvarf þess hefði á stóran hóp vinnandi fólks og eins á þá staðreynd að varnarliðið skapaði 18% af gjaldeyristekjum ársins 1955. Sovétmenn áttu einnig mikil viðskipti við Íslendinga sem Bandaríkjamönnum hugnaðist að sönnu illa. Hvaða áhrif hefði brotthvarf varnarliðsins á þau viðskipti, og stöðu Nató landsins Íslands ef það yki enn frekar verslan sína í austurvegi?
Hvað um tímasetningu þingsályktunartillögunnar, var hugmyndin að stela" hugmyndum Þjóðvarnarflokksins, án þess að hugur fylgdi máli? Það fannst Þjóðvarnarflokknum sjálfum og hélt því óhikað fram að Framsóknar- og Alþýðuflokkur væru að dulbúa sig sem hernámsandstæðinga og vinstrimenn. Flokksmenn töldu greinilega að um að kosningabragð væri að ræða, hið sama gerðu sjálfstæðismenn. Í leiðara Morgunblaðsins 10. maí 1956 segir:
"Samþykkt tillögunar á Alþingi ... um uppsögn varnarsamningsins ... er ekkert annað en kosningabrella. [S]á sem fyrst og fremst ber ábyrgðina á því, að Framsóknarflokkurinn hefur rofið einingu lýðræðisflokkanna um utanríkis- og öryggismálin er Hermann Jónasson. Það er hans verk, að þessi örlagaríku mál hafa nú verið gerð að kosningabitbeini."
Í maí 1956 setti Bandaríkjastjórn aukna pressu á Íslendinga með því að fresta viðræðum um frekari verkatakavinnu vegna óljósra aðstæðna í varnarmálinu. Svo eldfimt var málið að ekkert íslenskt dagblað sagði frá því fyrr en Tíminn tók af skarið 17. maí, fimm dögum eftir að The white falcon, blað varnarliðsins sagði fréttirnar:
"Hermálaráðuneyti Bandaríkjanna hefir ákveðið að fresta um óákveðinn tíma öllum framkvæmdum á Íslandi, sem ekki hafa þegar verið gerðir samningar um. Ýmsir talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu dylgjað um það á fundum og ögrað með því að dregið mundi úr framkvæmdum, jafnvel viðhaldi á flugvellinum innan skamms. Virðast þeir hafa haft góðar heimildir."
Þarna ýjar Tíminn að því að sjálfstæðismenn hafi vitað af áformum Bandaríkjamanna og jafnvel ýtt undir þau. Hermann Jónasson ræðst til atlögu í grein í sama blaði þann 30. maí.
Vitanlega er ekkert við það að athuga, nema síður sé, að Bandaríkjamenn hætti hér framkvæmdum. En þegar tónninn, um leið og það er gert, er sömu tegundar og í áróðri Sjálfstæðisflokksins, þá getur naumast talizt óheiðarlegt að álykta, að hér sé um samvirkar aðgerðir að ræða. Bandaríkjastjórn hefir því beinlínis hagsmuni af því, eins og bandarísk blöð hafa látið í ljós hvað eftir annað, að Sjálfstæðisflokkurinn vinni í þessum kosningum.
Ekkert virðist þó benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi vitað af fyrirætlunum Bandaríkjamanna í þessa veruna. Þessi skoðanaskipti sýna fyrst og fremst hversu erfitt málið var stjórnmálaflokkunum sem háðu harða kosningabaráttu vorið 1956, einkum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki.
Hræðslubandalagið" náði ekki hreinum meirihluta á þingi í kosningunum 24. júní 1956 en myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu, vinstri stjórn í miðju köldu stríði.
Eftir kosningarÞað varð þegar ljóst að ríkisstjórnin hugðist halda sig við ályktun Alþingis frá 28. mars 1956 um brottför varnarliðsins frá Íslandi og einnig þurfti hún að verða sér út um fé til að fjármagna ýmsar stórframkvæmdir í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, að ógleymdum virkjanaframkvæmdum.
Það varð þó aldrei úr að varnarliðið færi, því fljótlega hófust samningaviðræður milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna, sem lauk með því að samið var um að varnarliðið yrði áfram í landinu. Þær samningaviðræður fóru að miklu leyti fram fyrir luktum dyrum og í leynum.
Valur Ingimundarson rekur og rökstyður hugmyndir sínar um ástæðu sinnaskipta vinstri stjórnarinnar. Hann styðst einkum við bandarísk og íslensk skjöl, þar sem fram kemur að það væri skaðlegt fyrir hernaðarlega hagsmuni Bandaríkjanna ef þingsályktuninni um brotthvarf hersins yrði framfylgt. Valur heldur því fram að Bandaríkjamenn hafi verið staðráðnir í að fá íslenska stjórnmálamenn til að skipta um skoðun". Einnig rekur hann hvernig stjórnin reyndi að fá lán hjá Vestur-Þjóðverjum og Frökkum án árangurs.
Ríkisstjórnin var í verulegum bobba því hún fékk ekki lán á Vesturlöndum, og varla gat hún leitað til Sovétríkjanna enda gæti það brotið í bága við hernaðarhagsmuni Nato. Það er óhikað hægt að halda því fram að þetta hafi styrkt samningsstöðu Bandaríkjamanna, sem líklega beittu áhrifum sínum gagnvart öðrum bandalagsþjóðum Nató, þannig að þau voru ekki umsvifalaust tilbúin að lána Íslendingum fé. Það fór því svo að í september 1956 var hermálið tekið upp við Bandaríkjastjórn í þeim tilgangi að finna málamiðlun. Allar heimildir benda til að bæði Guðmundur Í. Guðmundsson og Emil Jónsson sem báðir gegndu stöðu utanríkisráðherra árið 1956 hafi verið andvígir brotthvarfi varnarliðsins en þó viljað framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Sú afstaða þeirra kann meðal annars að hafa haft áhrif á það sem síðar gerðist. Það var að minnsta kosti þegar hafist handa við að finna lausn sem gæti hentað báðum þjóðum í málinu. Til eru bandarísk skjöl sem sýna að ráðherrar Framsóknar- og Alþýðuflokks hafi gert sér grein fyrir að ekki væri hægt að aðskilja varnarmálin frá lánsþörf Íslendinga, Bandaríkjamenn gerðu sér það einnig ljóst, því íslenska sendinefndin sagði hreint út að ella yrði ríkisstjórnin að leita á náðir Sovétríkjanna. Eftir allnokkurt þóf gerðist það, þann 25. október 1956 að fulltrúi bandaríkjastjórnar lagði fram minnisblað í fimm liðum sem hófst með þessum orðum:
"Bandarísk stjórnvöld eru reiðubúin að til að aðstoða íslensk stjórnvöld í efnahagsmálum, með því að semja samtímis um lánveitingu að upphæð 3 milljónir dollara og þau mál, sem varða varnarsamninginn."
Ýmis fríðindi og ívilnanir voru einnig nefnd í minnisblaðinu. Þarna er auðsætt að Bandaríkjastjórn hugðist nota lánveitingu sína til að knýja á um að varnarliðið yrði áfram á Íslandi, en þeir íslensku stjórnmálamenn sem fengu þetta minnisblað í hendur munu ekki hafa rætt það opinberlega síðan, svo vitað sé. Í kjölfar þessa var haldið áfram að ræða málið fram og til baka, í þeim tilgangi að báðir aðilar næðu lausn sem þeir gætu sætt sig við.
Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra í vinstri stjórninni benti á að minnisblaðið hafi verið lagt fram daginn eftir að stjórnmálaráð Ungverjalands lýsti yfir rétti ríkisins að ráða sjálft málum sínum. Hann veltir upp þeim möguleika að minnisblaðið hafi hreinlega týnst eða gleymst vegna þess hve mikið gekk á í heimsmálunum, þeim sömu heimsmálum og hann staðhæfir að hafi seinna valdið stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar. Valur Ingimundarson svarar Gylfa með þeim rökum að greinilegt hafi verið í öllu samningaferlinu að samningamenn Íslands tengdu saman lán og varnarsamning.
Um miðjan nóvember 1956 hófust viðræður um endurskoðun samningsins. Í lok nóvember komust bandarísk og íslensk stjórnvöld að samkomulagi um að varnarliðið yrði áfram á Íslandi. Bandaríkjamenn fengu sínu framgengt og Íslendingar fengu 4 milljón dollara lán. Þó var ákveðið að skýra ekki frá niðurstöðum samningaviðræðnanna fyrr en um jólaleytið því það myndi ekki vekja eins mikla athygli og á öðrum árstíma". Lánið var gert opinbert 28. desember.
Niðurstöður
En hvað var það raunverulega sem olli stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar? Alþýðuflokksmenn og Framsóknarmenn hafa rökstutt sinnaskipti sín með því að ljóst væri að Ísland þyrfti á hervernd að halda áfram vegna innrásar Sovétmanna í Ungverjaland og vopnaskaks við Súez-skurð þar sem Bretar, Frakkar og Ísraelsmenn beittu vopnavaldi.
Sennilega hafa nokkrar samverkandi ástæður valdið sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar; allmargir framámenn, jafnvel ráðherrar, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks voru æ á því máli að halda skyldi samstarfinu við Bandaríkjamenn áfram. Því voru þeir hugsanlega aldrei alveg heilir í afstöðu sinni til brotthvarfs varnarliðsins. Þó tel ég að hugdettur um að þingsályktunin væri aðeins kosningabrella hafi verið venjulegt pólítískt moldviðri, ekkert bendir til annars. Ísland var fjárþurfi og það má færa fyrir því rök að snjallir stjórnmálamenn hafi gert sér grein fyrir því að nota mætti hernaðarlegt mikilvægi Íslands til að auðvelda lántöku. Þó virðist það vopn hafa snúist í höndum þeirra því lýsingar af tilraunum Íslendinga til að fá lánsfé lýsa nánast örvæntingu, enda varð snemma ljóst að Bandaríkjamenn hugðust nýta sér efnahagsmátt sinn og tengja saman varnar- og lánamálin. Þeir virðast einnig hafa beitt aðrar þjóðir ákveðnum þrýstingi, að lána Íslendingum ekki fé að svo stöddu. Sjálfstæðismenn fullyrtu þó strax að lánveitingin væri meginástæða stefnubreytingarinnar:
Dollararnir, sem Ísland fær eru teknir úr sjóði sem aðeins má nota til ráðstafana, sem forsetinn telur mikilvægar fyrir öryggi Bandarikjanna". Þetta lán er með öðrum orðum veitt sem borgun til ríkisstjórnar Íslands fyrir að hafa fallist á áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi.
Það má þó ekki líta framhjá því að atburðirnir í Ungverjalandi og við Súez-skurð hafa að lokum vakið þá af værum blundi, sem trúðu að smáþjóð eins og Ísland gæti þrifist án afskipta stórveldanna. Sú skýring hefur einnig án efa þótt hljóma best út á við. Það sem vóg að lokum þyngst var lánamálið, hvort sem það var ætlun ríkisstjórnarinnar allt frá upphafi að nota brotthvarf varnarliðsins sem samningsvopn eða ekki.
Einnig vil ég geta þess að Dr. Donald E. Nuechterlein segir í bók sinni að lánveitingin hafi haft áhrif á að áframhaldandi starfsemi Íslendinga í kringum varnarliðið væri tryggð, auk þess sem ríkisstjórnin hélt velli. Hann nefnir einnig að Alþýðubandalagið, sem þó hafði verið haldið utan við samningaviðræðurnar við Bandaríkjamenn, hafi fallist á þessa stefnubreytingu vegna þess að í þeirra huga breyttu nokkrir mánuðir til eða frá í veru varnarliðsins ekki öllu. Dr. Nuechterlein segir að fáir Íslendingar hafi dregið það í efa að náin tengsl væru milli ákvörðunar ríkis-stjórnarinnar að hætta við að senda varnarliðið heim og lántökunnar
Niðurstaðan varð því sú að varnarliðið fór hvergi og samið var um ótiltekna frestun á brottför þess, vegna ástandsins í alþjóðamálum. Hermann Jónasson sagði í umræðum á þingi þegar verið var að gera grein fyrir niðurstöðum viðræðnanna að skoðun sín á málinu hafi ekki breyst heldur ástandið í heiminum. Undir það tóku einnig aðrir þingmenn stjórnarinnar.
Eftir þetta gerði vinstri stjórnin ekkert til að framfylgja ályktun Alþingis frá því í mars 1956 þar til hún lét af völdum 1958. Varnarliðið sat reyndar sem fastast á Íslandi allt til ársins 2006 þrátt fyrir hávær mótmæli oft og tíðum. Þó svo að íslenskar ríkisstjórnir gerðu tilraunir til að láta varnarsamstarfinu lokið fór þó svo að Bandaríkjamenn áttu síðasta orðið. Þeir réðu því endanlega að nóg væri komið þegar þeir þurftu ekki lengur á Íslandi að halda sem hluta af varnarkeðju sinni.
Athugasemdir:
- Í 7.grein varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 segir: Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður- Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt". Í þingsályktunartillögunni frá 28.mars 1956 sagði að ..eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan ... að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja - þó ekki hernarðarstörf - og að herinn hverfi úr landi." Loks var því bætt við að náist ekki samkomulag um það mun málinu verða fylgt eftir á grundvelli 7.gr varnarsamningsins frá 1951. Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar, bls.104.
- Andstæðingar Framsóknarflokks og Alþýðuflokks kölluðu samstarf þeirra fyrir kosningarnr 1956 Hræðslubandalagið", Sjálfir kölluðu flokkarnir samstarfið umbótabandalagið. Flokkarnir tveir gerðu með sér málefnasamning og fóru í mikla fundaherferð til að kynna samninginn og vinna að framboðum sínum. Í raun var þessu þannig farið að flokkarnir hvöttu fylgismenn sína til að kjósa samstarfsflokkinn þar sem hann var í framboði. Þórarinn Þórarinsson, Sókn og sigrar, bls. 266-267.
- Fyrir kosningar hafði góðvinur Ólafs, Konrad Adenauer kanslari Vestur-Þýskalands boðið Íslandi hátt lán, sem Ólafur ekki þáði af ótta við að það kæmi Sjálfstæðisflokknum illa í kosningabaráttunni Ísland var fjár vant og því ekki að undra að Ólafur Thors dragi þessa ályktun af niðurstöðu samningaviðræðnanna við Bandaríkin. Matthías Johannessen, Ólafur Thors ævi og störf II.
- Alþýðuflokkur fékk 18,3% atkvæða í kosningunum 1956, Framsóknarflokkur 15,6% og samtals 25 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% og 19 menn kjörna. Alþýðubandalagið hlaut 19,2% atkvæða en aðeins 8 þingmenn. Þjóðvarnarflokkurinn náði ekki manni á þing. Hagskinna, töflur á bls. 878-881
- Dr. Donald E. Nuechterlein skrifar um Alþýðuflokksmanninn Gylfa Þ. Gíslason að hann hafi verið einn af aðaltillögumönnum þess að farið væri út í kosningabandalag við Framsóknarflokkinn 1956. Gylfi var að sögn dr. Nuechterlein í andstöðu við hin alþjóðlegu sjónarmið í utanríkismálum sem stefna Stefáns Jóhanns Stefánssonar fyrrum forsætisráðherra mótaðist af. Iceland reluctant ally, bls. 17.
Heimildaskrá:
Dagblaðið Tíminn
1956.
Einar Olgeirsson, Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar, Jón Guðnason skráði. Reykjavík, 1980.
Emil Jónsson, Á milli Washington og Moskva. Reykjavík, 1973.
Frjáls þjóð
1953, 1956.
Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland
Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Reykjavík, 1997.
Helgi Skúli Kjartansson, Ísland á 20 öld. Reykjavík, 2002.
Matthías Johannessen, Ólafur Thors ævi og störf II. Reykjavík, 1981.
Morgunblaðið
1956, 1995.
Nuechterlein, Donald E., Iceland a reluctant ally. Ithaca NY, 1961.
Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar, síðara bindi. Reykjavík, 1967.
Valur Ingimundarson, Vinstri stjórnin og varnarmálin 1956". Saga tímarit Sögufélags 33 (1995), bls. 9-53.
Þórarinn Þórarinsson, Sókn og sigrar, saga Framsóknarflokksins 1937-1956 2. bindi. Reykjavík, 1986.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skoðun höfundar á facebook
19.4.2013 | 20:40
Ísland og umheimurinn til loka fyrri heimsstyrjaldar
19.4.2013 | 14:31
Breski sagnfræðingurinn Arnold Toynbee kom fram með þá kenningu að á Íslandi líkt og á grísku nýlendunum í Litlu-Asíu hafi samtök skipshafna skapað lýðræðislegt stjórnskipulag, þar sem sú tvöfalda ögrun að flytja til nýs og harðbýls lands hafi lyft menningunni til mikils þroska. Þar á Toynbee jafnt við stjórnmál sem bókmenntir, en getur þess einnig að ögrunin hafi vart meiri mátt vera. Hann tekur einnig fram að menningarheimur Íslendinga hafi notið einangrunarinnar.[1] Það var enda löngum ríkjandi söguskoðun að Ísland hefði um aldir verið einangrað land á ysta hjara veraldar. Talið var að íbúar landsins hefðu lítinn sem engan áhuga á því sem gerðist utan landsteinananna og sömuleiðis hefðu erlend ríki lítilla sem engra hagsmuna að gæta gagnvart Íslandi og væru áhugalaus um þetta eyland norður í Ballarhafi.
Lengi var talið að Íslandsáhugi útlendinga, og þá einkum stórþjóða hafi fyrst aukist meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð, einkum vegna meints hernaðarlegs mikilvægis landsins. En var það raunverulega svo? Hér á eftir ætla ég að gera grein fyrir stöðu Íslands á alþjóðavettvangi í frá landnámi allt til loka fyrri heimsstyrjaldar.
U P P H A F I Ð
Atlantshafið og fjarlægðin til og frá öðrum löndum voru ákveðin vörn fyrir Ísland. Löng og erfið sigling en þó hvergi ómöguleg, beið þeirra sem hingað vildu sigla. Þó bendir Þór Whitehead, sagnfræðingur, á það í bók sinni Ófriður í aðsigi" hve mikilvægt það hafi verið Íslendingum frá öndverðu að geta átt margvísleg samskipti við grannlönd sín, einkum Noreg[2]. Frá upphafi konungsvalds og fram á tuttugustu öld tengdust málefni Íslands á erlendum vettvangi fyrst og fremst utanríkisverslun og veiðum erlendra manna á Íslandsmiðum.[3] Þeir menn sem kölluðu sig Íslendinga höfðu brotist undan valdi Noregskonungs sem þó hótaði oft að fara með hernaði gegn hinum brottflúnu til að auka tekjur sínar og völd. Vegalengdin frá Noregi til Íslands virðist þó hafa haldið aftur af konungum uns innviðir þjóðveldisins voru orðnir feisknir af stanslausum erjum innanlands. Þá greip Noregskonungur tækifærið og lofaði að tryggja frið og næga aðdrætti. Hinn svokallaði Gamli sáttmáli milli höfðingja Íslands og Noregskonungs varð til. Hér verður ekki tekin afstaða til hvort vangaveltur sagnfræðingsins Patriciu Boulhosa um tilgang og tilurð sáttmálans standist.[4] Sömuleiðis veltir Pétur J. Thorsteinsson, fyrrum sendiherra, fyrir sér hvort sáttmálinn hafi verið ríkjasamningur í nútímaskilningi, enda sé samningurinn við konung einan. Þó var að því er virðist litið á Ísland sem hluta Noregs.[5] Á fjórtándu öld sameinaðist Noregur danska ríkinu, en hafði ekki haft tök á að standa við skuldbindingar konungs gagnvart Íslandi, enda hafði flotaveldi hans hnignað og lítið verið um siglingar til Íslands árum saman. Eftir árið 1537 laut Ísland Danakonungum beint.[6] Fram undir árið 1400 hafði lítið borið til tíðinda í utanríkismálum Íslands; Íslendingar versluðu enda nær eingöngu við Norðurlönd fyrstu aldir Íslandsbyggðar.[7]
E N S K A Ö L D I N O G Þ Ý S K A
Snemma á fimmtándu öld hófust siglingar enskra til Íslands, jafnt til fiskveiða og verslunar. Þeir óskuðu eftir frjálsum aðgangi að fiskimiðum og vildu fá að versla við Íslendinga að vild.[8] Danir neyddust til að gefa verslun og fiskveiðar frjálsar.[9] Landsmenn höfðu setið og vildu sitja einir að fiskimiðum sínum enda hafði sú breyting orðið á útflutningsversluninni að sjávarafurðir voru orðnar aðalútflutningsvaran.[10] Fiskneysla var að aukast og miklar framfarir höfðu orðið í skipasmíðum, sem leiddi til þess að á Íslandsmið flykktust sjósóknarar helstu ríkja Norðurálfu.[11] Talið er öruggt að Englendingar hafi verið byrjaðir að veiða fisk við Íslandsstrendur þegar á fyrsta áratug fimmtándu aldar. Íslendingar munu hafa amast við fiskveiðum þeirra hér við strendur, enda sýndu sæfararnir ensku mikinn yfirgang.[12] Sömuleiðis hófu ensk kaupskip siglingar til landsins, höfðu vetursetu og höfðu uppi allnokkurn ófrið.[13]
Veldi Englendinga á hafinu var að aukast, þeir gerðust öflugasta sæveldi veraldar, drottnuðu á Norður-Atlantshafinu, drógu Ísland inn á áhrifasvæði sitt og sáu til þess að Danakonungi var um megn að beita valdi sínu. Þó virðast þeir enga löngun hafa haft til að eignast landið, þó þeim hefði það sennilega verið í lófa lagið.[14] Margar sögur eru til af miskunarleysi enskra Íslandsfara gagnvart innfæddum og öðrum sem reyndu að standa í vegi fyrir þeim; einna hæst ber dráp Björns Þorleifssonar, hirðstjóra, árið 1467. Ódæði það leiddi af sér ófrið á Norður-Atlantshafi[15].
Í kjölfar ákvörðunar Englandskonungs að senda herskip sín til varnar fiskveiðiflotanum enska á Íslandsmiðum árið 1484 brutust átök enn á ný út milli enskra og danskra sem stóðu í sex ár. Þeim lyktaði með því að Englendingar og Hollendingar fengu leyfi til fiskveiða og verslunar við Ísland, gegn því að þeir greiddu tolla og skatta. Jafnframt var þess krafist að þessar þjóðir endurnýjuðu leyfi sitt á sjö ára fresti. Veturseta erlendra manna í landinu var þó bönnuð. Samkomulag þetta var staðfest með svokölluðum Piningsdómi, þó með þeirri merkilegu breytingu að Englendinga var hvergi getið í dómnum.[16] Með þessu varð auðveldara fyrir Hansakaupmenn að sigla til Íslands. Siglingar Hollendinga hingað urðu aldrei miklar, en aðrar þjóðir t.d Baskar og Spánverjar veiddu talsvert hér við land. Óhætt er að segja að þarna hafi verið veitt ákveðið frelsi til siglinga til Íslands. Varð úr að samkeppni mikil ríkti milli Englendinga og Þjóðverja um siglingar til landsins, sem stóð þó ekki lengi því árið 1602 hófst tímabil sem kennt hefur verið við einokunarverslun Dana.[17]
Þegar líða tók á sextándu öld jókst verslun Þjóðverja en draga tók úr verslun Englendinga. Konungsvald tók að styrkjast í Danmörku á sama tíma, og með tilstilli hers og flota treystu Danir ríkisvald á Íslandi. Um þær mundir urðu breytingar sem drógu úr áhuga Englendinga á að sigla til Íslands; fiskur lækkaði í verði í kjölfar siðaskipta og enskir sjómenn hófu að stunda sjó frá Nýfundnalandi. Þó höfðu þeir bækistöð í Vestmannaeyjum allt til ársins 1558.[18]
Þjóðverjar náðu smám saman miklum ítökum á Íslandi og á miðunum umhverfis landið og munu hafa beitt þeim aðferðum að fá íslenska ráðamenn í lið með sér. Helgi Þorláksson segir það illa kannað, en þó munu vera til þekkt dæmi þessa[19]. Þegar leið á sextándu öld kvörtuðu Þjóðverjar mjög yfir Englendingum sem voru að versla í leyfisleysi á Íslandi, enda höfðu þeir verið hirðulausir um að endurnýja samninginn frá 1490[20]. Danir tóku á hegðun Englendinga af hörku undir lok sextándu aldar og hófu einhverjar mestu hernaðaraðgerðir sínar við Íslandsstrendur og tóku nokkur skip ensk til að þrýsta á að Englendingar virtu fyrrgreindan samning. Helga Þorlákssyni þykir athyglisvert hversu mikla stillingu Englendingar sýndu í þessum átökum, að þeir beittu hvorki ofbeldi né sendu herskip til verndar flotanum[21].
Danakonungum líkaði einnig illa hversu mjög Þjóðverjar græddu á versluninni og vildi láta danska þegna sína njóta viðlíka ágóða. Því var tekið til við að leigja dönskum þegnum eina og eina verslunarhöfn á Íslandi uns Þjóðverjum var bolað út og þegnar Danakonungs fengu Íslandsverslunina alla.[22]
Í S L A N D U N D I R D Ö N S K U V A L D I
Á seytjándu öld stækkaði heimsveldið breska og Ísland og miðin umhverfis féllu í skuggann af þeim miklu landvinningum, kaupskap og auðsöfnun sem blasti við Englendingum.[23] Hafið var sömuleiðis áfram trygging Íslendinga, enda landið afskekkt og einangrað í hernaðarlegu tilliti. Danir sluppu að mestu við að halda uppi landvörnum á Íslandi, en gripu til þess ráðs að afvopna Íslendinga, sem kom sér verulega illa þegar sjóræningjar fóru ránshendi um landið á 17.öld.[24] Danakonungur var hylltur sem einvaldur á Íslandi árið 1662 og á síðari hluta 17. aldar og alla þá átjándu mun ekki hafi hafa borið til stórtíðinda í utanríkismálum landsins. Nokkrar deilur spruttu vegna veiða erlendra skipa á Íslandsmiðum, aðallega Englendingar og Hollendingar.[25] Undir lok átjándu aldar tók þó að draga til tíðinda.
Í S L A N D Á B R E S K U V A L D S V Æ Ð I
Ekkert veldi Dönum sterkara virtist sækjast eftir Íslandi til eignar eða afnota og þó Englendingar réðu ríkjum á öldum hafsins var frekar vandræðalítið með þeim og Dönum, þar til um aldamótin 1800. Á árunum 1785 til 1815 munu ýmsir mektarmenn breskir hafa lagt það til að Bretastjórn legði Ísland undir sig.
Vert er að segja frá að samkvæmt leyniskjali breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 1785 virðist hugur Breta hafa staðið til að innlima Ísland í heimsveldið. Hugsanlega var megintilgangurinn að ná hér í brennistein sem átti að vera nóg til af auk annarra lands- og sjávargæða. Leitað hafði verið til sir Josephs Banks sem hafði komið til landsins í vísindaleiðangri árið 1772, hafði mikið álit á Íslendingum og mun hafa litið á þessi áform sem mannúðarverk.[26] Ekkert varð úr þessu ráðabruggi en forvígismaður þess, John Hyndford Cochrane reyndi hvað hann gat meðan hann lifði að fá Bretaveldi til að innlima Ísland. Líklegt má telja að löngun til að efla eigin frama hafi ráðið framgöngu Cochranes í þessu máli.
Árið 1801 gerði Cochrane lokatilraun til að fá bresku stjórnina til að yfirtaka Ísland, enda sannfærður um að eftir miklu væri að slægjast, en þá voru breyttir tímar. Danir voru hluti af Hlutleysisbandalagi þjóða Norður-Evrópu gegn Bretum í stríðinu sem geysaði um norðurálfu og kennt var við Napóelon Frakkakeisara. Það varð til þess að Cochrane taldi tímabært að hernema landið.[27] Hann áleit að ekki þyrfti fjölmennt herlið til þess. Joseph Banks tók undir þessar hugmyndir, þó þeir væru ósammála um land- og sjávargæði Íslands.[28] Banks taldi hertöku Íslands vera vænlega fyrir vansæla íbúa eyjunnar sem síðar gætu orðið dyggir enskir þegnar. Síðast en ekki síst væri hertakan álitshnekkir fyrir Dani gagnvart öðrum ríkjum Evrópu. Aðstæður urðu þó til þess að ekki kom til hernáms Íslands og líklegt er að Bretum hafi varla fundist svara kostnaði að hertaka landið.[29]
Árið 1807 tók Danmörk afstöðu gegn Bretum í Napóleonsstyrjöldunum, styrjöld var hafin milli þessarra þjóða, skorið var á tengsl Íslands við danska ríkið, Bretar settu á hafnbann, hertóku skip og lokuðu siglingaleiðum. Íslendingar leituðu til óvina danska ríkisins um undanþágu frá hafnbanni til að vöruskortur yrði ekki í landinu, sem Bretar samþykktu og kröfðust á móti að fá að versla frjálst og veiða að vild[30]. Þeir sendu hingað herskip og neyddu fulltrúa konungs til að leyfa þeim verslun, en Danir reyndu hvað þeir gátu að hafa það að engu.
Um sumarið 1809 var brotið blað í samskiptum Dana og Breta þegar til Íslands kom skip í eigu kaupmanns nokkurs, Phelps að nafni. Með honum í för var maður sem er Íslendingum betur kunnur, danskur sjóliðsforingi að nafni Jörgen Jörgensen, Jörundur kallaður hundadagakonungur. Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur, einn helsti sérfræðingur íslenskur um atburði sumarsins 1809, hefur ályktað að Jörgensen kunni að hafa haft nasasjón af fyrri hugmyndum Banks um innlimun Íslands í Bretaveldi.[31] Helgi P. Briem lögfræðingur, gerir því skóna í doktorsritgerð sinni að valdaránstilraun þeirra kumpána sé runnin undan rifjum Banks, segir að ekki sé vitað hvort Banks datt í hug að nota mætti Jörgensen til þess að koma fram byltingunni á sakleysislegan hátt, strax við fyrstu ferð hans til Íslands." Helgi fullyrðir jafnframt að Banks hafi talið Jörgensen rétta manninn til að koma byltingunni af stað og heppilegan til að hafa forystu í ferð Phelps kaupmanns til Íslands.[32] Helgi telur Banks hafi dottið í hug að Daninn væri kjörinn til að hefja byltingu á Íslandi og að þjóðerni hans drægi ennfremur úr áhættu Breta ef illa færi, þeir gætu hæglega þvegið hendur sínar af honum, eins og Helgi P. Briem orðaði það.[33] Það gerði Banks líka svo um munaði þegar eftirmál byltingarinnar hófust og sagði Jörgensen vera stórhættulegan byltingarmann, illmenni, sem hefði troðið hugmyndafræði frönsku stjórnarbyltingarinnar upp á saklausa Íslendinga.[34]
Þór Whitehead segir að Bretastjórn hefði aldrei lagt blessun sína yfir valdarán Phelps og Jörgensens, það hefði verið fullkomin lögleysa að þeirra mati.[35] Kjánaskapur", feikn" og ódæðisverk" voru meðal þeirra orða sem Banks notaði til að lýsa áliti sínu á því sem átt hafði sér stað. Þó er til er bréf sem aldrei var sent íslensku yfirvaldi þar sem Banks hvetur til handtöku stiftamtmannsins danska til að mögulegt væri af hálfu Breta að hernema landið. Ætla má að bresk yfirvöld hafi verið fallin frá öllum slíkum áformum áður en kom til bréfið yrði sent. Anna Agnarsdóttir hefur sömuleiðis slegið því föstu að bresk stjórnvöld hafi verið alsaklaus af byltingunni.[36]
Bretar gerðu þó samning við æðstu menn Íslendinga, Stephensenbræður, fengu tryggingu fyrir verslun og öryggishagsmunum sínum, gegn því að lýsa landið hlutlaust og heita því vernd.[37]
Bresk stjórnvöld fengu það sem þau vildu, án þess að þurfa að innlima Ísland, þegar verslun Breta á Íslandi gat hafist í kjölfar tilskipunar þess efnis árið 1810. Ágóðinn af þeirri skipan var mestur fyrir breska kaupmenn að ógleymdum Íslendingum sjálfum. Ísland var komið undir vernd Bretlands með þessari tilskipun.
Þegar Napóleonsstríðum lauk með Kílarfriðnum 1814 gátu Danir hert tök sín á Íslandi að nýju sökum þess hve sáttfúsir Bretar voru við þá, en eftir því sem leið á öldina nítjándu jókst krafan um fríverslun, sem gekk að lokum eftir.
Í S L AN D T E N G I S T U M H E I M I N U M
Með aukinni tækni á sviði vélbúnaðar, tilkomu gufuvéla, minnkaði einangrun Íslands. Tveir atburðir á síðari hluta 19. aldar sýna það svo ekki verður um villst.
Frakkar óskuðu eftir aðstöðu til fiskvinnslu og verslunar á Þingeyri við Dýrafjörð árið 1855 og var málið rætt fram og til baka í tvö ár á Íslandi og í Danmörku. Ýmsir Íslendingar héldu fram að beiðnin gæti stefnt þjóðerni og atvinnuvegum Íslendinga í tvísýnu en málgagn dönsku stjórnarinnar taldi sjálfsagt að verða við henni ef stöðin hefði ekkert hernaðargildi".[38] Frakkar sendu tiginn prins til landsins til að reka á eftir málinu. Kjartan Ólafsson fullyrðir í tímaritinu Sögu árið 1986 að fáir hafi efast þá að heimsókn sú hafi tengst viðleitni Frakka til að tryggja sér heimild til að stofna nýlendu í Dýrafirði. Máli sínu til stuðnings vísar Kjartan til blaða- og bréfaskrifa.[39]
Annað dæmi er kvittur sem kom upp í Bretlandi um að konungur Danmerkur hyggðist afhenda Rússum Ísland til sjóhernaðar gegn stuðningi við landadeilur Dana í Slésvík. Umræða um málið olli nokkurri kátínu meðal breskra þingmanna sem augljóslega þótti ekki mikil ógn af Íslandi. Þór Whitehead bendir á hér sé á ferð fyrsta dæmi um hugmyndir um að nota mætti Ísland sem stökkpall til árása á grannland, og að fjarlægðin frá Bretlandi til Íslands hefði minnkað.[40]
Skipun ræðismanna ýmissa ríkja á Íslandi er enn eitt dæmið um að landið og umheimurinn væru að færast saman.
T E N G S L I N V I Ð B R E T A
Í lok nítjándu aldar voru viðskipti Breta og Íslendinga orðin fjörug, fastar ferðir gufuskipa voru milli landanna og Bretar voru teknir til við að sækja á Íslandsmið að nýju. Á fyrsta ári nýrrar aldar gerðu Danir og Bretar svo með sér samning sem takmarkaði stærð landhelginnar við þrjár sjómílur. Bretar höfðu dregið Ísland yfir á áhrifasvæði sitt í Napóleonsstyrjöldunum og Danir vildu allt til vinna að halda góðri sambúð við Breta. Íslenskir bændur áttu viðskipti við Breta og þó ætla mætti að óvild skapaðist í garð stórþjóðarinnar vegna ágangs hennar á íslenskum fiskimiðum segir Þór Whitehead að ekki megi sjá annað en vinarþel í garð hennar í heimildum.[41] Verslun við Breta var og mjög vinsæl.
Pétur Thorsteinsson vill ekki kalla atburði sem urðu í tengslum við veiðar Breta á Íslandsmiðum undir aldamótin 1900 þorskastríð".[42] Þó er t.d. sagt frá stofnun eftirlitsfélagsins Vigilantia sem átti að sigta út landhelgisbrjóta og hvernig skoðanir fólksins í landinu virtust skiptast í tvö horn, ýmist voru menn andvígir Bretum og veiðum þeirra eða fylgjandi.[43] Eftir áralangar deilur náðist samkomulag við Breta árið 1901 um tilhögun veiða utan landhelgi.[44]
Bretar og Frakkar, sem höfðu lengi deilt innbyrðis, bundust samtökum gegn vaxandi veldi Þjóðverja árið 1904.
T E N G S L I N V I Ð Þ J Ó Ð V E R J A
Snemma á nítjándu öld tókust vinsamleg kynni með Þjóðverjum og Íslendingum, enda fylltust Þjóðverjar áhuga á menningu Norðurlandaþjóða og norrænum fræðum. Einkum beindist áhugi hugvísindamanna að Íslandi, sem þeir kölluðu Sögueyjuna. Það gat af sér mikla athygli og skilning á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19.öld.[45] Áhrifanna gætti einnig í hina áttina; sterk áhrif voru af þýskri menningu á þá íslensku. Þó voru Íslendingar seinni til að hefja viðskipti við Þjóðverja en að stofna til menningartengsla við þá, það gerðist ekki fyrr en á snemma á tuttugustu öld, en var mjög einhliða, Íslendingum í óhag.[46] Um það bil tíu af hundraði innfluttra vara á Íslandi kom frá Þýskalandi á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöld.[47]
Landveldið Þýskaland var ákveðið í að hasla sér völl á hafinu og hnekkja sjóveldi Breta og gera Þýskaland að heimsveldi. Þó er ekki að sjá að hernaðarlegur áhugi Þjóðverja á Íslandi hafi aukist nokkuð, eins og frásögn af tilraunum stofnenda Milljónafélagsins" bera með sér. Þeir reyndu að afla sér rekstrarfjár frá Þýskalandi og reyndu að heilla Þjóðverja með því að bjóða þeim að reisa kolastöð í Viðey. Áhuginn var enginn enda Ísland víðs fjarri í þeim hugmyndum sem þýskum þóttu bestar við að koma breska flotanum á kné.[48]
Þór Whitehead telur að eftir að gufuskip urðu algeng hafi Ísland orðið hernaðarlega mikilvægara en áður, en í augum Breta réðist mikilvægi landsins fyrst og fremst af því hvernig Þjóðverjar höguðu hernaði sínum.[49]
Í S L A N D Í F Y R R I H E I M S S T Y R J Ö L D
Fræðimenn greinir á um hverjar séu meginorsakir fyrri heimsstyrjaldarinnar sem hófst í lok júlí 1914. Spenna og vantraust höfðu verið að magnast milli stórvelda árum saman sem fundu sér enga aðra útgönguleið en stríð. Hvort sem kenna má hernaðarhyggju eða heimsvaldastefnu um stríðið má telja ljóst að átökin höfðu mun meiri áhrif á Ísland en fyrri styrjaldir í Evrópu. Landið var þegar lýst hlutlaust í stríðinu.[50]
Þjóðverjar höfðu eflt flota sinn mjög, enda höfðu Bretar verið orðnir áhyggjufullir yfir varnarleysi Íslands fyrir stríðið.[51] Atlantshafið varð vettvangur átaka, einkum hvað snerti aðföng og bann við flutningum á þeim. Það hafði mikil áhrif á Íslandi, eins og gefur að skilja. Til að Bretar gætu haft betra eftirlit með því sem gerðist á hafinu umhverfis Ísland varð úr að þeir skipuðu hér sendiræðismann.[52] Þór Whitehead vill ekki þvertaka að þýska flotastjórnin hefði á þessum tíma getað séð sér hag í að eiga aðgang að höfn á Íslandi.[53] Bretum voru hernaðarhagsmunir mjög ofarlega í huga, siglingaleiðin yfir Atlantshaf var þeim gríðarmikilvæg. Sömuleiðis var varnarleysi Íslands stór þáttur í öryggiskeðju Breta, en framvinda hernaðarins á hafinu gaf Bretum þó ekki ástæðu til að taka landið. Þó var landið aldrei langt úr augsýn flotans breska.[54] Hefðu átök færst í aðrar áttir en þau gerðu hefðu Bretar að líkum þurft að koma sér upp flotabækistöð í landinu.
Bretar bönnuðu Íslendingum öll viðskipti við Þjóðverja árið 1915, og þeir sem fóru ekki að þeim reglum voru settir á svartan lista og í viðskiptabann.[55] Bretar vildu styrkja hafnbannið og fengu Íslendinga, sem töldu sig ekki eiga annars úrkosta, til að gera við sig viðskiptasamning án atbeina Dana. Samningar tókust, þar sem viðskiptum við Norðurlönd voru settar þröngar skorður og útflutningur til Danmerkur var alveg stöðvaður, en Bretar lofuðu að tryggja Íslendingum helstu aðföng en svo virðist að þeir hafi þurft að beita nokkrum þrýstingi.[56] Þar með má segja að hlutleysiskröfunni hafi verið vikið til hliðar, enda tóku Íslendingar þarna afstöðu með Bretum gegn Þjóðverjum. Bandaríkjamenn tóku að sér að sjá Íslendingum fyrir nauðsynjum eftir að þeir blönduðust í stríðið.[57] Þegar kom fram á árið 1917 efldu Þjóðverjar kafbátahernað sinn á Atlantshafinu sem stöðvaði um tíma allar siglingar milli Íslands og Norðurlanda, en við þeim vanda var brugðist með að leyfa siglingar til landsins frá Danmörku.[58] Segja má að þarna hafi Íslendingar verið komnir með utanríkismál í sínar hendur, þó þeir væru hluti danska konungdæmisins.[59] Öryggismál ýttu undir aðskilnað við Dani, Íslendingar öðluðust eins konar sjálfræði í sínum málum, og höfðu enga vörn af sambúð sinni við Dani.[60] Íslendingar gátu átt friðsamleg samskipti við Breta þó Danir ættu í stríði við þá.[61] Ætla má af heimildum að Íslendingar hafi almennt verið fylgjandi bandamönnum í stríðinu, en þó var trausta fylgismenn Þjóðverja að finna í landinu, einkum meðal menntamanna.[62]
Þjóðverjar gerðu tilraun með að senda hingað til lands leynilegan erindreka til að stunda áróður og að veita ýmsar upplýsingar um aðstæður á Íslandi. Sá var ógætinn og komst því fljótlega upp um hann, en almennt virðist þýska stjórnin lítinn áhuga hafa haft á Íslandi. Svo er að sjá að Þjóðverjar hafi almennt talið að Bretar hyggðust innlima Ísland í ríki sitt, hér kvað við kunnuglegan tón, en að líkum voru þessar grunsemdir að ósekju, enda höfðu Bretar náð þeim markmiðum sem þeir ætluðu, án þess að þurfa að innlima landið.[63]
S T R Í Ð S L O K O G F U L L V E L D I 1 9 1 8
Með fullveldissamningi Íslands og Dana sem tók gildi 1. desember árið 1918, lýstu Íslendingar yfir ævarandi hlutleysi", sem að mati Þórs Whitehead girti fyrir af fremsta megni að Ísland blandaðist sjálfkrafa í stríðsátök sem Danir væru þátttakendur í.[64] Í reynd var framkvæmd utanríkismála áfram í Danmörku en yfirstjórn þeirra var í Reykjavík.[65]
Þegar samningurinn gekk í gildi var styrjöldinni lokið, en mikilvægt var fyrir Íslendinga að nota hlutleysisyfirlýsinguna til að sannfæra Atlantshafsveldin um að Ísland gengi aldrei í lið með óvinum þeirra. Íslendingar trúðu enda að hlutleysi tryggði best öryggi þeirra og gerði þjóðinni kleyft að búa frjáls og sjálfráða í landinu, þó á valdsvæði Breta sem veittu skjól.
[1] Þórhallur Vilmundarson, Um sagnfræði, þróun sagnaritunar. Heimspekikenningar um sögu. Heimildafræði (Reykjavík 1969), bls. 44-45.
[2] Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík 1980), bls 11.
[3] Pétur J. Thorsteinsson, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, sögulegt yfirlit (Reykjavík 1992), bls. 8.
[4] Sjá Patricia Pires Boulhosa, Gamli sáttmáli: Tilurð og tilgangur. Íslensk þýðing Már Jónsson (Reykjavík 2006).
[5] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 6-7.
[6] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 8.
[7] Sólrún B. Jensdóttir, Ísland á brezku valdsvæði 1914-1918 (Reykjavík 1980), bls. 11.
[8] Ófriður í aðsigi, bls. 14.
[9] Ófriður í aðsigi, bls. 15.
[10] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 8.
[11] Ófriður í aðsigi, bls. 13.
[12] Ófriður í aðsigi, bls. 13.
[13] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 9-10.
[14] Ófriður í aðsigi, bls. 14.
[15] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 11.
[16] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 12.
[17] Ófriður í aðsigi, bls. 14, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 13.
[18] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 13.
[19] Helgi Þorláksson, Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", Saga Íslands VI (Reykjavík 2003), bls. 149.
[20] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 152-153.
[21] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 154-156.
[22] Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds", bls. 142-143.
[23] Ófriður í aðsigi, bls. 16.
[24] Ófriður í aðsigi, bls. 15-16.
[25] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls.13-14.
[26] Anna Agnarsdóttir, Ráðabrugg á dulmáli. Hugleiðingar um skjal frá 1785". Ný Saga, tímarit Sögufélags, 6. árg, (1993) bls. 36.
[27] Anna Agnarsdóttir, Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi á árunum 1785-1815" Saga, tímarit Sögufélags, XVII (1979), bls. 15.
[28] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 17.
[29] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 21.
[30] Ófriður í aðsigi, bls. 17.
[31] Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi", bls. 30.
[32] Helgi P. Briem, Sjálfstæði Íslands 1809 (Reykjavík 1936), bls. 503.
[33] Sjálfstæði Íslands bls. 503.
[34] Eftirmál byltingarinnar 1809", bls. 81.
[35] Ófriður í aðsigi, bls. 19.
[36] Anna Agnarsdóttir, Aldahvörf og umbrotatímar", Saga Íslands IX (Reykjavík 2008), bls. 84.
[37] Ófriður í aðsigi, bls.
[38] Ófriður í aðsigi, bls. 22-23.
[39] Kjartan Ólafsson, Áform Frakka um nýlendu við Dýrafjörð", Saga tímarit sögufélags, XXIV (1986), bls. 196.
[40] Ófriður í aðsigi, bls. 24.
[41] Ófriður í aðsigi, bls. 28.
[42] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 42.
[43] Þórunn Valdimarsdóttir, Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd (Reykjavík 2002), bls. 104-106.
[44] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 49.
[45] Ófriður í aðsigi, bls. 30.
[46] Ófriður í aðsigi, bls. 31.
[47] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 68.
[48] Ófriður í aðsigi, bls. 32-33.
[49] Ófriður í aðsigi, bls. 34.
[50] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 66.
[51] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 67 og Ófriður í aðsigi, bls. 35.
[52] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 67-68.
[53] Ófriður í aðsigi, bls. 35.
[54]Ófriður í aðsigi, bls.37.
[55] Ófriður í aðsigi, bls. 38.
[56] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 71.
[57] Ófriður í aðsigi, bls. 38-41.
[58] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 72.
[59] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 75
[60] Ófriður í aðsigi, bls. 46.
[61] Ófriður í aðsigi, bls. 47.
[62] Ófriður í aðsigi, bls. 42.
[63] Ófriður í aðsigi, bls. 42-45.
[64] Ófriður í aðsigi, bls.47.
[65] Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál, bls. 79.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andlát bloggs
18.4.2013 | 17:24
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hundadagadrottningin
17.4.2013 | 19:11
I N N G A N G U R
Sögusviðið er Reykjavík í upphafi nítjándu aldar, þorp sem taldi nokkur timburhús og dómkirkju. Allt umhverfis þorpið gaf að líta hrjóstruga mela, mýrarfláka eða stórgrýttar hæðir. Híbýli bæjarbúa voru mörg hver óttaleg hreysi en fólkið var á mun hærra menningarstigi en ætla mætti af húsakostinum, þó aðeins væru tveir skólar starfandi í landinu. Í Reykjavík voru á fjórða tug íbúðar- og verslunarhúsa sem stóðu í skipulegum röðum og hálft hundrað kotbæja á víð og dreif, byggðir úr torfi og grjóti. Reykjavík varð sérstakt lögsagnarumdæmi árið 1803 og þangað höfðu þyrpst fátækir þurrabúðar- eða tómthúsmenn en þeir einir gátu nefnt sig borgara sem höfðu fengið svokölluð borgarabréf. Þeir voru flestir kaupmenn og áttu sín hús, enda hafði bærinn verið kaupstaður allt frá árinu 1786. Bærinn var ekki fjölmennur, þar bjó eitthvað á fjórða hundrað manns, þó var hann orðinn miðstöð stjórnsýslu í landinu, þar sem meðal annars landfógeti, landlæknir og biskup höfðu aðsetur. Það var oft hart í ári, vetur langir og snjóþungir, gæftir ekki alltaf góðar og skortur iðulega í landinu. Talið hefur verið að hin svokallaða litla ísöld" hafi skollið á snemma á 13. öld og hafi staðið með örlitlum sveiflum fram á þá tuttugustu. Því má gera ráð fyrir að tíð hafi almennt ekki verið góð í upphafi 19. aldar, á Íslandi. Hart var nyrðra veturinn 1808 til 1809, en ástandið skárra sunnanlands, enda aflaðist ágætlega. Þó Ísland væri fjarri meginlandi Evrópu var það þó alls ekki einangrað land, hugmyndir og tíska bárust yfir hafið til þessa eylands í norðri, heldri konur íslenskar vildu til dæmis alls ekki vera eftirbátar kynsystra sinna í Danmörku eða á Englandi, hvað klæðaburð snerti.
Hér verður sögð saga ungrar íslenskrar konu, sem þráði það heitast að verða hefðarmær, enda hafði hún alla burði til þess. Guðrún Einarsdóttir Johnsen er líkast til eina íslenska konan sem næstum hefur orðið drottning þjóðar sinnar.
I
Í Götuhúsum í Reykjavík bjuggu þegar manntal var tekið árið 1801 Einar Jónsson, tómthúsmaður og kona hans Málfríður Einarsdóttir. Þau áttu þá þrjár dætur, þær Guðrúnu, Bergþóru og Guðríði. Aldur elstu dótturinnar er á reiki en hinar tvær voru eins og sex ára þegar manntalið var tekið. Anna Agnarsdóttir, sagnfræðingur, hefur fært sterk rök fyrir því að Guðrún Einarsdóttir hafi fæðst árið 1789, þar sem hún var skráð 14 ára við fermingu árið 1803. Ekki er að efa að Guðrún hefur verið vel gefin stúlka, og fögur mjög þó ekki gæti hún státað af ættgöfgi, hún virðist hafa haft einstakt lag á að blanda geði við fólk, hún kunni sig og virðist hafa verið fljót að tileinka sér nýja siði. Henry Holland kallaði hana eina af fegurstu stúlkum Reykjavíkur, en hann kynntist henni í Íslandsferð sinni árið 1810. Það fer ekki mörgum sögum af hverrar náttúru kynni Guðrúnar og Hollands voru, en eitthvað gott hefur þeim farið á milli því hann skrifaðist mjög hlýlega á við hana og sendi henni gjafir, eftir að hann sneri heim til Englands.
Úti í hinum stóra heimi geysaði styrjöld, kennd við keisarann franska, Napóleon. Stríðsástandið olli því að skipakomur til Íslands voru stopular, Bretar höfðu hertekið nokkur Íslandsskip árið 1807 og árið eftir fór svo að aðeins eitt skip kom til landsins, sem olli því að skortur varð á ýmsum nauðsynjum í landinu. Í upphafi ársins 1809 komu tvö skip til landsins, annað frá Noregi en hitt var enskt briggskip. Um sumarið kom svo enn eitt skip frá Englandi; með hinum ensku skipum komu menn sem áttu svo sannarlega eftir að setja mark sitt á og breyta lífi hinnar ungu Guðrúnar Einarsdóttur.
I I
Sem kunnugt er var gerð tilraun til að ræna völdum á Íslandi sumarið 1809. Þeir sem léku stærstu hlutverkin þar voru Daninn Jörgen Jörgensen, enski kaupmaðurinn Samuel Phelps og verslunarstjóri hans, James Savignac. Líklegast þykir að Guðrún hafi kynnst þeim kumpánum í spila- og drykkjuklúbbi þeim sem rekinn var í svokölluðu Scheelshúsi, Klúbbnum sem var algengur samkomustaður útlendinga, og var við enda Aðalstrætis þar sem kastali Hjálpræðishersins stendur í dag. Guðrún Einarsdóttir var skráð sem vinnukona í Klúbbnum í manntalinu 1816. Sögur herma að hún hafi verið heitbundin Jörgensen, en það samband mun þó hafa orðið endasleppt. Henry Holland staðhæfir jafnframt að hún hefði orðið eiginkona Jörgensens hefði hann haldið völdum á Íslandi. Aðdáun Andrews Wawn, prófessors í íslenskum og enskum fræðum, á Guðrúnu leynir sér ekki í formála hans að dagbókum Hollands; hann kallar hana remarkable girl" og notar enska orðið affinine" yfir samband þeirra Jörgens, sem gæti bent til að hann telji það hafi fremur orðið til af hagkvæmnisástæðum en af djúpri ást.[1] Telja verður að Jörgensen hafi hvað sem því leið verið afar hlýtt til Guðrúnar, en hagkvæmnistilgátan um samband þeirra þykir mér passa mjög vel við viðbrögð hans þegar hann hitti heitkonu" sína síðar, í slagtogi við mann sem Jörgensen var fremur í nöp við, James Savignac. Eftir að sambandinu við Jörgensen lauk fullyrðir Wawn þó að Guðrún hafi gerst viðsjárvert víf, femme fatale, enda virðist hún hafa átt í ástarsamböndum við marga menn, það langvinnasta og afdrifaríkasta einmitt við Savignac. James þessi Savignac hefur reyndar fengið hin hraklegustu eftirmæli og er nánast sama hvar drepið er niður; Jörgensen sagðist vart telja að til væri ógeðfelldari maður hér á jörð og Gísli Konráðsson mun hafa lýst honum sem ljótum manni - með órakaða efri vör! Margar frásagnir eru til af illdeilum hans við menn á Íslandi en þrátt fyrir það hefur hann líkast verið afskaplega heillandi í augum Guðrúnar, eins og kemur betur fram hér síðar. Eftir að bundinn var endir á valdaránið voru Jörgensen og Phelps fluttir til Englands, en Savignac ílentist á Íslandi til að gæta hagsmuna sápukaupmannsins.
Í Árbókum Espólíns er sagt frá því að Savignac og Gísli Símonarson kaupmaður hafi barist um athygli Guðrúnar, svo heiftarlega að minnstu munaði að til byssueinvígis kæmi milli þeirra. Biskupnum yfir Íslandi, Geir Vídalín, tókst að koma í veg fyrir einvígið en Espólín taldi Guðrúnu hafa látið báða lönd og leið og leitað í faðm enska ræðismannsins, Johns Parkes. Þótti Espólín greinilega nóg um prjálið því hann sagði Guðrúnu hafa borist á með gulli og silkiklæðum. Líkast til taldi Espólín það allt vera gjafir frá ræðismanninum. Parke og Guðrún yfirgáfu Ísland með ensku skipi haustið 1812 og var Savignac með í för og þótti landhreinsun að".[2] Ástralinn Dan Sprod, sem hefur skráð sögu Jörgens Jörgensen og atburða honum tengdum hefur haldið því fram að Guðrún hafi miklu fremur verið í för með Savignac en Parke, sem ég tel að megi til sanns vegar færa. Fátt í samskiptum Guðrúnar og Parkes þykir mér benda að hún hafi haft raunverulegan áhuga á honum Ræðismaðurinn mun hafa gert Guðrúnu ósiðlegt tilboð" þegar til Lundúna var komið sem hún hafnaði, en það varð til þess að hann snerist öndverður gegn henni og vildi ekki með nokkru móti greiða götu hennar aftur heim til Íslands.
I I I
Ætla má að það hafi verið mikið ævintýri fyrir unga konu ofan af Íslandi að koma til stórborgarinnar Lundúna. Alls staðar var ys og þys, háreistar byggingar hvert sem litið var, hestvagnar á ferð og flugi og mannfjöldi mikill. Ekki er þó víst að Guðrún Einarsdóttir hafi gert mikið úr furðu sinni við samferðamenn sína, henni kann að hafa fundist mikilvægara að virðast veraldarvön hefðarmær. Búast má við að henni hafi þó brugðið við þegar hún komst að því að vonbiðill hennar, Savignac, var kvæntur maður og átti börn. Þó virðist það ekki hafa nægt til að hún léti hann lönd og leið því næst fréttum við af henni, ásamt Savignac, í hinu illræmda Fleet-fangelsi, sem var lagt niður á fimmta áratug 19. aldar. Sennilega hefur Íslandsævintýrið verið Savignac dýrt, hann hafði verið dæmdur í skuldafangelsi og Guðrún tók að venja komur sínar til hans. Slíkt munu fangelsisyfirvöld ekki hafa litið hornauga, enda algengt að fjölskyldur dveldu saman í fangelsinu en hinar tíðu heimsóknir Guðrúnar kunna að vera ástæða þess að í einhverjum heimildum er hennar getið sem frú Savignac. Jörgen Jörgensen deildi, fremur óviljugur að sögn, klefa með Savignac en athyglisvert er að Daninn virtist ekki sýna djúpar tilfinningar í garð Guðrúnar, þó hann gerði hvað hann gat til að koma henni úr klóm skrímslisins" Savignacs.
Þegar þarna var komið sögu hafði Guðrún tekið upp Johnsen nafnið, sem án efa var þjálla í munni Englendinganna sem hún umgekkst, en hið rammíslenska föðurnafn hennar. Hún hefur þurft að venjast andrúmslofti stórborgarinnar og er sögð hafa verið mikið veik fyrsta veturinn þar, en mun hafa heimsótt Íslandsvininn Sir Joseph Banks vorið 1813 og tók sennilega að sér að gæta barna Howard-fjölskyldunnar í Finchley það sumar. Peningar voru líklega af skornum skammti hjá stúlkunni en hún fékk aðstoð góðra manna við að komast af í Lundúnum. Þar komu hinir miklu aðlögunar- og samskiptahæfileikar Guðrúnar vel í ljós því henni tókst ekki eingöngu að heilla Banks heldur sömuleiðis Hans F. Horneman, fyrrum ræðismann Dana í borginni að ógleymdum Samuel Whitbread þingmanni, sem vildu allir koma henni heim til Íslands. En holdið er torvelt að temja, nú eða ástarhuginn því þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Jörgensens og Banks að fá Guðrúnu, með ýmsum ráðum, til að forða sér frá Savignac lét hún ekki segjast og leitaði sífellt í faðm hans á ný. Þegar útséð varð með að Guðrún kæmist til Íslands haustið 1813 leitaði Banks til góðvinar síns Sir Johns Stanley og bað hann fyrir stúlkuna veturinn 1813 til 1814. Meginástæða þess mun hafa verið sú að hann bjó í Chesire á Norðurvestur Englandi, víðsfjarri Lundúnum og þar með Savignac.
I V
Guðrúnu Einarsdóttur Johnsen var tekið með kostum og kynjum af Stanley fjölskyldunni á óðalsetri hennar, Winnington, þar sem hún dvaldi fram á vor 1814. Telja má víst að hún hafi gætt barna þeirra Stanley-hjóna, en jafnframt lærði hún ensku og án efa eitthvað fleira nytsamlegt. Í bréfum sem Guðrún skrifaði lafði Stanley síðar má sjá að hún naut mikillar umhyggju og hlýju hjá fjölskyldunni. Hvarvetna má lesa þetta mikla sjálfsöryggi, dugnað og sjálfstæði úr viðmóti Guðrúnar; hún heillaði gestgjafa sína alla og hver og einn virtist tilbúinn að hlaupa undir bagga með henni. Það á ekki síst við um Whitbread og konu hans lafði Elizabeth sem gerðust velgjörðarmenn Guðrúnar eftir að hún sneri aftur til Lundúna að lokinni dvölinni í Winnington. Þeim hjónum hefur efalaust runnið til rifja umkomuleysi ungu stúlkunnar en ekki má síður gera ráð fyrir að fáguð framkoma hennar og lífsgleði hafi hrifið þau. Whitbread þingmaður brást við skjótt þegar hann komst á snoðir um að Savignac og Parke væru á ný komnir fram á sjónarsviðið og sá síðarnefndi tekinn að hafa hótunum við Guðrúnu. Atburðarásin varð líkt og í spennusögu, aðstoðarmaður Whitbreads sótti stúlkuna á hestvagni og þeysti til Liverpool þar sem koma átti henni á skip til Íslands. Til að auka enn á spennuna reyndist skipið nýfarið úr höfn þegar hún komst á áfangastað og þá voru góð ráð dýr. Það varð Guðrúnu til happs að John Stanley komst á snoðir um vandræði hennar og bauð henni húsaskjól að nýju, sem hún þáði með þökkum. Ég á ekki orð til að lýsa þeirri foreldraumhyggju sem mér var sýnd"[3] skrifaði hún í bréfi til Whitbreads, daginn áður en hún komst loksins á skipsfjöl til Íslands, í ágústlok 1814.
Guðrún komst heilu og höldnu til heimalands síns með skipinu Vittoria í septemberbyrjun. Heimildir herma að hún hafi þó fengið heldur þurrlegar kveðjur frá Dönum, búsettum í Reykjavík, vegna kunningskapar síns og tengsla við Englendinga. Þó ætla megi að heimþrá hafi verið farin að þjaka Guðrúnu nokkuð meðan á Englandsdvölinni stóð, undi hún hag sínum ekki vel á Íslandi. Eftir að hafa kynnst menningu stórborgarinnar Lundúna og hefðarlífi Stanley fjölskyldunnar og fleira fólks sem hún komst í kynni við má fullyrða að fásinnið í fólksfæðinni hafi fljótlega gert þessari fjörmiklu stúlku þungt í sinni. Í bréfi til lafði Stanley í ágúst 1815 sagðist hún aldrei geta orðið hamingjusöm á Íslandi en var vongóð um að komast með danskri fjölskyldu utan, sumarið eftir.
V
Skyldi hamingjan hafa brosað við Guðrúnu Einarsdóttur Johnsen í Danaveldi? Hvort sem hún komst þangað með fjölskyldunni sem bar á góma í fyrrnefndu bréfi eða með öðrum hætti liggur ekki alveg ljóst fyrir, en fremur var báglega komið fyrir henni í næstu þekktu heimildum. Þrjátíu árum eftir flóttann mikla frá Liverpool til Íslands var svo komið að Guðrún var bláfátæk beiningakona í Kaupmannahöfn og átti eina dóttur, Málfríði að nafni. Þær mæðgur lifðu við hungurmörk eins og kemur skýrt fram í bréfi Guðrúnar til Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar skrifuðu árið 1845. Þó mátti sjá glitta í þá Guðrúnu sem við þekkjum því hún hafði verið í sambandi við yfirhirðstýru drottningar um hjálp, en öðlingurinn Finnur hefur án efa einnig aðstoðað Guðrúnu eftir fremsta megni.
Hér lýkur sögu Guðrúnar Einarsdóttur Johnsen, um stundarsakir að minnsta kosti. Hver sem örlög hennar urðu er óhætt að fullyrða að hún átti afar merkilegt lífshlaup. Tápmikla, heillandi, metnaðarfulla stúlkan sem hafði engan áhuga á að verða bóndakona á Íslandi upplifði hluti sem samtímafólk hennar hefði varla getað látið sig dreyma um. Þess vegna gæti orðið afar dapurlegt að hugsa til mögulegra afdrifa hennar í Kóngsins Kaupmannahöfn nema með því að leyfa sér að óska þess að örlögin hafi spunnið áfram sinn ævintýravef og gera sér í hugarlund að Guðrún Einarsdóttir Johnsen hafi lokið ævi sinni sem sú hefðarmey sem hún ætíð taldi sig vera.
[1] The Icelandic Journal of Henry Holland 1810, ritstjóri Andrew Wawn (London 1987), bls. 30, 36 og 104.
[2] Pjetur Guðmundsson, Annáll nítjándu aldar I. bindi, 1801 - 1830 (Akureyri 1912-1922), bls. 165.
[3] Hundadagadrottningin", bls. 108.