Hvenær hófst kalda stríðið?

Síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 eftir að bandamenn unnu fullnaðarsigur á Þjóðverjum og Japönum. Áður en styrjöldinni lauk mátti sjá að veröldin var að breytast. Tvö ný stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin, urðu til. Eldri stórveldi Evrópu stóðu á brauðfótum eftir hildarleikinn mikla og veröldin skiptist skyndilega í tvennt milli ríkjanna sem áður höfðu barist við sameiginlega óvini. Gríðarlegar andstæður á auði, hugmyndafræði og stjórnarformi hinna nýju stórvelda hlutu að kalla á gerbreyttan heim. Enda fór svo að áratugina eftir síðari heimsstyrjöldina geisaði stríð milli stórveldanna, stríð sem átti engan sinn líka í veraldarsögunni því þau háðu ekki eina einustu orrustu sín á milli, þó þau vígbyggjust af kappi. Stríðsástand þetta hefur verið nefnt kalda stríðið. Sagnfræðingar hafa löngum reynt að greina upphaf og orsakir kalda stríðsins og eru hvergi nærri  sammála. Fræðimenn hafa leitað orsaka kalda stríðsins í áður nefndum andstæðum, einnig í valdatómarúminu sem myndaðist við ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni og í þeirri staðreynd að Bandaríkjamenn einir bjuggu í upphafi yfir stríðstólinu ógurlega, kjarnorkusprengjunni. Pólítísk deilumál tengd framtíð Þýskalands, Póllands og annarra ríkja Austur-Evrópu höfðu mikil áhrif á samskipti stórveldanna. Nokkrir lykilatburðir hafa einnig verið nefndir sem upphafspunktar kalda stríðsins, hver þeirra markar skref að því ástandi sem varði í veröldinni í hálfa öld. Er einn þeirra öðrum mikilvægari í að ákvarða hvenær kalda stríðið hófst?

TVÆR RÁÐSTEFNUR, YALTA OG POTSDAM

Skömmu áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk höfðu leiðtogar bandamanna, Winston Churchill forsætisráðherra Breta, Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna og Josep Stalín leiðtogi Sovétríkjanna, komið saman í Yalta-borg á Krímskaga, til að ákveða framtíð stríðshrjáðrar Evrópu. Fullyrða má að á ráðstefnunni hafi þjóðirnar ákveðið yfirráð hinna herteknu landsvæða, en sovéski herinn var þegar búinn að ná yfirráðum yfir stærstum hluta Austur-Evrópu. Það má velta fyrir sér hvort vantraust milli stórveldanna hafi ríkt fyrir ráðstefnuna eða hafi skapast strax í kjölfar hennar. Bandarískum embættismönnum varð seinna tíðrætt um brot Sovétmanna á samkomulagi því sem gert hafði verið í Yalta. Þeir töldu sig hafa haft vilyrði  fyrir því að lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir tækju við völdum í ríkjum Austur-Evrópu. Þrátt fyrir að hafa lofað viðsemjendum sínum að efna til kosninga í ríkjunum hafi Stalín alls ekki ætlað sér það, en þess í stað séð sér leik á borði að færa landamæri Sovétríkjanna mörg hundruð kílómetra til vesturs. Bandaríski sagnfræðingurinn John Lewis Gaddis, sem hefur rannsakað kalda stríðið gaumgæfilega, hefur haldið því fram að vegna samspils landfræðilegra og stjórnmálalegra andstæðna í hugmyndaheimi stórveldanna hafi þau þegar verið komin í hár saman fyrir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Núningur milli stórveldanna jókst jafnvel enn frekar eftir að Potsdam ráðstefnunni lauk í ágúst 1945, þar sem ekki tókst að ákvarða sameiginlega lausn á hernámsáætlun gagnvart sigruðu Þýskalandi, sem lyktaði með því að til urðu tvö þýsk ríki, Vestur- og Austur-Þýskaland.

Einn helsti kenningasmiður breska kommúnistaflokksins um árabil, blaðamaðurinn Palme Dutt hélt því fram að það hefðu verið rof Breta og Bandaríkjamanna á Yalta og Potsdam samningunum en ekki ímynduð stefnubreyting í pólitík Sovétríkjanna sem væru ástæða erfiðleika þeirra sem steðjuðu að eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Hann hélt því enda fram að samningar sem gerðir voru þar hafi markað þá leið sem yrði að fara „til þess að tryggja friðinn og lýðræðið." Ástæðurnar sagði hann vera þær að þau væru voldugustu auðvaldsríki veraldarinnar og að hernaðarlega væri Bretland orðið háð Bandaríkjunum. Dutt hélt því fram að útþenslustefna Bandaríkjanna væri fremur beint gegn breska heimsveldinu en Sovétríkjunum. Orð Dutts lýsa óneitanlega vel því andrúmi sem ríkti milli sigurvegara síðari heimsstyrjaldarinnar, nánast strax að henni lokinni.

LANGA SÍMSKEYTIÐ

220px-KennanUngur stjórnarendreki í bandaríska sendiráðinu í Moskvu, George F. Kennan að nafni, sendi átta þúsund orða símskeyti til utanríkisráðuneytisins bandaríska í febrúar árið 1946, þar sem hann greindi stefnu Kremlverja og hvernig Bandaríkjunum væri best að bregðast við henni. Hann spáði í raun fyrir um hvernig andstæðar fylkingar austur og vesturs myndu skipa sér á næstu árum. Í skeytinu hvatti Kennan til að útþenslustefnu Sovétríkjanna yrði haldið í skefjum með harðri og ákveðinni innilokunarstefnu (e. containment). Skeytið fjallar því  í meginatriðum um utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar og hvaða áhrif hún gæti haft að lokinni styrjöldinni. Kennan reyndi einnig að kafa í utanríkisstefnu Sovétríkjanna.

John L. Gaddis sagði að Stalín hefði fljótlega komist á snoðir um skrif Kennans og beðið sendiherra Sovétríkjanna í Washington um  sambærilegt skeyti. Það fékk Sovétleiðtoginn og sagði Gaddis að það hafi endurspeglað skoðanir Stalín sjálfs um að Bandaríkin væru kapítalískt ríki sem stefndi að heimsyfirráðum og væri jafnframt að auka herstyrk sinn svo um munaði. Gaddis hélt því fram að vitneskja Stalíns um skeyti Kennans hafi orðið til þess að hann tók á móti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Moskvu í apríl 1947 og fullvissaði ráðherrann um að þó illa gengi að leysa málefni stríðshrjáðrar Evrópu væri það ekkert stórmál, ekkert lægi á. Gaddis fullyrti að það hefði langt í frá róað ráðherrann.

Kennan sagði sjálfur árið 1947 að Bandaríkin gætu ekki búist við friðsamlegri sambúð við Sovétríkin í fyrirsjáanlegri framtíð enda væri það stefna Kremlverja að brjóta smám saman niður og veikja andstæðing sinn. Hann hélt því fram að á móti kæmi að Sovétríkin væru mun veikbyggðari en Bandaríkin og að leiðin til sigurs á kommúnismanum væri að þrauka, vera staðfastir í trúnni á eigin gildi og verðleika og þannig þreyta Moskvuvaldið uns það gæfist upp og aðlagaði sig að vestrænum gildum. Sagnfræðingnum Anders Stephanson hefur fundist greining Kennans ófullnægjandi, fyrst og fremst því að Kennan hefði aldrei kannað mikilvægi hugmyndafræðilegrar stefnu Sovétríkjanna og hafi því frekar verið að réttlæta aðgerðir gegn þeim en reyna að spá raunverulega fyrir um hegðun þeirra í framtíðinni. Stephanson benti einnig á að Kennan hafi fljótlega fallið frá innilokunarstefnunni en það hafi verið orðið um seinan strax árið 1948.

TRUMAN-KENNINGIN OG MARSHALL-AÐSTOÐIN

220px-Harry-trumanEftir lok síðari heimsstyrjaldar virðast Bandaríkjamenn hafa haft skilning á að Sovétmenn þyrftu að eiga vinveitta nágranna. Bandaríski sagnfræðingurinn Thomas A. Bailey hélt því fram þegar árið 1950 að útþenslustefna Sovétríkjanna strax eftir seinna stríð hafi orðið til þess að Bandaríkjamenn og Bretar töldu sig þurfa að bregða skjótt við. Hann sagði að yfirvöldum í Bandaríkjunum hafi þótt mikill munur á að halda góðu samkomulagi við nágrannaríki sín eða að ráða algerlega yfir þeim. Svo er að sjá að Bailey hafi talið að bandarísk stjórnvöld hafi óttast að í kjölfar styrjaldarinnar gæti hugmyndafræði sovétsins, kommúnisminn flætt nánast óstöðvandi yfir Evrópu. Hálfu öðru ári eftir sameiginlegan sigur bandamanna á Þjóðverjum lagði Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna fram kenningu sína sem gekk í meginatriðum út á nauðsyn þess að halda kommúnismanum í skefjum hvar sem hann seildist til áhrifa. 

Þarna boðaði Bandaríkjaforseti nýja utanríkisstefnu. Sagnfræðingar eru ekki á einu máli hvort hún snerist um að vernda hagsmuni Bandaríkjanna gegn raunverulegri eða ímyndaðri ógn af hálfu Sovétríkjanna eða hvort hér var á ferðinni stefna sem ætluð var til að hafa bein afskipti af innanríkismálum annarra þjóða í þeim tilgangi að hafa hemil á kommúnismanum.  Dennis Merrill sagnfræðingur sagði að Truman kenningin hafi komið fram á þeim tímapunkti þegar leiðtogar Bandaríkjanna voru teknir að átta sig á því að utanríkisstefna þeirra gæti haft áhrif á aðra menningarheima, enda óttuðust þeir að pólítískar væringar í fjarlægum löndum gætu haft gríðarleg áhrif, ekki aðeins á Bandaríkin heldur siðmenninguna alla. Truman sagði að sérhver þjóð yrði að velja milli tvenns konar lífshátta sem annars vegar byggjast „á vilja meirihlutans, og birtist í mynd frjálsra stofnana, fulltrúaþingsstjórnar, frjálsra kosninga, öryggis fyrir frelsi einstaklingsins ... hinn byggist á vilja minnihlutans, sem er troðið upp á meirihlutann. Sá styðst við ofbeldi og kúgun ... fyrirfram ákveðnar kosningar og undirokun réttinda einstaklingsins." Grundvallarástæða Bandaríkjamanna fyrir að veita Tyrklandi og Grikklandi fjárhagsaðstoð var ótti við að kommúnistar næðu völdum í löndunum.  Haldið hefur verið fram að eftir að Truman-kenningin kom fram hafi stjórn Stalíns ákveðið að loka Austur-Evrópu. Thomas Bailey lýsti ástandinu þannig að Grikkland og Tyrkland væru smáir fletir í varnarlínunni gegn útþenslu kommúnismans og að eitthvað enn áhrifameira yrði að gera til að verjast falli lýðræðisaflanna í veröldinni.

Marshall utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í júní 1947 að til stæði að halda áfram efnahagsendurreisn ríkja Evrópu en hvatti þau jafnframt til sjálfsþurftar. Ráðamenn í Sovétríkjunum urðu þegar mjög tortryggnir og höfnuðu þátttöku í ráðstefnu sem halda átti um samningu áætlunar til endurskipulagningar Evrópu. Hið sama gerðu nágrannaríki þeirra, enda fór svo að ekkert ríki sem talist gat til Austur-Evrópu tók þátt í ráðstefnunni sem haldin var í júlí 1947.

Viðbrögð Sovétmanna lýsa því vel hvernig andrúmsloft vantrausts varð æ meira áberandi eftir því sem fram liðu stundir. Markalínur stórveldanna urðu sífellt greinilegri. Geir Hallgrímsson síðar borgarstjóri og forsætisráðherra skrifaði í tímarit sjálfstæðismanna, Stefni, árið 1950 að samtök Vestur-Evrópuríkjanna í Marshall aðstoðinni hafi „í bili í það minnsta stöðvað útþennslu kommúnista í vesturveg."  Þessi orð geta bent til þess skilnings að hugmyndin að baki Marshall aðstoðinni hafi verið að stöðva útrás Sovétríkjanna til vesturs. Adlai Stevenson sem var sendifulltrúi Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu Þjóðanna 1962 hélt  því reyndar fram að Sovétríkin hafi tekið til við útþenslu sína umsvifalaust og ljóst var  að Þjóðverjar væru að bíða ósigur í styrjöldinni. Við það væru „þær þjóðir sem vildu verja frelsi sitt ... neyddar til að grípa til varnaraðgerða." Það bendir sterklega til að grundvöllur kalda stríðsins hafi verið lagður all nokkru áður en  síðari heimsstyrjöldinni lauk.

KJARNORKUSPRENGJAN

Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima 6. ágúst 1945 sem sýndi glögglega fram á  hernaðarlega yfirburði þeirra í veröldinni. Það breyttist þó í júlí fjórum árum síðar þegar kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup stórveldanna hófst við að Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju. Þrátt fyrir að stórveldin kepptust um að framleiða æ ógnvænlegri vopn hélt breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm því fram að sérstaða kalda stríðsins hafi einmitt verið sú að með því að viðhalda valdajafnvægi milli stórveldanna hafi ekki verið yfirvofandi hætta á heimsstyrjöld. Það stangast á við minningar þeirra sem lifðu þessa tíma þegar þeim fannst sú hætta æ vofa yfir, raunveruleg eða óraunveruleg, að heimsendir gæti skollið á fyrirvaralaust. Hobsbawn hélt því fram að bæði stórveldin hefðu fallið frá því að stríð væri liður í stefnu þeirra hvors gegn öðru, enda jafngilti það sjálfsmorðsyfirlýsingu af beggja hálfu. Tilvist kjarnorkusprengjunnar telur Hobsbawn að hafi aukið á vantraustið milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna enda mun  Stalín hafa látið njósna um kjarnorkutilraunir bandamanna sinna  í heimsstyrjöldinni. John L. Gaddis nefnir það sem dæmi um vantraustið sem ríkti milli þessara ríkja þrátt fyrir að þau væru að heygja stríð gegn sameiginlegum óvinum. Hið sama gilti að sjálfsögðu um að halda Sovétleiðtoganum óupplýstum um hið hræðilega nýja vopn. Stalín fannst, að sögn Gaddis, að ítökin sem ríkin ættu að fá að lokinni heimsstyrjöldinni ættu að vera í samræmi við hve miklu blóði þær hefðu þurft að úthella, þetta nýja vopn mun hafa ýtt enn frekar undir þá skoðun hans.

Þrátt fyrir að Sovétmenn lýstu yfir stríði á hendur Japönum tveimur dögum eftir kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna hefur því verið haldið fram að Bandaríkjamenn hafi viljað halda Sovétríkjunum utan við stríðið í Japan. Til að tryggja það hafi þeir flýtt því sem verða mátti að varpa kjarnorkusprengjum á tvær þarlendar borgir. Eins hefur sú skoðun komið fram að kjarnorkuárásirnar hafi komið Stalín og hans mönnum í Kreml í varnarstöðu gagnvart Bandaríkjunum, þó ekki hafi dregið úr samstarfsvilja þeirra, samstarfið yrði aðeins að vera á forsendum Kremlverja sjálfra. Thomas Bailey sagðist aftur á móti telja víst að Sovétmenn hafi vitað að árásirnar voru fyrirhugaðar og að fögnuður Bandaríkjamanna yfir því að Stalín hafi loks ákveðið að lýsa yfir stríði gegn Japönum hafi hratt breyst í mikla óánægju, fyrst og fremst vegna þess að þeir gáfust fljótlega upp og hins vegar þegar upp komst að Kremlverjar eignuðu sér sigurinn heimafyrir. Til að bæta gráu ofan á svart fannst bandarísku þjóðinni að Roosevelt Bandaríkjaforseti hafi þurft að greiða of hátt verð fyrir þátttöku Stalíns í  stríði sem hann hefði engan veginn viljað láta fram hjá sér fara. Bailey þótti reyndar þjóðin fulldómhörð gagnvart Stalín, hann hafi verið í góðri samningsstöðu gagnvart Bandaríkjamönnum. Óneitanlega taldi Bailey þó að þessi framkoma hafi leitt til enn frekara vantrausts bandarísku þjóðarinnar gagnvart Sovétríkjunum.

Það er skoðun Johns L. Gaddis að Truman Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans hafi talið, að tilvist og notkun kjarnorkusprengjunnar myndi mýkja afstöðu Stalíns varðandi stöðu Sovétríkjanna í uppbyggingunni eftir stríð en þess í stað reyndi Sovétleiðtoginn af enn meiri hörku að ná fram stefnumiðum sínum. Með því gæti hann fyrst og fremst tryggt stöðu Sovétríkjanna. Vantraustið stigmagnaðist milli Breta og Bandaríkjamanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar, talsverðu áður en heimsstyrjöldinni lauk. Gaddis þykir, líkt og öðrum, erfitt að fullyrða nákvæmlega hvenær kalda stríðið hófst, enda voru ekki gerðar neinar árásir, ekki var lýst yfir nýju stríði né var skorið á diplómatísk tengsl. Það sem gerðist var að óöryggi æðstu ráðamanna þessara ríkja jókst sífellt meðan þau reyndu að tryggja innbyrðis stöðu sína í kjölfar ófriðarins. Niðurstaðan varð sú að Evrópa, og í raun veröldin öll skiptist nánast í tvennt, aðskilin með „járntjaldi" milli austurs og vesturs.

Viðbrögð Palme Dutt lýsa andrúmsloftinu vel. Hann fullyrti að kjarnorkusprengjan og einokun vesturveldanna á henni, hafi breytt valdahlutföllum heimsins, skapað möguleika á endurlífgun ráðagerða um bresk-bandarísk heimsyfirráð og hefði kippt „grundvellinum undan samvinnu og gagnkvæmu trausti, og henni fylgdi ný allsherjar áróðursherferð gegn Sovétríkjunum."

RÆÐA CHURCHILLS

churchillÍ mars árið 1946 flutti Winston Churchill ræðu í Westminster háskólanum í Fulton í Missouri-fylki í Bandaríkjunum þar sem hann notaði hugtakið „járntjald" til að lýsa áhrifaskiptingu veraldarinnar milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Almenningur leit sennilega enn á Sovétmenn sem vini og vopnabræður sem hefðu af ósérhlífni barist við hlið vesturveldanna gegn yfirgangi nazismans og japanska keisaraveldisins. Því þótti það bera vott um óþarfa stríðsæsingatal þegar Churchill sagði:

Annarsstaðar en í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem kommúnismans gætir lítið, eru kommúnistaflokkar landanna, eða fimmta herdeildin, vaxandi ógnun og hætta allri kristilegri menningu. Þetta eru sorglegar staðreyndir og vér sýndum mikla fávísi, ef vér gerðum oss ekki fulla grein fyrir þeim meðan tími er til.

Enn er áhugavert að líta til hvað Palme Dutt hafði að segja. Hann rifjaði upp spádóm Jósefs Göbbels, áróðursmálaráðherra nazista sem hafði í einni af hinstu ræðum sínum fullyrt að Evrópu og Þýskalandi yrði skipt upp í bresk-amerísk og sovésk yfirráðasvæði, sem myndi leiða til árekstra milli stórveldanna. Í þeirri ræðu notaði Göbbels hugtakið „járntjald" til að lýsa hulunni sem Sovétríkin myndi breiða yfir skipulagningu sína á Austur-Evrópu.  Dutt hélt því fram að í ræðu sinni hefði Churchill í raun verið að reyna að blása til ófriðar gegn Sovétríkjunum, nánast að hvetja til þriðju heimsstyrjaldarinnar.  Hann  hvatti til að Bretland horfði til lýðræðislegra utanríkisstjórnmála og fullyrti að breska þjóðin óskaði eftir vináttu við Sovétríkin en ekki við  „fimmtu herdeild" bandarísks auðvalds..  Á margan hátt er hægt að fullyrða að Churchill hafi haft rétt fyrir sér, enda reis járntjaldið svokallaða nánast eftir sömu markalínum og stórveldin höfðu ákvarðað á Yalta ráðstefnunni rúmu ári fyrr.

BARNIÐ FÆR NAFN

Það er í mannlegu eðli að gefa því sem ber fyrir í lífinu heiti. Við það öðlast það ákveðinn raunveruleika, sess og sæti. Það er nokkur óvissa um hver hafi fyrst notað hugtakið kalda stríðið yfir þá spennu sem ríkti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fyrir lok og í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Vitað er að breski rithöfundurinn George Orwell notaði það tvisvar, innan gæsalappa, fyrst í dagblaðinu Tribune í október 1945 og svo í The Observer hálfu ári síðar. Viðskiptajöfurinn og stjórnmálaráðgjafinn Bernard Baruch mun hafa sagt í ræðu sem hann hélt í apríl 1947 að Bandaríkin væru komin í kalt stríð og Walter Lippmann, blaðamaður, rithöfundur og stjórnmálaskýrandi, notaði hugtakið í samnefndri bók árið 1947.

Ástandið sem litaði heimsmálin um fimmtíu ára skeið var komið með nafn, og því var hægt að tala um það, reyna að útskýra það og átta sig á orsökum þess og afleiðingum.

NIÐURLAG

the-berlin-wall-separating-west-berlin-and-east-berlin-five-years-after-being-built-1966Ekki er mögulegt að benda á eina ákveðna dagsetningu og halda því fram að þann dag hafi kalda stríðið skollið á. Sumir sagnfræðingar og aðrir fræðimenn hafa miðað við árið 1945 en þá kom  mismunandi stefna stórveldanna varðandi Austur-Evrópu upp á yfirborðið og vantraustið milli þeirra varð nánast áþreifanlegt. Upphaf óstöðugleika í samskiptum austurs og vesturs má óhikað rekja til aðstæðna og atburða sem gerðust áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk. Frumkvæði Bandaríkjamanna í smíði kjarnavopna, gagnkvæmar njósnir stórveldanna og ásakanir um brot á samningum á báða bóga urðu til að kynda hið ískalda ófriðarbál. Vantraustið stigmagnaðist mánuðina og árin eftir stríðslok og óhætt er að fullyrða að kalda stríðið hafi verið tekið að geysa fyrir árslok 1947, eftir að Truman-kenningin var lögð fram og Marshallaðstoðin hófst. Niðurstaðan er því  sú að upphaf kalda stríðsins megi fyrst og fremst rekja til atburða sem gerðust á árabilinu frá 1945 til 1947.

Kalda stríðið fékk að lokum nafn og varð þar með samtvinnað raunveruleika veraldarinnar í fimm áratugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sitthvað fæstu við, Markús!

En er þetta þín eigin ritgerð hér?

Af hverju minnistu ekkert á valdaránið í Tékkó-Slóvakíu o.fl. af slíkum konkret atburðum sem sovétmenn voru ábyrgir fyrir? Af hverju er ekkert minnzt á Búlgaríu, Rúmeníu, Ungverjaland ... né á byltingarstarf kommúnista í Grikklandi -- bara á fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna og á viðhorf þessa Thomasar Bailey?

Skipta gjörðir sovétmanna þarna ekki meira máli en viðhorf Trumans etc.?

Og trúirðu því í alvöru, að lokun A-Evrópu hafi verið afleiðing af Truman-kenningunni?

Jón Valur Jensson, 25.4.2013 kl. 03:07

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mæli með því að þú farir vel yfir Svartbók kommúnismans, þar er margt um harðræðið sem beitt var af leppum og útsendurum sovétmanna til að berja niður það lýðræði, sem þjóðirnar þarna eystra vildu taka í gagnið, eftir að þær losnuðu undan hrammi nazismans.

Jón Valur Jensson, 25.4.2013 kl. 03:10

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Já, þetta er tveggja gömul kúrsaritgerð úr námskeiði í heimssögu. Hún varð að vera stutt þannig að atriðum eins og þú taldir upp í athugasemd þinni varð að sleppa. Ég ætlaði aldrei að svara hverjum hefði mátt kenna um upphaf og viðgang kalda stríðsins, heldur aðeins að reyna að finna upphafsdagsetningu, væri það hægt. Æ fleiri sagnfræðingar virðast hallast að því að báðum stórveldum megi kenna um hvernig fór; gagnkvæm tortryggni stigmagnaðist uns fór sem fór.

Markús frá Djúpalæk, 25.4.2013 kl. 10:48

4 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Hugsanlega fæ ég leyfi tveggja félaga minna sem skrifuðu um fall Sovétríkjanna ásamt mér, til að birta þá ritgerð. Þar er farið mun ítarlegar og dýpra í þessa þætti sem þú þarna nefndir.

Markús frá Djúpalæk, 25.4.2013 kl. 10:49

5 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Og ég skil ekki hvernig þú færð út að ég telji lokun s-Evrópu vera af völdum Truman-kenningarinnar. Bandaríkjamenn voru að bregðast við útþenslustefnu Sovétríkjanna, sem töldu sig sífellt þurfa að búa til lengri varnarlínu til vesturs, búna til úr hernumdum eða leppríkjum.

Markús frá Djúpalæk, 25.4.2013 kl. 10:54

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

S-Evrópa átti auðvitað að vera A-Evrópa

Markús frá Djúpalæk, 25.4.2013 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband