Rökin á móti Evrópusambandsaðild

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki árið 1918 og lýðveldi árið 1944. Nú eru menn í fullri alvöru að tala um að BREYTA STJÓRNARSKRÁNNI til að hægt sé að láta fullveldi okkar af hendi til Evrópusambandsins. Á hnjánum nánast!

Með aðild að ESB færist vald yfir veigamiklum þáttum, eins og yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni, til Brussel. Völd lítilla ríkja innan ESB hafa minnkað mjög á undanförnum árum, Ísland fengi 3 atvæði af 350 í ráðherraráðum ESB og fimm af 750 á ESB þinginu, Ísland gæti orðið eins og fátækur hreppur á jaðri risaríkisins í framtíðinni. Sem kemur að einu af meginmarkmiðum ESB sem er að verða nýtt stórríki, Evrópskt stórríki. Stórríki, risaveldi sem þjónar innri þörfum sambandsins, þeirra hagsmuna og viðmiða sem þar eru ríkjandi.

Almennir þegnar í Evrópusambandinu hafa lítil áhrif á þróun mála, sívaxandi valdasamþjöppun í stofnunum ESB má kalla tilræði við þróun lýðræðis í Evrópu. Íslendingar, líkt og aðrir innan ESB hafa engin áhrif á hverjir ráða ríkjum. Valdið í ESB hefur færst til embættismanna í Brussel og til ráðherra en þingið hefur fyrst og fremst staðfestingar- og eftirlitsvald. 

Það er fráleitt að Íslandi sé stjórnað úr fleiri þúsund kílómetra fjarlægð, hætta er á að mál tengd Íslandi velkist lengi í kerfinu þar auk þess sem margar reglur ESB henta ekki svo smáu samfélagi eins og hér er. 

Það er grundvallaratriði hjá ESB að stofnanir þess hafi "úrslitavald um varðveislu lífríkis sjávarauðlinda í samræmi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna", allt tal um að við getum fengið einhverskonar undanþágu frá þessu ákvæði eru í besta falli draumórar. Aðild að ESB útheimtir að opnað sé fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja í sjávarútvegi. Vegna mikillar skuldsetningar íslenskrar útgerðar er hætt við að veiðiheimildirnar færist úr landi til erlendra aðila með afleiðingum sem við getum bara ímyndað okkur. Við ESB aðild færist samingsrétturinn um veiðar úr svokölluðum deilistofnum til sambandsins sem þýðir Ísland þarf að hlýða boðum og bönnum um nýtingu þeirra stofna.

Það er ónefnt hvaða áhrif þetta hefur á landbúnaðinn og fleiri þætti íslensks þjóðarbús.

Mig langar núna að fá rökin með því að ganga í þetta samband, Evrópusambandið, sem ljóst og leynt stefnir að því að verða nýtt Evrópskt stórríki.  

 


mbl.is Atkvæðagreiðslan í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

En mér skilst að maður eigi að skoða þetta ESB mál með huganum en ekki hjartanu og forðast það í lengstu lög að blanda einhverjum löngu dauðum köllum og jafndauðum hugsjónum þeirra í málið...

Markús frá Djúpalæk, 26.7.2009 kl. 14:31

2 identicon

Þetta er nú meira svartagallsrausið.....

Mér þætti gaman að heyra það frá einni einustu af þeim 27 þjóðum sem nú eru í EB að þær séu ekki frjálsar og fullvalda....

Þessi fáu atkvæði sem við fengjum í ráðherraráðinu eða þinginu er samt stórkostleg aukning frá því sem við erum með núna...sem er nákvæmlega 0 á hvorum stað fyrir sig. Restin af atkvæðunum skiptist á milli 27 þjóða og það er ekki einsog það væri Ísland gegn umheiminum í ölllum atkvæðagreiðslum. Í dag tökum við inn 75% af allri lagasetningu án þess að hafa nokkuð um innihaldið að segja.

Varðandi flökkustofna. Í dag þurfum við að semja um skiptingu á þessum stofnum við aðrar þjóðir. Eftir inngöngu þurfum við að semja um skiptingu á þessum stofnum við aðrar þjóðir. Eini munurinn er að sá að þegar kemur að því að semja við þjóðir utan sambandsins (t.d. Noreg) höfum við EB á bakvið okkur. Hvor staðan er nú betri?

EB hefur sameiginlega fiskveiðistefnu vegna þess að þeir hafa sameiginleg mið og fiskistofna. Það á ekki við okkur.  Besta haldreipi okkar til þess að halda flota EB utan okkar fiskveiðilögsögu er einmitt hin sameiginlega fiskveiðistefna og reglan um hlutfallslegan stöðugleika.

Fjárfesting í útvegi eða fiskvinnslu? Er það ekki það sem okkur vantar? Útlendingar með gjaldeyri að taka áhættu í íslenskum atvinnurekstri? Afhverju mega þessir ógurlegu útlendingar (sem eru með horn og hala ef lýsingar eru réttar) lána til þessa atvinnurekstrar og þar með græða á honum með takmarkaðri ábyrgð og veði í kvóta? Afhverju mega þeir þá ekki taka áhættu að fullu og fjárfesta? Afhverju mega útlendingar fjárfesta í orku en ekki fiskveiðum? Skildi það vera til að vernda einkarétt útgerðaraðalsins á kvótanum?

Almennir þegnar hafa lítil áhrif....bahhh húmbúkk. Hafa almennir þegnar á Íslandi mikil áhrif á Íslandi? Jú, við veltum einum stjórnvöldum og fengum önnur....en eru þau betri  en þau fyrri? Getur það ekki einmitt verið að fyrir íslenskan almenning sé betra skjól í evrópsku stofnunum en þeim íslensku? Hvort berðu meira traust til evrópska seðlabankans eða þess íslenska? Til evrópudómstólsins eða hæstaréttar?

Íslenskur landbúnaður er einsog myllusteinn um hálsinn á íslenskum skattgreiðendum. Það munu verða meiri breytingar á íslenskum landbúnaði á næstu árum vegna WTO og GATT en vegna inngöngu í EB. Hvort er hagsmunum íslensks landbúnaðar betur borgið sem hluti af EB í samningum innan WTO eða með okkar frábæra íslenska embættismannasamningateymi? Réttast væri að senda bara Svavar aftur af stað til WTO og þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af íslenskum landbúnaði framar....hann væri ekki til staðar.

Íslandi er stjórnað nú þegar af útlendingum. Þannig er einfaldlega málum komið og hluti af ástæðunni er sú að það hefur alltaf rignt uppí nefið á okkur þegar talið hefur borist að EB. Það hefur alltaf verið okkur til blessunar þegar við höfum tekið upp nánara samstarf við aðrar þjóðir. SÞ, Nató, EFTA, EES...osfrv. Þegar maður er minnsta örverpið á skólalóðinni er það einfaldlega klókindi að vingast við stærsta hrekkjasvínið. Þannig fær maður vernd....

Kv. Maggi

ps. eigum við ekki að Sluxa um verslunarmannahelgina ? ;-) 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 16:45

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Hehe... þetta eru bestu rökin með ESB sem ég hef heyrt hingað til. Enda ekki við öðru að búast. En jú Slux væri fínt!

Markús frá Djúpalæk, 27.7.2009 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband