Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Lýðræðið eitt - 2. hluti

Vilmundur Gylfason: „Villimaður í pólítík“

Vilmundur Gylfason lýsti stjórnmálaskoðunum sínum þannig að þær væru í anda lýðræðis-jafnaðarmennsku.[1]  Eins og faðir hans Gylfi Þ. Gíslason, ráðherra og einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins, var hann talsmaður frelsis og jafnréttis; auk þess var hann fylgjandi markaðsbúskap,en aðhylltist jafnframt mannúð og sígildar siðgæðishugmyndir. Hann taldi að ríkinu bæri að tryggja réttláta tekjuskiptingu og afkomuöryggi almennings, en hafa aðeins hæfileg afskipti af atvinnulífinu til hagsbóta fyrir fjöldann jafnframt því að annast heilsugæslu og menntun.[2] Frelsi einstaklingsins var Vilmundi alltaf mjög ofarlega í huga og kvaðst hann vera andvígur því að ríkisvaldið ráðskaðist um of með það.[3] Hann sagðist samt sjálfur rekast illa í flokki vegna þess hve hann væri íhaldssamur á sumum sviðum en róttækur á öðrum.[4]

Hrifning Vilmundar á þeirri hugmyndafræði er skóp Bandaríkin og franska lýðveldið er í anda trúarinnar á frelsið, enda var það honum mjög ofarlega í huga í öllum hans málflutningi. Hann sagðist einnig styðja valddreifingu í líkingu við hugmyndafræði stjórnleysisstefnu 19. aldarinnar og taldi franska jafnaðarmenn sækja kenningakerfi sitt að hluta þangað.[5] Vilmundur hafði reyndar haldið því fram að notkun hugtakanna „hægri“ og „vinstri“ í pólítískri orðræðu væri úrelt og þjónaði ekki framtíðinni.[6]  Honum varð einnig tíðrætt um valdið og hvernig því mætti beita jafnt til góðs og ills, en fannst hugmyndir Thomas Jeffersons þriðja forseta Bandaríkjanna um það í senn einfeldingslegar og jákvæðar. Hann virtist sammála forsetanum og þar með Rousseau um að því færri sem valdastofnanirnar væru, því betra.[7] Áhuga hans á dreifingu valds og andstöðu við vald á fárra höndum mátti því sjá sem rauðan þráð í málflutningi hans. Eðli og mörk valdsins hafa verið ofarlega á baugi í umræðu samtímans og fræðimenn á borð við ítalska lög- og félagsfræðinginn Gianfranco Poggi hafa t.a.m. gagnrýnt mjög stofnanavæðingu þá sem einkennir nútímaríkið.[8]

Á áttunda áratugnum hóf Vilmundur Gylfason hugmyndafræðilega baráttu sína fyrir breytingum og umbótum á íslensku stjórnkerfi. Megnið af þeim áratug og fram eftir þeim níunda einkenndust stjórnmál á Íslandi af baráttu við verðbólgu og verkalýðsátökum, deilum um veru bandarísks hers í landinu, um byggðastefnu og af átökum við Breta um stækkun íslenskrar fiskveiðilögsögu. Vilmundur og fylgismenn hans töldu einnig að berjast þyrfti gegn spillingu, frændhygli og sukki með fjármuni Vilmundur var þeirrar skoðunar að spillingu linnti ekki nema með tilkomu öflugrar rannsóknarblaðamennsku, líkri þeirri sem hann hafði kynnst á námsárum sínum í Bretlandi.[9] Í augum sinnar kynslóðar væri gamla flokkakerfið úrelt og gera þyrfti róttækar breytingar á umgjörð íslenskra stjórnmála.  Hann leit svo á að nauðsynlegt   væri að endurskoða stjórnarskrána, óbreytt ýtti hún undir veldi stjórnmálaflokkanna, misbeitingu valds og ójafnrétti. Það er til marks um þann baráttuanda sem í Vilmundi bjó að hann nafngreindi þrjá fyrrverandi forsætisráðherra og sagði þá hafa misnotað vald sitt vegna þess hve veik stjórnarskráin og dómsvaldið á Íslandi væru.[10] Einn þeirra var Ólafur Jóhannesson sem hafði verið nágranni fjölskyldu hans um áratugaskeið, faðir æskuvinar hans og vinsæll stjórnmálamaður. Þrátt fyrir slíka gagnrýni vitnaði Vilmundur iðulega til Ólafs þegar hann viðraði kenningar sínar og hugsjónir.[11]

Vilmundur hafði mikinn áhuga á að kosið yrði til sérstaks stjórnlagaþings til að endurskoða lýðveldisstjórnarskrána. Efni gamallar blaðagreinar eftir Gylfa Þ. Gíslason, föður Vilmundar, var meginröksemd hans fyrir hugmyndum að stjórnlagabreytingu. Það kann að vera til sannindamerkis um að megnið af stefnu sinni hafi hann sótt til Gylfa og litlu bætt við sjálfur líkt og haldið hefur verið fram.[12]  Greinilegt var að honum þótti stjórnarskráin hafa gengið sér til húðar, enda væri hún að grunni til frá árinu 1874.[13]  Það er ekki allskostar rétt, enda hafði stjórnarskránni í ýmsu verið breytt og talsverðu fyrir lýðveldisstofnun, m.a. í atriðum er snertu embætti forseta Íslands. Ekki fer milli mála að stjórnmálamenn þ. á m. Gylfi,  töldu að lýðveldisstjórnarskráin væri  til bráðabirgða, enda tóku stjórnarskrárnefndir á vegum þingsins þegar til starfa eftir lýðveldisstofnun. Gylfi hafði snemma áhyggjur af miklum ítökum stjórnmálaflokka og Vilmundur lagði mikla áherslu á að dregið yrði úr völdum þeirra.[14]  Þeir hefðu gríðarleg ítök í verkalýðshreyfingu og innan samtaka atvinnurekenda, auk þess að hafa mikil áhrif á aðra samfélagsþætti eins og menningu og listir.  Að hans dómi hefðu flokkarnir  skapað eigið valdakerfi sem endurspeglaðist m.a. í kjördæmakerfi þar sem háð væri „byggðastríð“. Hann virðist hafa trúað snemma að breytinga væri að vænta í stjórnmálum á Íslandi og var þeirrar skoðunar í upphafi að Alþýðuflokkurinn gæti haft forystu í uppstokkun efnahags- og stjórnkerfi landsins.[15] Honum átti eftir að snúast hugur hvað það varðaði.

Vilmundur ýjaði að því að kenningin um þrískiptingu ríkisvaldsins væri úrelt að mörgu leyti, en honum fannst mikilvægt að valdþættir ríkisins væru óháðir hverjir öðrum.[16] Hann leit svo á að upplausn, stjórnleysi og efnahagshringlandi einkenndu íslensk stjórnmál.  Til að snúa við blaðinu vildi hann stuðla að virkara lýðræði, t.d. með því að taka upp einmenningskjördæmi að nýju.[17] Þeirri ráðstöfun hafði verið hætt, hugsanlega vegna þess að slíkar kosningar snerust fremur um persónulegar vinsældir en hugsjónir. Hann vildi jafnframt að kjördæmum yrði fækkað með fleiri uppbótarsætum til að gera skiptingu þingmanna milli kjördæma réttlátari. Það mundi tryggja að öll kjördæmi fengju mann á þing, í versta falli uppbótarmann.[18] Þriðji þáttur hugmynda Vilmundar sneri að því að kjósendur gætu valið frambjóðendur þvert á lista í samræmi við fjölda þingmanna síns kjördæmis, hugnaðist þeim að gera svo.

Í upphafi níunda áratugarins var efnahagsástand á Íslandi örðugt sem aldrei fyrr. Óðaverðbólga geisaði og var jafnvel svo langt gengið að tala um upplausnarástand.[19] Það var í þessu umhverfi sem umbótatillögur Vilmundar voru settar fram. Þingpallar voru þéttskipaðir fólki þegar Vilmundur tók til máls í umræðu um vantraust á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen í nóvember 1982 og tilkynnti um stofnun Bandalags jafnaðarmanna.[20] Í ræðunni sem snerist frekar um stjórnmálahugmyndir Vilmundar en vantraustið sjálft lýsti hann því sem hann kallaði spillt flokkskerfi í landinu og ónýtt stjórnkerfi sem þyrfti á algerri uppstokkun að halda. Hann boðaði hugmyndir sínar um viðamikla endurnýjun með breytingum á kjördæmaskipan og stjórnarskrá lýðveldisins.

Vilmundur var þeirrar skoðunar að valdakerfið hefði algerlega brugðist, enda væri vinna stjórnarskrárnefnda fram til þessa lítils eða einskis virði. Vilmundur vildi koma að ákvæðum um eignarrétt, mannréttindi, tjáningarfrelsi og eðli hagsmunasamtaka.

Hann fullyrti að stjórnarskrárnefnd undir forystu Gunnars Thoroddsen, forsætisráðherra, hefði aðeins umskrifað nokkrar af greinum gömlu stjórnarskrárinnar, enda hefðu stjórnmálamenn vélað þar um eigin hag gegn hagsmunum almennings og væru að reyna að beina sjónum kjósenda frá efnahagsvandanum með því að kynna drög að nýrri stjórnarskrá.[21] Við nánari skoðun má þó sjá að ýmislegt var nútímalegt í drögunum.  Nefna má t.d. mannréttindakaflann auk þess sem gert var ráð fyrir þrengingu þingrofsréttar og breytingum á kosningafyrirkomulagi ásamt staðfestingu á þingræðisreglu.[22] Nokkur atriða stjórnarskrárfrumvarps Gunnars hafa komist í framkvæmd síðan.

Vilmundur taldi almannaviljann væri æðsta vald samfélagsins og vildi hann stuðla að beinna lýðræði. Í þeim anda lagði hann til að forsætisráðherra yrði  kosinn beinni kosningu á landsvísu, en við kjör til alþingis yrði kjördæmaskipan óbreytt.[23]  Hann vildi einnig að algerlega yrði skilið milli framkvæmdar - og löggjafarvalds og því væri áríðandi að afnema þingrofsrétt með öllu.[24] Árið 1974 hafði þing verið rofið og Gylfi Þ. Gíslason lýst yfir að hann ásamt Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hygðist leggja til breytingu á stjórnarskrá til að koma í veg fyrir þingrof.[25] Úr því varð ekki, en Vilmundur taldi að bann við þingrofi yki valddreifingu og leiddi til styrkrar stjórnar.  

Meginhugmyndir Vilmundar sneru því að styrkingu hvers þáttar ríkisvaldsins fyrir sig t.a.m. með því að forsætisráðherra væri kjörinn sérstaklega og ákvæði ráðuneyti sitt sjálfur. Helsta áhyggjuefni Vilmundar var þó hið mikla vald sem hann sagði stjórnmálaflokkana hafa yfir fjölmörgum þáttum þjóðfélagsins auk óljósra valdmarka stofnana ríkisins. Fyrst og fremst lastaði hann samtryggingarkerfi stjórnmálamannanna sem hann sagði fótum troða mannréttindi, skapa spillingu með umdeilanlegum embættismannaveitingum og átaldi dómstóla sem að hans mati voru hallir undir valdið, hvaða nafni sem það nefndist.  Það sama má segja um fjórða valdið svokallaða: Vilmundi þótti þeir vera hluti af því samtvinnaða spillingarkerfi sem hann taldi gegnsýra samfélagið.

---

[1] Sjá: Vilmundur Gylfason: Flokksþingið, trúnaðarskjal, Fréttabréf nr. 4 frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 11. nóv. 1980, bls. 1. og ódagsett viðtal sem Helgi H. Jónsson fréttamaður átti við Vilmund Gylfason eftir að hann hafði fallið í kosningu um embætti varaformanns í Alþýðuflokknum. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[2] Sjá Gylfi Þ. Gíslason: Viðreisnarárin ([Reykjavík] 1993), bls. 18-19 og 140, einnig Vilmundur Gylfason: „Við viljum bætt og umfram allt geðfelldara þjóðfélag“, bls. 10.

[3] Anna Ólafsdóttir Björnsson: „ „Smátt er fagurt“. Vikuviðtal við Vilmund Gylfason sem segir að jafnaðarmenn hafi mikið til anarkista að sækja“, Vikan 47. tbl. 1981, bls. 18-21.

[4] Viðtal Sigmars B. Haukssonar við Vilmund Gylfason í ágústbyrjun 1981 um Alþýðublaðsmálið, bls. 5. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[5] Anna Ólafsdóttir Björnsson: „ „Smátt er fagurt“ “, bls. 18-21.

[6] Vilmundur Gylfason: „Hægri og vinstri – fortíð og framtíð“, Skutull 3.- 4. tbl, L. árgangur, 27. júní 1974, bls. 8.

[7] Vilmundur Gylfason: „Frelsishugtakið í öndverðri sögu Bandaríkjanna“, Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum 18. september 1979, ritnefnd Bergsteinn Jónsson o. fl. (Reykjavík 1979), bls.379.

[8] Poggi, „The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule“, bls. 253.

[9] Jónas Haraldsson: „ „Vil heldur vera stutt á þingi, og vera þar með svolítilli reisn““, Vikan, 40. tbl. 1978, bls. 7.

[10] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna – dómsmál – lög og réttur – stjórnkerfi, handrit 1982, bls. 4. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[11] Sjá t.d. þingsályktunartillögu Vilmundar; Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[12] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust, bls. 43-46.

[13] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 3. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[14] Gylfi Þ. Gíslason: „Lýðræði og stjórnfesta“, bls. 116.

[15] Vilmundur Gylfason: Stjórnmálaviðhorfin, fréttabréf nr. 2 frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 6. mars 1980. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[16] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 7. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[17] Vilmundur Gylfason: „Nýjar leiðir í kjördæmaskipan“, Skutull 1. tbl., L. árgangur, 12. júní 1974, bls. 4.

[18] Sama heimild.

[19] „Tillögur Vilmundar ræddar á þingi. Verið að spila á upplausnarástand.“ Þjóðviljinn,10. mars 1983, bls. 6.

[20] „Vilmundur yfirgefur Alþýðuflokkinn og stofnar nýjan flokk: Bandalag jafnaðarmanna – bandalag gegn flokkunum“, DV, 19. nóvember 1982, bls. 4.

[21] Vilmundur Gylfason: Stjórnarskráin, Fréttabréf frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 4. okt. 1982, bls. 1. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[22] Sjá Gunnar Helgi Kristinsson: „Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar“, (Reykjavík 2005), bls. 17-18.

[23] Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[24] Sama heimild.

[25] Guðni Th. Jóhannesson, Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns, 1968-1980, (Reykjavík 2005), bls. 107. Sú varð og raunin, þótt bið yrði á. Í tillögum stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskránni árið 1983 var gert ráð fyrir að einungis væri unnt að rjúfa Alþingi með meirihlutavilja þess sjálfs. Ekki var gengið svo langt með stjórnarskrárbreytingunni 1991 en þess í stað var því ákvæði bætt við 24. grein – þingrofsgreinina – að þingmenn skyldu ætíð halda umboði sínu til kjördags. Eftir þingrof gæti meirihluti þingmanna því haldið þingstörfum áfram og þótt þeir gætu tæpast afturkallað þingrofið gætu þeir samþykkt vantraust á ríkisstjórn, myndað nýja og gert aðrar samþykktir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband