Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lýðræðið eitt - 3. hluti

Pólitískar Tilraunir um stjórnarskrána

Á lýðveldistímanum hafa verið gerðar nokkrar breytingar á stjórnarskránni. Flestar miðuðu að breytingum á kjördæmaskipan, en þó var veigamiklum mannréttindaköflum bætt inn í hana um miðjan tíunda áratug 20. aldar. Breytingatillögur við stjórnarskrána hafa verið mun fleiri. Fljótlega eftir lýðveldisstofnun var sett saman stjórnarskrárnefnd á vegum Alþingis sem átti að hafa það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Skemmst er frá að segja að hún skilaði litlu sem engu. Hlutverk og tilgangur nefndarinnar virðist hafa verið óskýr og óljóst hvaða kröfur stjórnmálaflokkarnir gerðu til hennar.[1] Þær stjórnarskrárnefndir sem sigldu í kjölfarið náðu heldur ekki ætlunarverki sínu.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra lagði fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni árið 1983, sem byggði á störfum stjórnarskrárnefndar sem hafði starfað frá árinu 1972. Vilmundur Gylfason taldi allt of mikla leynd hafa hvílt yfir störfum þeirrar nefndar og fullyrti að þröngva hefði átt kjördæmamálinu gegnum þingið framhjá öðrum málum. Forsætisráðherra svaraði að allsherjarsamkomulag þyrfti ekki að vera um það mál frekar en önnur þegar frumvarpið væri lagt fram.[2] Svo fór að frumvarp Gunnars var ekki afgreitt í heild, en samþykktar voru tillögur um breytingar á kosningakerfi, fjölgun þingsæta og lækkun kosningaaldurs. Þingsályktunartillaga Vilmundar var viðkvæði við frumvarpi Gunnars og varð ekki útrædd í þinginu. Í frumvarpi forsætisráðherrans gaf að líta allmargar hugmyndir sem síðar voru teknar upp til frekari umræðu eins og breytingar á ákvæðum um skipun og setningu ríkisstarfsmanna. Í frumvarpinu voru sömuleiðis boðaðar breytingar á kosningafyrirkomulagi auk ákvæða um náttúruvernd og auðlindir Íslands.[3] Athyglivert er að í niðurstöðum viðamikillar könnunar Samtaka um jafnan kosningarétt í Reykjavík og á Reykjanesi sem birtar voru í marsbyrjun 1983 kom fram að meirihluti vildi fulla jöfnun atkvæðisréttar, fækkun þingmanna og að landið yrði gert að einu kjördæmi. Stjórnmálamenn hunsuðu áskorun samtakanna að taka tillit til þess áður en kosningalögum yrði breytt.[4]

Vilmundur Gylfason var sannfærður um að stjórnarskrármálið yrði eitt helsta átakamál kosninganna árið 1983 og kosningabarátta Bandalags jafnaðarmanna snerist mjög um það.[5] Jón Ormur Halldórsson heldur því fram í ævisögu Vilmundar að stjórnmálaflokkarnir hefðu vísvitandi fjarlægt þau úr þjóðfélagsumræðunni til að tryggja hagsmuni flokkanna.[6] Hvort sem sú tilgáta var rétt eða ekki varð stjórnarskrármálið ekki að kosningamáli.  

Að Vilmundi gengnum lágu umræður um grundvallarþætti samfélagsins nokkuð í láginni, með nokkrum undantekningum þó. Eins og áður sagði hafa verið gerðar allnokkrar breytingar á stjórnarskránni síðan árið 1983. Tillögur Vilmundar hlutu ekki hljómgrunn þá frekar en hin nýja stjórnarskrá Gunnars Thoroddsen. Deildaskipting Alþingis var afnumin með stjórnarskrárbreytingu árið 1991 og nýr mannréttindakafli var samþykktur 1995. Árið 1999 var kjördæmaskipan breytt að nýju. Auk þessa komu fram nokkrar tillögur aðrar um stjórnarskrárbreytingar, sem ekki fengu hljómgrunn.

Djúpstæðar breytingar hafa vitaskuld orðið á íslensku samfélagi frá þessum tíma; rekstur ljósvakamiðla var gefinn frjáls, enda hafði einkaréttur ríkisins á slíkri miðlun þótt brjóta í bága við prentfrelsisákvæði stjórnarskrár. Dagblaðaútgáfa færðist að mestu úr höndum stjórnmálaflokka til einkaaðila og ríkisfyrirtæki á „samkeppnismarkaði“ voru seld. Veigamiklar breytingar voru gerðar á dómskerfi landsins í upphafi tíunda áratugarins þegar skilið var á milli stjórnsýslu og dómsvalds með stórvægilegum lagabreytingum. Enn fremur má nefna virkjun málkotsákvæðis stjórnarskrárinnar árið 2004, þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, kvaðst ætla að vísa umdeildum fjölmiðlalögum til þjóðaratkæðagreiðslu.

Áhrif efnahagshrunsins: Hugmyndir Vilmundar og tilurð stjórnlagaráðs

Þegar fjármálakerfi Íslands hrundi haustið 2008 varð mikil hugarfarsbreyting og kröfur kviknuðu um upprætingu spillingar, um endurskipulagningu grunnstoða samfélagsins. Ekki síst varð ákallið hávært um nýja stjórnarskrá. Auðvitað hafði ekki ríkt alger þögn í 25 ár um það sem aðfinnsluvert þótti í íslenskri stjórnsýslu, stjórnmálum, ríkisstjórn og hvað snerti ráðningar embættismanna. Oft var hart deilt á skipun stjórnmálamanna í stöður sendiherra, bankastjóra og önnur mikilvæg embætti þar sem í raun hefði þurft að horfa til sérmenntunar og mikillar reynslu. Sömuleiðis var iðulega fundið að einkavæðingunni sem hófst í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar og viðkvæðið var að þar væru stjórnmálaflokkarnir enn að hygla vildarvinum sínum. Þótt Ísland teldist lítt spillt í alþjóðlegum könnunum fór ekki milli mála að stjórnmálamenn véluðu um helstu þætti samfélagsins og gerðu harla fátt til að sporna við ofþenslu bankakerfisins sem leiddi til hrunsins. Einn meginvandi Íslands virtist líkt og Vilmundur Gylfason hafði bent á aldarfjórðungi fyrr vera ónóg valddreifing og skortur á aðhaldi valdþátta hvers með öðrum.[7]

Ýmis grundvallaratriði komu til umræðu eftir efnahagshrunið þegar auðsætt þótti að hvorki stjórnmálin eins og þau voru rekin né markaðsöflin leystu allan vanda. Orðræðan tók að snúast um uppgjör við fortíðina og jafnframt var kallað eftir umbótum á ýmsum sviðum samfélagsins. Menn spurðu sig hvort lýðræði ætti ekki að vera virkt milli kosninga, þ.e. beint lýðræði, hvort ekki kvæði of rammt að tangarhaldi framkvæmdarvalds og þings á flestum þáttum samfélagsins og um gallað flokkakerfi sem hefði alltof mikil samfélagsítök. Vitaskuld voru bankamenn og útrásarvíkingar harðlega gagnrýndir vegna þáttar þeirra í hruninu. Fjölmiðlum var sömuleiðis sagt til syndanna á þeim forsendum að þeir hefðu brugðist skyldum sínum með því að hafa af auðtrú og andvaraleysi mært íslenska „efnahagsundrið“.

Kallað var eftir ábyrgð, uppstokkun og kerfisbreytingum. Almenningur þusti út á stræti og torg til að mótmæla ástandinu. Fólk sem hafði lítil eða engin afskipti haft af þjóðmálum jafnt og vanir þjóðfélagsrýnar töldu brýnt að færa í orð hvernig komið væri, hvað hefði farið úrskeiðis og hvernig hægt væri að bæta úr stöðunni. Margt þess sem sagt var einkenndist af reiði og örvæntingu, en annað virtist skrifað eftir yfirlegu og ígrundun. Njörður P. Njarðvík, rithöfundur og prófessor emeritus, fullyrti t.d. í áhrifamikilli blaðagrein að efnahagshrunið hefði leitt í ljós rótgróinn galla íslensks stjórnkerfis þar sem þrískipting valdsins væri hunsuð af spilltum og hrokafullum stjórnmálamönnum flokksveldisins sem hefðu óspart hvatt fjárglæframenn til dáða. Því væri ekki annað til ráða en fara að dæmi Frakka og stofna nýtt lýðveldi á grundvelli nýrrar stjórnarskrár sem samin væri af neyðarstjórn valinkunnra einstaklinga.[8] Sennilega hefði hugnast Vilmundi Gylfasyni betur að stofna stjórnlagaþing til þess, en önnur ámæli Njarðar voru af svipuðum toga og hann hafði fyrrum látið falla.

Þessi orð Njarðar og ærin umræða önnur í samfélaginu um pólitískt vald, peningaöfl og spillingu urðu tilefni þess að fjallað var um þingræðu Vilmundar frá 23. nóvember 1982 í þættinum Krossgötum á Rás1 í janúar 2009. Henni var eftir það deilt víða um veraldarvefinn og margvíslega um hana fjallað á annan hátt.[9] Í kjölfarið bar nafn Vilmundar víða á góma í vangaveltum um leiðir til umbóta. Atorkusamur bloggari, Lára Hanna Einarsdóttir, taldi afar mikilvægt að rifja upp ræður Vilmundar og birti þrjár þeirra á ritvelli sínum. Hún staðhæfði að ræðan sem heyrðist í útvarpsþættinum væri sennilega sú frægasta sem flutt hefði verið á Alþingi.[10] Ræðan og bollaleggingar um inntak hennar og boðskap fóru víða og var getið í blaðagreinum, rædd á kaffistofum og í heitum pottum sundlauganna; hugmyndir Vilmundar bættust í vopnabúr þeirra sem kröfðust breytinga. Jón Baldvin Hannibalsson, sem í formannstíð sinni hafði boðað nútímalega jafnaðarstefnu í Alþýðuflokknum, tók nú undir sjónarmið Vilmundar m.a. um að kjósa þyrfti forsætisráðherra beinni kosningu og veita honum sjálfstætt umboð til stjórnarmyndunar.[11] Vilhjálmur Þorsteinsson, síðar stjórnlagaráðsliði, sem hafði ungur gengið til liðs við Bandalag jafnaðarmanna hafði mikinn áhuga á endurbótum á stjórnarskránni og stjórnkerfi Íslands og þakkaði það Vilmundi. Vilhjálmur talaði á opnum borgarafundi rúmri viku eftir að Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland haustið 2008. Þar sagði hann þá áskorun sem stjórnmálin í landinu stæðu frammi fyrir um uppstokkun og opnun með þátttöku almennings hefðu líkast til fallið Vilmundi vel í geð. Augljóst er að um margt var hann sammála Vilmundi, t.d. um ofurvald stjórnmálaflokkanna og taldi hugmyndir hans myndu þýða gjörbreytingu á stjórnkerfi landsins.[12]

Gísli Tryggvason, lögfræðingur og síðar stjórnlagaráðsliði vann að því innan Framsóknarflokksins að boða til stjórnlagaþings og setti flokkurinn það sem skilyrði fyrir stuðningi við minnihlutastjórn Samfylkingar og VG.[13] Með þingsályktun um viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis í september 2010 var m.a. samþykkt að endurskoða þyrfti stjórnarskrána en um sumarið höfðu verið samþykkt lög um að efna til stjórnlagaþings.[14] Draumur Vilmundar Gylfasonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri jafnaðarmanna virtist ætla að rætast á miklum umbrotatímum í sögu Íslands. Útlit var fyrir að möguleiki yrði á endurnýjun stjórnarskrárinnar grundvölluð á hugmyndum fólksins í landinu án beinna afskipta alþingismanna og framkvæmdarvalds. Alþingi varð engu að síður að ákveða hvernig farið yrði að því.

---

[1] Sjá: Alþingistíðindi D 1951, d. 358.

[2] „Stjórnarskrá í janúar“, Þjóðviljinn, 17. desember 1982, bls. 1.

[3] Alþingistíðindi A 1982-3, bls. 2731-2.

[4] „Niðurstöður skoðanakönnunar um jafnan kosningarétt“, Morgunblaðið, 1. mars 1983, bls. 30-31.

[5] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust, bls. 386.

[6] Ragnheiður Kristjánsdóttir: „Efasemdir um þingræði“, bls. 143.

[7] Sjá t.d. viðtal höfundar við Gísla Tryggvason 28. apríl 2014.

[8] Njörður P. Njarðvík: „Nýtt lýðveldi“, Fréttablaðið,14. janúar 2009, bls. 10.

[9] Svar við ástæðum þess að ræðan var spiluð í útvarpi. Tölvupóstur frá Hjálmari Sveinssyni til höfundar 23. apríl 2014.

[10] Vef. Lára Hanna Einarsdóttir: „Þrjár ræður Vilmundar“, Lára Hanna, 25. nóvember 2008, http://blog.pressan.is/larahanna/2008/11/25/thrjar-thingraedur-vilmundar-gylfasonar/, skoðað 1. apríl 2014.

[11] Jón Baldvin Hannibalsson: „Afhjúpunin“, Morgunblaðið, 25. nóvember 2008, bls. 21.

[12] Vef. Vilhjálmur Þorsteinsson: „Eiga hugmyndir Vilmundar Gylfasonar erindi í umræðuna?“ Erindi á opnum borgarafundi á vegum framtíðarhóps Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, 15. nóvember 2008. http://vthorsteinsson.blog.is/users/56/vthorsteinsson/files/fundur_framti_arhops_s_um_vilmund_ofl.pdf, skoðað 2. nóvember 2010.

[13] Viðtal höfundar við Gísla Tryggvason 28. apríl 2014 og „Stjórnlagaþing gæti tekið til starfa í haust. Breytt stjórnarskrá er skilyrði Framsóknar fyrir stuðningi við minnihlutastjórn“, Morgunblaðið 30. janúar 2009, bls. 10.

[14] Sjá: Lög um stjórnlagaþing, nr. 90, 25. júní 2010 og Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010, 28. september 2010.


Lýðræðið eitt - 2. hluti

Vilmundur Gylfason: „Villimaður í pólítík“

Vilmundur Gylfason lýsti stjórnmálaskoðunum sínum þannig að þær væru í anda lýðræðis-jafnaðarmennsku.[1]  Eins og faðir hans Gylfi Þ. Gíslason, ráðherra og einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins, var hann talsmaður frelsis og jafnréttis; auk þess var hann fylgjandi markaðsbúskap,en aðhylltist jafnframt mannúð og sígildar siðgæðishugmyndir. Hann taldi að ríkinu bæri að tryggja réttláta tekjuskiptingu og afkomuöryggi almennings, en hafa aðeins hæfileg afskipti af atvinnulífinu til hagsbóta fyrir fjöldann jafnframt því að annast heilsugæslu og menntun.[2] Frelsi einstaklingsins var Vilmundi alltaf mjög ofarlega í huga og kvaðst hann vera andvígur því að ríkisvaldið ráðskaðist um of með það.[3] Hann sagðist samt sjálfur rekast illa í flokki vegna þess hve hann væri íhaldssamur á sumum sviðum en róttækur á öðrum.[4]

Hrifning Vilmundar á þeirri hugmyndafræði er skóp Bandaríkin og franska lýðveldið er í anda trúarinnar á frelsið, enda var það honum mjög ofarlega í huga í öllum hans málflutningi. Hann sagðist einnig styðja valddreifingu í líkingu við hugmyndafræði stjórnleysisstefnu 19. aldarinnar og taldi franska jafnaðarmenn sækja kenningakerfi sitt að hluta þangað.[5] Vilmundur hafði reyndar haldið því fram að notkun hugtakanna „hægri“ og „vinstri“ í pólítískri orðræðu væri úrelt og þjónaði ekki framtíðinni.[6]  Honum varð einnig tíðrætt um valdið og hvernig því mætti beita jafnt til góðs og ills, en fannst hugmyndir Thomas Jeffersons þriðja forseta Bandaríkjanna um það í senn einfeldingslegar og jákvæðar. Hann virtist sammála forsetanum og þar með Rousseau um að því færri sem valdastofnanirnar væru, því betra.[7] Áhuga hans á dreifingu valds og andstöðu við vald á fárra höndum mátti því sjá sem rauðan þráð í málflutningi hans. Eðli og mörk valdsins hafa verið ofarlega á baugi í umræðu samtímans og fræðimenn á borð við ítalska lög- og félagsfræðinginn Gianfranco Poggi hafa t.a.m. gagnrýnt mjög stofnanavæðingu þá sem einkennir nútímaríkið.[8]

Á áttunda áratugnum hóf Vilmundur Gylfason hugmyndafræðilega baráttu sína fyrir breytingum og umbótum á íslensku stjórnkerfi. Megnið af þeim áratug og fram eftir þeim níunda einkenndust stjórnmál á Íslandi af baráttu við verðbólgu og verkalýðsátökum, deilum um veru bandarísks hers í landinu, um byggðastefnu og af átökum við Breta um stækkun íslenskrar fiskveiðilögsögu. Vilmundur og fylgismenn hans töldu einnig að berjast þyrfti gegn spillingu, frændhygli og sukki með fjármuni Vilmundur var þeirrar skoðunar að spillingu linnti ekki nema með tilkomu öflugrar rannsóknarblaðamennsku, líkri þeirri sem hann hafði kynnst á námsárum sínum í Bretlandi.[9] Í augum sinnar kynslóðar væri gamla flokkakerfið úrelt og gera þyrfti róttækar breytingar á umgjörð íslenskra stjórnmála.  Hann leit svo á að nauðsynlegt   væri að endurskoða stjórnarskrána, óbreytt ýtti hún undir veldi stjórnmálaflokkanna, misbeitingu valds og ójafnrétti. Það er til marks um þann baráttuanda sem í Vilmundi bjó að hann nafngreindi þrjá fyrrverandi forsætisráðherra og sagði þá hafa misnotað vald sitt vegna þess hve veik stjórnarskráin og dómsvaldið á Íslandi væru.[10] Einn þeirra var Ólafur Jóhannesson sem hafði verið nágranni fjölskyldu hans um áratugaskeið, faðir æskuvinar hans og vinsæll stjórnmálamaður. Þrátt fyrir slíka gagnrýni vitnaði Vilmundur iðulega til Ólafs þegar hann viðraði kenningar sínar og hugsjónir.[11]

Vilmundur hafði mikinn áhuga á að kosið yrði til sérstaks stjórnlagaþings til að endurskoða lýðveldisstjórnarskrána. Efni gamallar blaðagreinar eftir Gylfa Þ. Gíslason, föður Vilmundar, var meginröksemd hans fyrir hugmyndum að stjórnlagabreytingu. Það kann að vera til sannindamerkis um að megnið af stefnu sinni hafi hann sótt til Gylfa og litlu bætt við sjálfur líkt og haldið hefur verið fram.[12]  Greinilegt var að honum þótti stjórnarskráin hafa gengið sér til húðar, enda væri hún að grunni til frá árinu 1874.[13]  Það er ekki allskostar rétt, enda hafði stjórnarskránni í ýmsu verið breytt og talsverðu fyrir lýðveldisstofnun, m.a. í atriðum er snertu embætti forseta Íslands. Ekki fer milli mála að stjórnmálamenn þ. á m. Gylfi,  töldu að lýðveldisstjórnarskráin væri  til bráðabirgða, enda tóku stjórnarskrárnefndir á vegum þingsins þegar til starfa eftir lýðveldisstofnun. Gylfi hafði snemma áhyggjur af miklum ítökum stjórnmálaflokka og Vilmundur lagði mikla áherslu á að dregið yrði úr völdum þeirra.[14]  Þeir hefðu gríðarleg ítök í verkalýðshreyfingu og innan samtaka atvinnurekenda, auk þess að hafa mikil áhrif á aðra samfélagsþætti eins og menningu og listir.  Að hans dómi hefðu flokkarnir  skapað eigið valdakerfi sem endurspeglaðist m.a. í kjördæmakerfi þar sem háð væri „byggðastríð“. Hann virðist hafa trúað snemma að breytinga væri að vænta í stjórnmálum á Íslandi og var þeirrar skoðunar í upphafi að Alþýðuflokkurinn gæti haft forystu í uppstokkun efnahags- og stjórnkerfi landsins.[15] Honum átti eftir að snúast hugur hvað það varðaði.

Vilmundur ýjaði að því að kenningin um þrískiptingu ríkisvaldsins væri úrelt að mörgu leyti, en honum fannst mikilvægt að valdþættir ríkisins væru óháðir hverjir öðrum.[16] Hann leit svo á að upplausn, stjórnleysi og efnahagshringlandi einkenndu íslensk stjórnmál.  Til að snúa við blaðinu vildi hann stuðla að virkara lýðræði, t.d. með því að taka upp einmenningskjördæmi að nýju.[17] Þeirri ráðstöfun hafði verið hætt, hugsanlega vegna þess að slíkar kosningar snerust fremur um persónulegar vinsældir en hugsjónir. Hann vildi jafnframt að kjördæmum yrði fækkað með fleiri uppbótarsætum til að gera skiptingu þingmanna milli kjördæma réttlátari. Það mundi tryggja að öll kjördæmi fengju mann á þing, í versta falli uppbótarmann.[18] Þriðji þáttur hugmynda Vilmundar sneri að því að kjósendur gætu valið frambjóðendur þvert á lista í samræmi við fjölda þingmanna síns kjördæmis, hugnaðist þeim að gera svo.

Í upphafi níunda áratugarins var efnahagsástand á Íslandi örðugt sem aldrei fyrr. Óðaverðbólga geisaði og var jafnvel svo langt gengið að tala um upplausnarástand.[19] Það var í þessu umhverfi sem umbótatillögur Vilmundar voru settar fram. Þingpallar voru þéttskipaðir fólki þegar Vilmundur tók til máls í umræðu um vantraust á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen í nóvember 1982 og tilkynnti um stofnun Bandalags jafnaðarmanna.[20] Í ræðunni sem snerist frekar um stjórnmálahugmyndir Vilmundar en vantraustið sjálft lýsti hann því sem hann kallaði spillt flokkskerfi í landinu og ónýtt stjórnkerfi sem þyrfti á algerri uppstokkun að halda. Hann boðaði hugmyndir sínar um viðamikla endurnýjun með breytingum á kjördæmaskipan og stjórnarskrá lýðveldisins.

Vilmundur var þeirrar skoðunar að valdakerfið hefði algerlega brugðist, enda væri vinna stjórnarskrárnefnda fram til þessa lítils eða einskis virði. Vilmundur vildi koma að ákvæðum um eignarrétt, mannréttindi, tjáningarfrelsi og eðli hagsmunasamtaka.

Hann fullyrti að stjórnarskrárnefnd undir forystu Gunnars Thoroddsen, forsætisráðherra, hefði aðeins umskrifað nokkrar af greinum gömlu stjórnarskrárinnar, enda hefðu stjórnmálamenn vélað þar um eigin hag gegn hagsmunum almennings og væru að reyna að beina sjónum kjósenda frá efnahagsvandanum með því að kynna drög að nýrri stjórnarskrá.[21] Við nánari skoðun má þó sjá að ýmislegt var nútímalegt í drögunum.  Nefna má t.d. mannréttindakaflann auk þess sem gert var ráð fyrir þrengingu þingrofsréttar og breytingum á kosningafyrirkomulagi ásamt staðfestingu á þingræðisreglu.[22] Nokkur atriða stjórnarskrárfrumvarps Gunnars hafa komist í framkvæmd síðan.

Vilmundur taldi almannaviljann væri æðsta vald samfélagsins og vildi hann stuðla að beinna lýðræði. Í þeim anda lagði hann til að forsætisráðherra yrði  kosinn beinni kosningu á landsvísu, en við kjör til alþingis yrði kjördæmaskipan óbreytt.[23]  Hann vildi einnig að algerlega yrði skilið milli framkvæmdar - og löggjafarvalds og því væri áríðandi að afnema þingrofsrétt með öllu.[24] Árið 1974 hafði þing verið rofið og Gylfi Þ. Gíslason lýst yfir að hann ásamt Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hygðist leggja til breytingu á stjórnarskrá til að koma í veg fyrir þingrof.[25] Úr því varð ekki, en Vilmundur taldi að bann við þingrofi yki valddreifingu og leiddi til styrkrar stjórnar.  

Meginhugmyndir Vilmundar sneru því að styrkingu hvers þáttar ríkisvaldsins fyrir sig t.a.m. með því að forsætisráðherra væri kjörinn sérstaklega og ákvæði ráðuneyti sitt sjálfur. Helsta áhyggjuefni Vilmundar var þó hið mikla vald sem hann sagði stjórnmálaflokkana hafa yfir fjölmörgum þáttum þjóðfélagsins auk óljósra valdmarka stofnana ríkisins. Fyrst og fremst lastaði hann samtryggingarkerfi stjórnmálamannanna sem hann sagði fótum troða mannréttindi, skapa spillingu með umdeilanlegum embættismannaveitingum og átaldi dómstóla sem að hans mati voru hallir undir valdið, hvaða nafni sem það nefndist.  Það sama má segja um fjórða valdið svokallaða: Vilmundi þótti þeir vera hluti af því samtvinnaða spillingarkerfi sem hann taldi gegnsýra samfélagið.

---

[1] Sjá: Vilmundur Gylfason: Flokksþingið, trúnaðarskjal, Fréttabréf nr. 4 frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 11. nóv. 1980, bls. 1. og ódagsett viðtal sem Helgi H. Jónsson fréttamaður átti við Vilmund Gylfason eftir að hann hafði fallið í kosningu um embætti varaformanns í Alþýðuflokknum. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[2] Sjá Gylfi Þ. Gíslason: Viðreisnarárin ([Reykjavík] 1993), bls. 18-19 og 140, einnig Vilmundur Gylfason: „Við viljum bætt og umfram allt geðfelldara þjóðfélag“, bls. 10.

[3] Anna Ólafsdóttir Björnsson: „ „Smátt er fagurt“. Vikuviðtal við Vilmund Gylfason sem segir að jafnaðarmenn hafi mikið til anarkista að sækja“, Vikan 47. tbl. 1981, bls. 18-21.

[4] Viðtal Sigmars B. Haukssonar við Vilmund Gylfason í ágústbyrjun 1981 um Alþýðublaðsmálið, bls. 5. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[5] Anna Ólafsdóttir Björnsson: „ „Smátt er fagurt“ “, bls. 18-21.

[6] Vilmundur Gylfason: „Hægri og vinstri – fortíð og framtíð“, Skutull 3.- 4. tbl, L. árgangur, 27. júní 1974, bls. 8.

[7] Vilmundur Gylfason: „Frelsishugtakið í öndverðri sögu Bandaríkjanna“, Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum 18. september 1979, ritnefnd Bergsteinn Jónsson o. fl. (Reykjavík 1979), bls.379.

[8] Poggi, „The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule“, bls. 253.

[9] Jónas Haraldsson: „ „Vil heldur vera stutt á þingi, og vera þar með svolítilli reisn““, Vikan, 40. tbl. 1978, bls. 7.

[10] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna – dómsmál – lög og réttur – stjórnkerfi, handrit 1982, bls. 4. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[11] Sjá t.d. þingsályktunartillögu Vilmundar; Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[12] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust, bls. 43-46.

[13] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 3. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[14] Gylfi Þ. Gíslason: „Lýðræði og stjórnfesta“, bls. 116.

[15] Vilmundur Gylfason: Stjórnmálaviðhorfin, fréttabréf nr. 2 frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 6. mars 1980. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[16] Vilmundur Gylfason: Jafnaðarstefna, bls. 7. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[17] Vilmundur Gylfason: „Nýjar leiðir í kjördæmaskipan“, Skutull 1. tbl., L. árgangur, 12. júní 1974, bls. 4.

[18] Sama heimild.

[19] „Tillögur Vilmundar ræddar á þingi. Verið að spila á upplausnarástand.“ Þjóðviljinn,10. mars 1983, bls. 6.

[20] „Vilmundur yfirgefur Alþýðuflokkinn og stofnar nýjan flokk: Bandalag jafnaðarmanna – bandalag gegn flokkunum“, DV, 19. nóvember 1982, bls. 4.

[21] Vilmundur Gylfason: Stjórnarskráin, Fréttabréf frá Vilmundi Gylfasyni á Alþingi, 4. okt. 1982, bls. 1. Gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar.

[22] Sjá Gunnar Helgi Kristinsson: „Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar“, (Reykjavík 2005), bls. 17-18.

[23] Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[24] Sama heimild.

[25] Guðni Th. Jóhannesson, Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns, 1968-1980, (Reykjavík 2005), bls. 107. Sú varð og raunin, þótt bið yrði á. Í tillögum stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskránni árið 1983 var gert ráð fyrir að einungis væri unnt að rjúfa Alþingi með meirihlutavilja þess sjálfs. Ekki var gengið svo langt með stjórnarskrárbreytingunni 1991 en þess í stað var því ákvæði bætt við 24. grein – þingrofsgreinina – að þingmenn skyldu ætíð halda umboði sínu til kjördags. Eftir þingrof gæti meirihluti þingmanna því haldið þingstörfum áfram og þótt þeir gætu tæpast afturkallað þingrofið gætu þeir samþykkt vantraust á ríkisstjórn, myndað nýja og gert aðrar samþykktir.


"Lýðræðið eitt er vettvangurinn til að berjast á"

Ég hef tekið þá ákvörðun að birta BA ritgerð mína í sagnfræði hér á blogginu. Í ritgerðinni var gerður samanburður á þeim breytingum sem Vilmundur Gylfason boðaði á sínum tíma og því sem krafist var eftir efnahagshrunið með sérstakri áherslu á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Vilmundur vildi að stjórnarskránni yrði beitt til breytinga á innviðum samfélagsins og kom fram með ýmsar tillögur til þess. Kannað var hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu.  Í ritgerðinni var horft til þróunar stjórnarskrárinnar og þeirra breytinga hafa verið gerðar á henni á lýðveldistímanum. Fjallað var um ráðgefandi stjórnlagaráð og hvaða hlutverk því var ætlað. Vegna lengdar ritgerðarinnar mun ég birta einn kafla í einu uns allt er komið. Ritgerðin verður hér að mestu óbreytt frá upprunalegu útgáfunni - fyrir utan minniháttar breytingar vegna framrásar tímans. 

Vilmundur

Inngangur

Vilmundur Gylfason setti ekki aðeins mark sitt á samtíð sína þau tæp 35 ár sem hann lifði, heldur lifðu hugmyndir hans um endurbætur á íslensku stjórnkerfi áfram.[1] Eftir að hann sneri til Íslands frá námi í Bretlandi árið 1973 beitti hann sér fyrir umbótum á íslensku samfélagi, ekki síst í stjórnsýslu, lagasetningu og dómsvaldi. Hann starfaði sem menntaskólakennari og vann við ljósvaka- og prentmiðla. Síðan haslaði hann sér einnig völl í stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra. Hann var jafnaðarmaður að hugsjón líkt og má sjá í orðum hans og sagðist sjálfur fremur aðhyllast franska jafnaðarmennsku en þá þýsku. Í anda þess kvaðst hann vilja gera löglega uppreisn í grasrótinni meðal fólksins og stokka upp gamla flokkakerfið.[2] Til að sú uppreisn væri möguleg taldi Vilmundur breytinga þörf á grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar. Hann lagði til atlögu við það sem hann kallaði samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna með stofnun Bandalags jafnaðarmanna árið 1983, en Kvennaframboðið varð til á svipuðum tíma, sem hafði sömuleiðis veruleg áhrif á stjórnmál á Íslandi. Þótt flokkakerfið lifði það herhlaup af má fulllyrða að tillögur Vilmundar hafi haft varanleg áhrif.  

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008 mátti t.d. iðulega heyra nafn Vilmundar nefnt í tengslum við endurreisn landsins. Áköf andstaða við kerfi sem hyglaði vinum og vandamönnum kom upp ásamt háværu ákalli um skipulags- og stefnubreytingar. Flokkakerfið var harðlega gagnrýnt og var því m.a. kennt um hvernig fór ásamt veikum eftirlitsstofnunum.  Einnig var vísað til slitinnar og óskýrrar stjórnarskár.[3] Svo var að sjá sem margir þeirra sem kröfðust breytinga eftir hrunið, þar á meðal sumir þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, hafi horft til kenninga Vilmundar sem fyrirmyndar að umbótum.  

Í þessari rannsókn verður fjallað um hugmyndafræði og umbótatillögur Vilmundar Gylfasonar og þær bornar saman við orðræðuna eftir bankahrunið og tillögur stjórnlagaráðs. Kannað verður hvert Vilmundur sótti hugmyndir sínar og hvaða samspil er milli þeirra og nálgunar stjórnlagaráðsliða að verki sínu. Jafnframt verður horft til samfélagsástands á hvorum tíma. Þótt nafn hans hafi orðið fyrirferðarmikið í orðræðu samfélagsins eftir efnahagshrunið og vitnað í ræður hans og rit verða færð fyrir því rök að tillögur hans hafi fremur haft óbein en bein áhrif á niðurstöður stjórnlagaráðs. Hugmyndir þess komu víða að, rétt eins og Vilmundar sjálfs. Hugmyndafræði hans átti sér almennt uppruna í lýðræðis- og frelsishugsjónum 17. og 18. aldar, í kenningabanka franskra jafnaðarmanna, anarkista og fleiri pólítískra hugsuða. Svipað á við um vinnu stjórnlagaráðs sem leitaði fanga við vinnu sína hvaðanæva að og komst jafnvel að svo róttækum niðurstöðum að það hlaut ákúrur fyrir.

Umbótatillögur Vilmundar höfðu sumar náð framgangi gegnum stjórnmálin á Íslandi. Breytingar og þróun hafa orðið verulegar á sviði fjölmiðlunar, innan dómskerfisins og stjórnsýslu síðan hann lagði fram hugmyndir sínar. Því lagði stjórnlagaráð aðrar og oft minni áherslu á fjölmarga þætti en þótt hefði þurfa þrjátíu árum fyrr. Greint verður hvar stjórnlagaráð og Vilmundur áttu samleið og hvar ekki, sem virðist oft frekar endurspeglast í hugarfari því sem er að baki tillögunum en niðurstöðunni sjálfri. Sýnt verður að samhljóm má sjá í andstöðu við vald stjórnmálaflokka, leit að leiðum til að draga úr spillingu og löngun til að efla beint lýðræði. Stjórnlagaráð líkt og Vilmundur lagði áherslu á valddreifingu og aðhald milli valdþátta ríkisins. Sú mikla áhersla sem ráðið lagði á að ná taumhaldi á einstökum þáttum ríkisvaldsins með auknu valdboði og eftirlitsstofnunum er varla sú leið sem Vilmundur hefði valið enda var hann þeirrar skoðunar að fækka bæri stofnunum ríkisins. Eitt og annað er líkt með hugmyndum stjórnlagaráðs og Vilmundar um hvernig bregðast skuli við áratugalöngum deilum um jöfnun atkvæðisréttar milli kjördæma en annað er ólíkt. Stjórnlagaráðliðum þótti einna byltingakenndast í tillögum sínum að gefa kjósendum kost á greiða atkvæði þvert á framboðslista sem hafði einnig verið meðal hugmynda Vilmundar.  Viðhorf til mannréttinda hefur víkkað út og breyst mjög undanfarin þrjátíu ár; því eru tillögur stjórnlagaráðs efnislega nokkuð lagt frá kenningum Vilmundar og á suman hátt svo byltingakenndar að ráðið hefur legið undir ámæli fyrir þær. Á hinn bóginn má víða sjá keimlíka sanngirnis- og réttlætiskröfu og hann hélt fram í öllum málflutningi sínum. Sú tillaga Vilmundar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu var mjög í anda hrifningar hans á franskri stjórnskipan og mikilvæg leið til að treysta valdmörk í stjórnsýslunni. Sú aðferð var í upphafi nokkrum stjórnlagaráðsliðum hugstæð og hún rædd í þaula. Niðurstaða ráðsins var að slíkt beint kjör æðsta yfirmanns framkvæmdarvaldsins gæti m.a. ógnað þingræðinu og því varð önnur leið ofan á sem þótti heldur styrkja það.

StjórnlagaráðEftir Vilmund liggja mikil skrif, bókakaflar, viðtöl og blaðagreinar sem hér verður stuðst við til að útskýra hugmyndafræði hans. Einnig verða þingmál hans og ræður teknar til skoðunar, einkum tvær þar sem hann annars vegar tilkynnti um stofnun Bandalags jafnaðarmanna og hins vegar útlistaði grundvallaratriði þau sem lágu að baki stjórnmálastefnu þess. Jafnframt verður byggt á ævisögu hans, Löglegt en siðlaust eftir Jón Orm Halldórsson, frá árinu 1985 og námsritgerð eftir Jón Egilsson.[4] Fyrsta mál Vilmundar sem þingmanns Bandalags jafnarðarmanna var þingsályktunartillaga um gerð frumvarps til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds.[5] Sú tillaga verður skoðuð, en fylgiskjöl með henni voru greinar eftir Gylfa Þ. Gíslason og Ólaf Jóhannesson sem birtust í tímaritinu Helgafelli árið 1945 ásamt yngri grein eftir flutningsmanninn sjálfan.[6] Þau skrif skipa veigamikinn sess, enda byggði Vilmundur hugmyndir sínar mjög á þeim. Einnig verður horft til skrifa fræðimanna um ríki og ríkisvald á borð við Svan Kristjánsson, Ragnheiði Kristjánsdóttur, Ólaf Jóhannesson og Gianfranco Poggi.[7]  

Nokkur meginatriði í íslenskri stjórnsýslu og stjórnskipan, sem Vilmundi voru ofarlega í huga,verða greind í ritgerðinni. Þau verða borin saman við þær hugmyndir sem komu upp eftir hrun, einkum skrif og tillögur stjórnlagaráðs. Við greininguna verður stuðst við viðtöl höfundar og annara við nokkra stjórnlagaráðsliða og greinaskrif þeirra fyrir og eftir veru þeirra í ráðinu. Leitast var við að hafa kynjaskiptingu þeirra sem jafnasta og að þeir hefðu komið að störfum mismunandi nefnda innan ráðsins. Sumir vildu ræða störf sín og hugmyndir við höfund en aðrir vildu fremur fá sendan spurningalista.[8] Einhverjir vildu ekki láta nafns síns getið og verður það virt í hvívetna.  Fræðimenn hafa rýnt nokkuð í ástæður og mögulegar afleiðingar efnahagshrunsins og tengsl þess við kröfu um endurreisn og endurskipulagningu samfélagsins. Nokkur slík rit voru höfð til hliðsjónar til að skerpa skilning höfundar. Má þar nefna skrif tveggja stjórnlagaráðsliða, þeirra Eiríks Bergmanns Einarssonar, stjórnmálafræðings og Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings og bróður Vilmundar.[9] Þorvaldur líkt og fleiri hefur bent á að stjórnarskrám hafi iðulega verið breytt eftir samfélagsáföll eða miklar breytingar. Guðni Th. Jóhannesson, Ólafur Arnarson, Guðrún Johnsen, Ásgeir Jónsson og breski blaðamaðurinn Roger Boyes hafa allir velt hruninu, ástæðum þess og afleiðingum fyrir sér og var horft til þeirra.[10] Við skrifin voru einnig höfð til hliðsjónar nokkur rit um heimspeki stjórnmálanna, um eðli ríkis og ríkisvalds og sögulegan bakgrunn vestræns lýðræðisskipulags.[11] Loks verður  vikið að frumvarpi stjórnlagaráðs og greinargerð með því ásamt ritinu Ný stjórnarskrá Íslands sem er niðurstaða vinnu ráðsins.[12]  

Nokkuð hefur verið skrifað um stjórnarskrármál og störf stjórnlagaráðs á liðnum árum. Iðulega hefur verið horft til ástæðna þess að stofnað var til ráðsins, einstakra greina frumvarpsins, og hvað standi í vegi stjórnarskrárbreytinga.[13] Frumvarp stjórnlagaráðs hefur hins vegar ekki verið borið saman við kenningar pólítísks áhrifavalds á borð við Vilmund Gylfason, líkt og gert verður hér.

Ritgerðin skiptist í fimm meginkafla auk niðurstaðna. Í fyrsta kafla er greint frá kenningum Vilmundar og áhrifavalda hans og þær settar í samfélagslegt samhengi. Næstu þrír kaflar eru einskonar millistef þar sem horft er til orðræðunnar sem varð til í kjölfar hrunsins, kröfunnar um breytt samfélag og hvernig nafn Vilmundar bar á góma í því samhengi. Uppruni og þróun stjórnarskrárinnar verður rakinn og gerð grein fyrir tilurð stjórnlagaráðs. Þar verða skrif ýmissa þeirra sem sóttust eftir eða náðu kjöri til stjórnlagaráðs greind og hugað að í hvaða smiðjur þeir leituðu eftir hugmyndum. Fimmti og efnismesti kaflinn snýr að samanburði á meginatriðum hugmynda Vilmundar og stjórnlagaráðsins. Um er að ræða gagnrýni hans á ægivald stjórnmálaflokka og kröfu hans um skýra aðgreiningu ríkisvaldsins og skipan hinna þriggja þátta þess – löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvalds – sem tengist m.a. hugmyndum um beint kjör forsætisráðherra.  Því skyld eru sjónarmið sem snerta skipun embættismanna ríkisins. Að sama skapi verður horft til þess hvernig Vilmundur og stjórnlagaráð fjölluðu um málskotsrétt og þjóðaratkvæðagreiðslur. Sjónum verður beint að mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og ekki síst kjördæmaskipan og kröfunni um jafnt vægi atkvæða. Afstaða Vilmundar og stjórnlagaráðs til fjölmiðla verður einnig borin saman.

-----

Ljósmynd af Vilmundi Gylfasyni er fengi af vef Alþingis og ljósmynd af stjórnlagaráði af fésbókarsíðu ráðsins. 

[1] Sjá t.d. Ágúst Einarsson: „Ég vil byltingu og blóð“ Viðtal Karls Th. Birgissonar ritstjóra við Ágúst Einarsson sem birtist í Helgarpóstinum 2. nóvember 1995, Greinasafn fyrra bindi. Úrval greina og erinda um stjórnmál, menningu og menntun, ([Reykjavík] 2007), bls. 141.  Titill ritgerðarinnar er fenginn úr hátíðarræðu sem Vilmundur Gylfason flutti á Húsavík 17. júní 1975, sjá: „Við viljum bætt og umfram allt geðfelldara þjóðfélag. Hátíðarræða flutt á Húsavík 17. júní sl.“, Tíminn 24. júní 1975, bls. 10.

[2] Vilmundur Gylfason: Ræða um vantraust, 23. nóvember 1982, gögn úr fórum Jóns Orms Halldórssonar. Ræðuna er að finna í Alþingistíðindum B 1982-1983, d.801- 806 en hér verður stuðst við samhljóða frumrit Vilmundar.

[3] Vef. „Þarf að breyta stjórnarskránni?“, Spurt og svarað á vef Stjórnlagaráðshttp://stjornlagarad.is/upplysingar/spurt-og-svarad/, skoðað 7. apríl 2014.

[4] Jón Ormur Halldórsson: Löglegt en siðlaust. Stjórnmálasaga Vilmundar Gylfasonar (Reykjavík 1985) og Jón Egilsson: „Siðspilling og siðbót: þjóðfélagsgagnrýni Vilmundar Gylfasonar 1975-1978“, óbirt BA ritgerð í sagnfræði (HÍ), 1997.

[5] Alþingistíðindi A 1982, bls. 802.

[6] Ólafur Jóhannesson: „Hugleiðingar um stjórnarskrána“, Helgafell (1945), bls. 104-113; Gylfi Þ. Gíslason: „Lýðræði og stjórnfesta. Hugleiðingar um stjórnskipunarmálið“, Helgafell (1945), bls 114-123 og Vilmundur Gylfason: „Franskt stjórnarfar og íslenskar aðstæður. Hugleiðingar um breytta stjórnarskrá“, Tímaritið Málþing (1979).

[7] Svanur Kristjánsson: „Frá nýsköpun lýðræðis til óhefts flokkavalds. Fjórir forsetar Íslands 1944-1996“, Skírnir 186 (Vor 2012); „Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda.“ Skírnir, 187. ár (Haust 2013); Ragnheiður Kristjánsdóttir: „Efasemdir um þingræði.“, Þingræði á Íslandi. Samtíð og saga, ritstjórn: Ragnhildur Helgadóttir o.fl. (Reykjavík 2011); Ólafur Jóhannesson: Lög og réttur (Reykjavík 1985) og Gianfranco Poggi: „The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule“, Handbook  of Historical Sociology (London 2003), ritstjórar Gerard Delanty og Engin F. Isin.

[8] Spurningar til stjórnlagaráðsiða sneru að hversu mikilvægt þeim hefði þótt að uppræta spillingu, íhuga kjör embættismanna og vald stjórnmálamanna auk myndunar valdablokka. Rætt var um þrískiptingu ríkisvaldsins, kjördæmamál og jöfnun atkvæðaréttar. Rædd var sú hugmynd að kjósa forsætisráðherra beint. Sömuleiðis var vikið að hve ofarlega stjórnlagaráðsliðum hefði verið í huga afnám þingrofsréttar eða þrenging hans.  Einnig var spurt um beint lýðræði, ákvæði um mannréttindi svo sem eignarrétt, tjáningarfrelsi og eðli hagsmunasamtaka. Þeir voru einnig spurðir hvað hefði orðið til þess að þeir buðu sig fram, hvaða hugmyndafræði hefði verið þeim efst í huga og hvort hugmyndir Vilmundar Gylfasonar hefðu haft áhrif á þá,fyrir og á meðan störfum stjórnlagaráðs stóð.

[9] Eiríkur Bergmann Einarsson: Iceland and the International Financial Crisis:Boom, bust and Recovery (Basingstoke 2014) og Þorvaldur Gylfason: „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“, CESifo Working Paper Series No. 3770, (June 2012).

[10] Guðni Th. Jóhannesson: Hrunið:Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík 2009);  Ólafur Arnarson: Sofandi að feigðarósi (Reykjavík 2009); Guðrún Johnsen: Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland (Basingstoke 2014);  Ásgeir Jónsson: Why Iceland: How One of the World's Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty (New York 2009) og Roger Boyes: Meltdown Iceland: How the Global Financial Crisis Bankrupted an Entire Country (London 2009).

[11] Atli Harðarson: „Neyddur til að vera frjáls“, Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995); Guðmundur Hálfdanarson: Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001); John Locke: Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986); Michael Mann: „The Autonomous Power of the State“, States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989); Páll Skúlason: „Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum“, Pælingar II (Reykjavík 1989); James Rachels: Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997) og Stefanía Óskarsdóttir: „Þingræði verður til“, Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011).

[12] „Frumvarp til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum.“ Stjórnlagaráð. Umsjón með útgáfu: Agnar Bragi Bragason, Andrés Ingi Jónsson, Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir, Sif Guðjónsdóttir, Þorsteinn Fr. Sigurðsson, (Reykjavík 2011) og Ný stjórnarskrá Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga 2011, útgefandi Daði Ingólfsson í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið  ([Reykjavík] 2011).

[13] Sjá: Sigurður Hólmar Kristjánsson: „Stjórnlagaráð, saga þess og hlutverk“, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HA), 2012; Brynhildur Bolladóttir: „Tillögur stjórnlagaráðs að ákvæði í stjórnskipunarlögum um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana“, óbirt BA ritgerð í lögfræði (HÍ), 2012; Ásgeir Einarsson: „Málskotsréttur forseta Íslands“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2012; Salka Margrét Sigurðardóttir: „Er vilji allt sem þarf? Hvers vegna norræna velferðarstjórnin hafði ekki erindi sem erfiði við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (HÍ), 2014 og Einar Franz Ragnars: „Frá Búsáhaldabyltingu til Stjórnlagaþings : hver eru tengslin á milli Búsáhaldabyltingarinnar og Stjórnlagaþings?“, óbirt BA ritgerð í stjórnmálafræði (Bifröst) 2011.

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


Spádómi Hitlers fylgt eftir

Þar sem 27. janúar mun vera um veröld alla til minningar um Helförina langar mig að birta hér grein sem ég skrifaði ásamt Aroni Erni Brynjólfssyni sagnfræðingi. Greinin birtist fyrst í Sögnum árið 2013.

Þegar ítök kirkjunnar fóru þverrandi í Vestur-Evrópu og kenningar um jöfn mannréttindi urðu til, fengu gyðingar að lifa og stunda kaupskap sinn og viðskipti nánast í friði. Um miðja 19. öld kom fram kenningin um náttúruvalið byggð á kenningum Charles Darwins um uppruna tegundanna og að hinir hæfustu lifi af. Vísindamenn yfirfærðu kenningarnar á samfélag manna þ.á m. náttúrufræðingurinn Francis Galton, líffræðingurinn Alexis Carrel og náttúrufræðingurinn Ernst Haeckel. Kenningar spruttu upp um að germanski kynstofninn væri sterkastur og hreinastur allra, afkomandi göfugs kynstofns aría, þaðan sem öllu hinu fagra, sterka og góða stafaði, meðan andstæðan væri spilltur og úrkynjaður ættstofn gyðinga.[1] Austurríski rithöfundurinn Stefan Zweig lýsti hvernig stjórnmálin fóru ekki varhluta af þessari hugmyndafræði með uppgangi bolsévisma, fasisma og nasisma og sagði: „fyrst og fremst er þó þjóðernishyggjan sú erkiplága, sem eitrað hefur blóma evrópskrar menningar“.[2]

Hugmyndir um að gyðingar væru af náttúrulegum ástæðum „óæðri“ fékk byr undir vængi víða í Evrópu og til varð hugtakið „gyðingavandamál“ sem vísindamenn jafnt sem prestar og stjórnmálamenn sögðu að þyrfti að leysa. Blöð, tímarit, bækur og bæklingar sem boðuðu andúð á gyðingum, voru gefin út og lesin spjaldanna á milli. Því má sjá að hugmyndin um að gyðingar væru á einhvern hátt óæðri og í raun nánast réttdræpir, hafði skotið rótum löngu áður en Adolf Hitler komst til valda sem foringi Þriðja ríkisins.

Greinin sem hér fer á eftir er hluti rannsóknar höfunda á helförinni í tengslum við námskeiðið Hitler og þjóðernisjafnaðarstefnan, vorið 2011. Markmið rannsóknarinnar var fyrst og fremst að lýsa aðdraganda og upphafi helfararinnar, en höfundar skoðuðu einnig kenningar þess efnis að hún hafi ekki átt sér stað, eða væri stórlega orðum aukin. Gerð verður grein fyrir hugmyndum um lausnir á „gyðingavandamálinu“ og yfirlýsingu Hitlers um útrýmingu gyðinga efndu þeir til styrjaldar í Evrópu. Einnig verður gerð tilraun til að svara hvort það sem gert var hafi verið með vitund og vilja óbreyttra borgara og hvort helförin hafi verið skipulögð frá upphafi.

  1. Hver var spádómurinn?

Eitt af verkefnum Nasistaflokksins eftir að hann hafði náð völdum í Þýskalandi árið 1933 var að finna lausn á „gyðingavandamálinu“. Tveir háttsettir foringjar í flokknum komu fram með hugmyndir í maí-hefti Nationalsozialische Monatshefte sama ár. Annar þeirra var Achim Gercke, nýskipaður sérfræðingur innanríkisráðuneytisins í kynþáttamálum. Honum var umhugað að losna við gyðinga úr landinu enda væri ekki lausn að safna þeim saman í eigin lokuð samfélög. Því stakk Gercke upp á skipulögðum brottflutningi þeirra frá Þýskalandi enda áleit hann hugsanlegt að gyðingar gætu þannig orðið þjóð, besta úrræðið væri að koma þeim kerfisbundið fyrir á einum stað.[3] Hinn var Johann von Leers, helsti hugmyndasmiður Nasistaflokksins í kynþáttamálum, en honum fannst kjörið að gyðingum yrði fundið landsvæði fjarri Evrópu þar sem flutningur til Palestínu væri ómögulegur, einkum vegna hættu á árekstrum við múslíma. Leers taldi Madagaskar, undan austurströnd Afríku, kjörinn áfangastað því í nýju föðurlandi gætu gyðingar gert nákvæmlega það sem þá lysti án þess að trufla aðra íbúa veraldarinnar.[4]

Alkunna er að þessi leið var ekki valin, heldur voru gyðingar í Þýskalandi smám saman einangraðir félagslega og bannað að hafa nokkur samskipti við aría. Gyðingum var gert að láta af öllum störfum fyrir hið opinbera og var meinað að gegna ábyrgðarstörfum sem kröfðust samneytis við aría. Síðar voru helstu eignir og fyrirtæki gyðinga gerð upptæk og úrslitadómurinn, spádómur foringjans, Adolfs Hitlers vofði yfir.

Í janúarlok 1939 ávarpaði Hitler þýska þingið og boðaði skilyrðislausa útrýmingu gyðinga kæmi til annarrar styrjaldar, því hann trúði að náin samvinna og tengsl væru milli auðugra gyðinga, sósíalista og bolsévika. Því snerist „spádómur“ Hitlers um að drægi alþjóðlegt auðvald veröldina inn í heimsstyrjöld yrði niðurstaðan ekki sigur bolsévismans og þar með gyðinga, heldur alger útrýming á kynstofni þeirra í Evrópu.[5]

  1. Spádómnum fylgt eftir

Morð á „óæskilegum einstaklingum“ höfðu tíðkast í Þýskalandi fyrir stríð, t.d. „líknarmorð“ á andlega og líkamlega fötluðum þýskum þegnum, sem áttu eftir að hafa áhrif á aðferðir í útrýmingarbúðum síðar.[6]

Í kjölfar innrásar þýska hersins í Pólland 1. september 1939 var Hitler ákveðinn í að útnefna Hans Frank, fyrrverandi lögmann Nasistaflokksins, landstjóra almenna stjórnunarumdæmisins (e. General Government) sem átti að verða aðalheimkynni innfæddra.[7] Síðar átti að flytja slava, pólska gyðinga og síðar alla aðra gyðinga til köldustu héraða Sovétríkjanna. Hugmyndir um brottflutning voru því enn uppi, en ætlunin var að fangarnir puðuðu í helkulda norðurhjarans, uns þeir létust úr hungri, sjúkdómum og vosbúð. Þeir sem væru óhæfir til vinnu yrðu drepnir miskunnarlaust án nokkurrar tafar.[8]

Áætlun um „þjóðernishreinsun“ (e. ethnic cleansing) í Póllandi var hrundið af stað með samþykki Hitlers. Sex sérsveitir SS (þ. Einsatzgruppen) þustu inn í landið og höfðu heimild til að skjóta alla sem sýndu minnsta mótþróa við handtöku eða virtust líklegir til vandræða. Strangar siðareglur gilda almennt í hernaði, sem gerði sérsveitunum erfitt fyrir þegar ganga átti milli bols og höfuðs á pólska aðlinum, klerkastéttinni og menntastéttinni. Þó sveitirnar vildu ekki styggja þýska herinn tókst þeim að myrða um 60 þúsund manns.[9] Ekki virðist hafa verið erfitt að finna böðla, viljuga að leggja sitt af mörkum við að þóknast Hitler og láta spádóm hans rætast. Það virðist engu máli hafa skipt hvar í stétt þessir menn voru; hermenn, lögreglumenn, iðnaðarmenn eða skrifstofumenn virtust allir tilbúnir að þjóna foringjanum.

Tveimur dögum eftir að innrásaráætluninni Barbarossa[10] var hrundið af stað lagði Heinrich Himmler, yfirmaður SS sveitanna, fram allsherjaráætlun fyrir þá sem fengju það hlutverk að endurskipuleggja búsetu þjóða og þjóðarbrota í hernumdum löndum. Hugmyndin var að flytja ríflega 30 milljónir slava, þ.e. Pólverja, Tékka og Slóvaka, auk stóra hópa gyðinga hvaðanæva að úr Evrópu til vesturhluta Síberíu. Þarna var kominn einangraður samastaður fyrir gyðinga og slava þar sem þeir að lokum dæju út.

  1. Hvað gerðist eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin?

Reinhard Heydrich, einn helsti hugmyndasmiður helfararinnar, fékk leyfi Hitlers til að framfylgja áætluninni um að „friða“ hertekin héruð Sovétríkjanna eftir innrásina í Sovétríkin í júní 1941. Sendar voru fjórar dauðasveitir frá Póllandi í kjölfar innrásarhersins til að „gera upp“ við gyðinga sem voru virkir í Kommúnistaflokknum, en einnig mátti handtaka alla þá sem voru taldir styðja flokkinn. Vart fer á milli mála að Heydrich og hans menn höfðu mjög frjálsar hendur. Í sjálfu sér var nóg fyrir meðlimi dauðasveitanna að gera ráð fyrir að gyðingar sem urðu á vegi þeirra væru kommúnistar, til að þeir teldust réttdræpir.[11]

Fyrstu morðin á gyðingum eftir innrásina í Austur-Pólland og Sovétríkin voru framin þann 24. júní 1941 í litlum bæ í Litháen. Þann 3. júlí 1941 staðfesti foringi dauðasveitarinnar í Luzk, í austurhluta Póllands, að hafa heimilað mönnum sínum að skjóta 1160 karlkyns gyðinga til bana.[12] Litháískir þjóðernissinnar í Kowno tóku þátt í morðunum með því að berja gyðinga til bana með kylfum á meðan fólk safnaðist saman umhverfis og fylgdist með af ákafa. Sumar mæður höfðu börn sín með til að sýna þeim „réttlát“ morð meðan þýsku hermennirnir stóðu álengdar og tóku ljósmyndir sér til skemmtunar.[13] Morðum af þessu tagi fjölgaði mjög og í ágúst 1941 höfðu 10 til 12 þúsund gyðingar og kommúnistar verið myrtir.

Hitler mun hafa verið ánægður með gang mála í Sovétríkjunum en krafðist þess að yfirmaður Gestapo, Heinrich Müller, sæi til þess að foringjar dauðasveitanna kæmu framvegis öllum skýrslum varðandi aðstæður gyðinga og aftökur rakleiðis til hans. Dr. Joseph Goebbels áróðursráðherra varð einnig mjög ánægður við lestur skýrslnanna, taldi árangurinn frábæran og í kjölfarið lýsti hann yfir að spádómur Hitlers væri að rætast.[14]

Að útrýma kommúnísku stjórnkerfi og þar með arfleifð gyðinga varð sameiginlegt markmið yfirmanna þýska hersins og yfirmanna dauðasveitanna. Afskiptaleysi hersins skipti höfuðmáli fyrir dauðasveitirnar svo þær fengju að athafna sig að vild. Mörgum yfirmönnum hersins fannst drápin vera nauðsynleg til að hefna fyrir ofbeldi og glæpi sem Þjóðverjar hefðu þurft að þola af hálfu gyðinga ásamt því að heiður Þýskalands og stolt æðri kynstofnsins væri í húfi. Öll orð hinna viljugu herforingja urðu hvatningarorð, meðan orð þeirra sem mögluðu og þótti aðgerðirnar ekki sýna minnsta vott um hermennsku voru hunsuð.[15]

Morðin á gyðingum tóku á sig aðra mynd þegar dauðasveitirnar hættu að drepa karlmenn eingöngu, og hófu að myrða eiginkonur og börn sem gætu sóst eftir hefnd síðar.[16]

  1. Aðferðirnar þróast

Hæstráðendur Þriðja ríkisins litu á morðin á gyðingum sem lokalausnina á gyðingavandamálinu í Evrópu. Þó er greinilegt að í upphafi var ferlið harla losaralegt og óskipulagt. Sagnfræðingum hefur ekki komið saman um hver bar ábyrgð á öllum ákvörðunum en spjót þeirra flestra beinast að Hitler sjálfum sem var foringi ríkisins, æðsti yfirmaður hersins og bar því ábyrgð á öllum hernaðarlegum aðgerðum.[17]

Nokkrir fræðimenn, þ.á m. þýski sagnfræðingurinn Martin Broszat, hafa efast um að Hitler hafi nokkurn tíma gefið skýra skipun um að hefja ferlið sem síðar varð þekkt sem helförin. Það hafi smám saman þróast út frá áðurnefndum aðgerðum árin 1941 og 1942. Þessi niðurstaða byggir fremur á skorti á heimildum en raunverulegri vitneskju um hvað gerðist.[18] Aðrir hafa fullyrt að Hitler hafi einungis gefið fyrirskipun munnlega, öfugt við líknardrápin í Þýskalandi, þar sem fyrirskipunin var skjalfest.[19]

Þegar litið er á þróun helfararinnar, og þ.a.l. lokalausnarinnar, kemur í ljós að eitt fjöldamorð leiddi af öðru. Morðin á fötluðum og þroskaheftum þýskum þegnum, sem voru að mestu framkvæmd með eiturgasi, voru upphafið sem sannfærði æðstu menn Nasistaflokksins að fjöldamorð væru framkvæmanleg. Aðferðirnar sem nasistar beittu voru breytilegar, í upphafi voru gyðingar jafnvel skotnir til bana á staðnum. Þeir sem gátu unnið voru sendir rakleiðis í fangabúðir eða í gyðingahverfin, þar sem hungursneyð, kuldi og sjúkdómar drógu flesta til dauða. Til eru dæmi um að skotvopn hafi verið notuð í fanga- og útrýmingarbúðunum til að flýta fyrir og skila ásættanlegum árangri, enda þótti gasið ekki alltaf áreiðanlegt. Óbreyttir þýskir borgarar virtust reiðubúnir að horfa framhjá eða jafnvel taka þátt í morðum á saklausu fólki sem þeim hafði verið talin trú um að væri „óæðra“.[20]

Himmler og flestir undirmenn hans áttuðu sig á að fljótlegra og gagnlegra væri að koma öllum gyðingum fyrir í sérvöldum búðum utan Þýskalands. Þar gætu morðin gengið hraðar fyrir sig, þar sem enginn kæmist á snoðir um þau og auðveldara yrði að leyna aðstæðum fanga innan veggja búðanna. Óhætt er að fullyrða að þeir hafi viljað leyna sannleikanum af ótta við viðbrögð þýsku þjóðarinnar og umheimsins.[21]

  1. Flutningar hefjast

Líklegt er að allar aðgerðir gegn gyðingum hafi þurft samþykki Hitlers, en honum var orðið ljóst að gangur stríðsins væri smám saman að breytast til hins verra fyrir Þýskaland. Innrásin í Sovétríkin gekk illa og varla voru til nægilega margar járnbrautarlestir til að flytja búnað og gögn til eða frá víglínunni og enn síður fyrir allsherjarflutninga gyðinga austur á bóginn. Svæðin sem nasistar réðu yfir í austri voru hugsuð sem lífsrými fyrir Þjóðverja (þ. Lebensraum) en jafnframt fyrir þjóðernishreinsanir enda voru sovéskir gyðingar drepnir þar þúsundum saman. Hitler taldi allar aðgerðir gegn þeim gyðingum sem eftir voru í Evrópu, hvort heldur sem við víglínurnar eða fyrir aftan þær, yrðu að bíða betri tíma því aðgerðirnar þóttu of áhættusamar. Í námunda við andstæðinga þýska herliðsins var hætta á að upp kæmist um ofsóknir gegn gyðingum og áform um lokalausnina.

Í ágúst 1941, þegar fregnir bárust af fyrirskipun Stalíns um flutning 600 þúsund sovéskra þegna af þýskum uppruna (e. Volga Germans) til Vestur-Síberíu og Norður-Kasakstans, skipti Hitler um skoðun og ákvað að brottflutningur gyðinga austur hæfist um miðjan september. Erfitt er að fullyrða hvort þessi ákvörðun Hitlers hafi verið viðbrögð við aðgerðum Stalíns en ætla má að svo hafi verið. Hitler hafði talið gríðarlega nauðsyn á flutningunum svo hægt væri að taka endanlega á gyðingavandamálinu, sem hefði setið of lengi á hakanum. Frekari tafir á lokalausn gyðingavandamálsins væru óásættanlegar enda bæru gyðingar ábyrgð á stríðinu og skyldu nú sjá spádóminn uppfylltan.[22]

Um miðjan september var tilkynnt að gyðingar í tékknesku verndarríkjunum Bæheimi og Mæri skyldu tafarlaust fluttir austur á bóginn. Fyrsti áfangastaður þeirra myndi vera pólsku héruðin, sem höfðu verið undir handarjaðri nasista í rúm tvö ár, en eftirlifendur yrðu fluttir lengra austur vorið eftir.

Sagnfræðingurinn Ian Kershaw virðist ekki vera sannfærður um að beint samhengi sé milli flutninga gyðinga austur og morðaðgerða gagnvart þeim. Hann telur líklegra að einhvers konar víxlverkun hafi átt sér stað þar sem eitt leiddi af öðru uns örvæntingin hafi orðið til að æðstu menn Nasistaflokksins gengu nánast af göflunum varðandi drápsaðferðir síðustu þrjú ár stríðsins. Kershaw segir heldur engar heimildir vera til um skipulagða áætlun varðandi þjóðarmorð á þessum tíma. Þrátt fyrir þessi orð Kershaws má ekki gleyma því að aðgerðir gegn gyðingum hófust af miklum krafti snemmsumars 1941, byggðar á spádómsræðu Hitlers. Þeir sem þær framkvæmdu vildu ólmir sanna sig og leggja lóð sín á vogarskálarnar við að þóknast Þriðja ríkinu og foringjanum. Eftir að Hitlers veitti Heydrich heimild til „friðunar“ hertekinna héraða Sovétríkjanna, fjölgaði morðunum á skömmum tíma og fjölmargir nasistaforingjar sýndu mikið frumkvæði við að stemma stigu við gyðingavandamálinu á yfirráðasvæðum sínum. Eftir að flutningar á gyðingum hófust austur á bóginn, gengu allar aðgerðir vonum framar fyrir Nasistaflokkinn en fjölmargra gyðinga beið dauðinn einn.[23] Opinber áætlun um algert þjóðarmorð átti eftir að líta dagsins ljós innan fárra mánaða.

  1. Ráðstefnan í Wannsee

Þann 20. janúar 1942 voru margir af æðstu forystumönnum Þriðja ríkisins samankomnir á ráðstefnu sem síðan hefur verið kennd við fundarstaðinn, Wannsee í úthverfi Berlínar. Þar var samþykkt áætlun um lokalausnina á gyðingavandamálinu. Ráðstefnan stóð stutt, hugsanlega ekki nema í 90 mínútur. Fjöldamorðin sem þegar voru hafin fengu á sig formlega mynd og samþykkt var áætlun um að allir gyðingar í Þýskalandi, í þeim löndum sem hernumin höfðu verið og jafnvel víðar í álfunni, skyldu fluttir til nauðungarvinnu og í útrýmingarbúðir í almenna stjórnunarumdæminu í Póllandi. Athygli vekur að Hitler tók ekki þátt í Wannsee-ráðstefnunni en vissi líklega af henni.[24] Að mati Ians Kershaws er það þó ekki öruggt, en foringinn hafði áréttað orð sín úr „spádómsræðunni“ um örlög gyðinga nokkrum dögum fyrir ráðstefnuna.[25] Markmið þeirra sem sóttu ráðstefnuna hefur að öllum líkindum verið að þóknast foringjanum; nú hafði leiðin að lokalausninni verið mótuð. Ekki eru allir fræðimenn sammála um efni Wannsee-ráðstefnunnar. Einn þeirra, þýski sagnfræðingurinn Ernst Nolte, gengur svo langt að hafna tilvist hennar í bók sinni, Der europäische Bürgerkrieg, 1917–1945, en lítur um leið algerlega framhjá því að þátttakendur ráðstefnunnar hafi staðfest að þeir hafi verið viðstaddir og eins að fundargerðir hennar séu til.[26] Það er harla merkilegt að virtur sagnfræðingur skuli horfa framhjá slíkum heimildum um atburð sem átti eftir að hafa afgerandi áhrif á sögu helfararinnar og gera hana í raun opinbera.

Fyrstu útrýmingarbúðirnar voru í borginni Kulmhof í norðanverðu Póllandi þar sem fjölmargir sovéskir gyðingar dóu af völdum eiturgass og aðrir voru skotnir til bana. Í útrýmingarbúðum á borð við Treblinka var tekið til við notkun gasklefa sem þótti mikil framför. Himmler ákvað að breyta starfsheiti Auschwitz og Majdanek fangabúðanna í útrýmingarbúðir, þar sem fárra beið annað en skjótur dauðdagi.[27] Í Auschwitz var hætt að nota kolsýring eða koleinoxíð og tekið að nota blásýru þess í stað.[28] Til marks um hversu skipulega var gengið til verks er áætlað að um 75 til 80 af hundraði fórnarlamba helfararinnar hafi enn verið á lífi um miðjan mars 1942, en ellefu mánuðum síðar hafi aðeins um fjórðungur þeirra enn verið lífs.[29] Fyrir árslok 1942 töldu yfirmenn SS sveitanna sjálfir að um 4 milljónir gyðinga væru látnar.[30]

Evrópskir gyðingar voru drepnir hvenær sem færi gafst í álfunni á árunum 1941 til 1945, á götum úti, í orrustum eða eftir þær, við leifturárásir, heima í gyðingahverfunum, í fanga- og útrýmingarbúðum eða við flutninginn í þær. Það sýnir að tilraun var gerð til að láta spádóm Hitlers rætast, nógu margir voru tilbúnir að þóknast foringjanum í verki.

  1. Efasemdarmennirnir

Til eru þeir sem fullyrt hafa að helför nasista gegn gyðingum sé uppspuni frá rótum og hafi aldrei átt sér stað. Þeir sem þannig tala afneita því að þjóðarmorð hafi verið framið á gyðingum í síðari heimsstyrjöld og fullyrða að saga helfararinnar sé samsæri gyðinga um að gera hlut þeirra sem mestan á kostnað annarra hópa sem fóru einnig illa út úr stríðinu. Þeir benda á að ríkisstjórn Þriðja ríkisins hafi alls ekki haft opinbera stefnu um útrýmingu gyðinga, sem er ekki fráleitt, og að tilgangurinn með útrýmingarbúðum og gasklefum hafi ekki verið að myrða gyðinga. Þeir segja mun færri gyðingar hafa látist en opinberlega hefur verið haldið fram og að fleiri aríar en gyðingar hafi látist í útrýmingarbúðum. Þau rök hafa einnig heyrst að nasistar hefðu ekki haft tíma til að myrða allan þennan fjölda fólks. Yfirleitt stangast niðurstöður þeirra sem hafna helförinni á við sagnfræðileg gögn og heimildir sem til eru, enda iðulega byggðar á fyrirfram gefnum forsendum. Þó hafa þess háttar rök verið notuð í réttarhöldum yfir grunuðum stríðsglæpamönnum, t.d. Klaus Barbie, „slátraranum frá Lyon“, en verjandi hans taldi engu meiri glæp að senda gyðinga í gasklefa en að berjast við þjóðir eins og Víetnama eða Palestínumenn, sem væru að reyna að losa sig undan erlendu valdi.[31]

Ernst Nolte telur rök þeirra sem hafna helförinni ekki alveg út í bláinn og ástæður þeirra oft virðingarverðar. Hann hefur haldið því fram að ástæða þess að dauðasveitirnar myrtu fjölda gyðinga á austurvígstöðvunum hafi verið „fyrirbyggjandi öryggisráðstöfun“ því fjöldi gyðinga hafi tilheyrt andspyrnuhreyfingum á svæðinu. Þó alls ekki megi setja Nolte í hóp þeirra sem hafna helförinni alfarið, þótti bandaríska sagnfræðingnum Deboruh Lipstadt, höfundi bókarinnar Denying the Holocaust, einkar óþægilegt að svo virtur sagnfræðingur skyldi vera þessarar skoðunar og taldi það gefa málstað þeirra sem andmæltu helförinni byr undir báða vængi.[32] Eftir að bók Lipstadt kom út höfðaði breski rithöfundurinn David Irving meiðyrðamál á hendur henni og útgáfufélaginu þar sem hann hélt fram að útilokað væri að milljónir gyðinga hefðu verið myrtar í gasklefum né að gyðingaofsóknir hefðu verið skipulagðar. Hann fullyrti einnig að útrýmingarbúðirnar í Auschwitz væru síðari tíma tilbúningur. Skemmst er frá því að segja að Irving var „úrskurðaður afneitari Helfararinnar [sic], gyðingahatari og kynþáttahatari og sagður vera nasistavinur, sem hefði falsað söguna málstað þeirra til framdráttar“.[33]

  1. Óbreyttir borgarar – viljugir böðlar eða saklaus verkfæri?

Daniel Jonah Goldhagen, stjórnmálafræðiprófessor við Harvard, skrifaði afar umdeilda bók um helförina, Hitler´s Willing Executioners sem vakti þegar mikla athygli. Hann fullyrti að í Þýskalandi hefði skapast sérstök gerð gyðingahaturs, sem hann kallaði „drápskenndan gyðingafjandskap“ (e. eliminationist antisemitism). Þar hefðu nasistar orðið herrar samfélags, gegnsýrðu af fjandskap í garð gyðinga, sem gerði afar róttæka og öfgafulla leið til upprætingar þeirra framkvæmanlega.[34]

Goldhagen hélt því einnig fram að þýskir gerendur helfararinnar, konur jafnt sem karlar, hafi komið fram við gyðinga á þann grimmilega, hrottalega og banvæna hátt sem raun bar vitni, því það þótti einfaldlega rétt og nauðsynlegt. Sömuleiðis hafi langvarandi, heiftarlegt og inngróið hatur mikils meirihluta þýsku þjóðarinnar á gyðingum verið ástæða löngunar að losna við þá úr samfélaginu með öllum tiltækum ráðum. Meginþema bókarinnar var því að allir Þjóðverjar, háir og lágir, ungir sem aldnir, ríkir og fátækir, væru jafn sekir.

Hitler‘s Willing Executioners hlaut fádæma viðtökur hjá almenningi, einkum í Þýskalandi, en fræðimönnum fannst Goldhagen ganga of langt. Hann væri of dómharður í garð þýsku þjóðarinnar og liti framhjá áralöngum rannsóknum fræðimanna á helförinni til þess eins að þjóna fyrirframgefinni hugmynd. Ian Kershaw og þýski sagnfræðingurinn Eberhard Jäckel fullyrtu að bókin væri léleg og bætti litlu sem engu við skilning manna á upphafi helfararinnar.[35] Kershaw dró í efa niðurstöðu Goldhagens um að aðstæður í Þýskalandi hefðu verið gerólíkar þeim sem annars staðar þekktust og sömuleiðis væri ólíklegt að allir Þjóðverjar hefðu verið gallharðir gyðingahatarar. Kershaw var þó þeirrar skoðunar að fræðimenn ættu erfitt með að andmæla skrifum Goldhagens, enda væru þau svo kraftmikil og tilfinningaþrungin að almennur lesandi gæti álitið fræðileg svör veikluleg, ósannfærandi og bæru keim af réttlætingu á því sem gerst hefði. Hann taldi jafnvel að ný kynslóð tryði fræðimönnum síður því harðari mótrök sem þeir kæmu með.[36]

Sagnfræðingurinn David Bankier, sem fæddist í Þýskalandi en ólst upp í Ísrael, segir að morðin á gyðingum hafi skilið eftir sig djúp ör í sálum margra sem þurftu að taka þátt í þeim. Sektarkenndin hafi gert mörgum þeirra ómögulegt að lifa í sátt við eigin samvisku, meðan fyrir aðra hafi þetta verið „stórkostlegir tímar“.[37] Svo virðist einnig vera að aðferðirnar við morðin hafi fengið á sig einhvers konar ógnvænlegan ævintýrablæ líkt og menn hafi ekki viljað trúa því sem raunverulega hafi gerst.[38] Þó má fullyrða að vitneskja um fjöldamorðin einskorðaðist ekki við hermenn, því fjölmargir óbreyttir borgarar höfðu nægja vitneskju um stefnu nasista til að átta sig á atburðarásinni.

Í nóvember og desember árið 1944 var hópur þýskra borgara í Aachen yfirheyrður af háttsettum foringjum úr tólftu herdeild Bandaríkjahers. Mikil sektarkennd og vanlíðan vegna örlaga gyðinga var áberandi meðal hinna yfirheyrðu, auk þess sem þeir viðurkenndu að mjög hefði verið á þeim brotið. Flestir höfðu heyrt sögusagnir af meðferðinni á gyðingum í Póllandi en virtust samt ekki geta horfst algerlega í augu við sannleikann. Nánast allir sögðu að það hefðu verið stærstu mistök Hitlers að ráðast gegn gyðingum og að sökin væri öll foringjans. Nokkrum mánuðum áður hafði sálfræðiherdeild Bandaríkjahers kynnst svipuðum vitnisburðum, auk þess sem dulin og djúpstæð sektarkennd virtist hafa búið um sig vegna hegðunar þýska hersins, einkum á austurvígstöðvunum og gagnvart gyðingum. Þjóðverjar bjuggust við grimmilegri hefnd og voru tilbúnir að sætta sig við hana, en vonuðu að Bandaríkjamenn gætu haft hemil á ofsa þeirra sem kæmu til með að refsa þeim.[39]

  1. Lokaorð

Þegar Adolf Hitler ávarpaði þýska þingið árið 1939 og spáði útrýmingu gyðinga, voru orð hans sögð í samfélagi sem var mjög litað af gyðingaandúð – jafnvel hatri. Gyðingar voru taldir ganga erinda sósíalista og bolsévika, auk þess sem þeir voru álitnir „óæðri“. Upp komu hugmyndir um að eina leiðin til að leysa „gyðingavandamálið“ væri að flytja þá til svæða víðs fjarri Evrópu, en af því varð ekki. Andúð gegn gyðingum í Þýskalandi jókst með tímanum og svo fór að þeir voru útilokaðir frá ábyrgðarstöðum og samneyti við aría. Í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland og síðar Sovétríkin magnaðist andúðin enn frekar og gefin voru leyfi til að drepa gyðinga, hvar sem til þeirra næðist, eða hneppa þá í fangavist. Engar heimildir virðast þó vera til um skipulagða áætlun um þjóðarmorð gyðinga framan af styrjöldinni. Morð og fangelsanir þeirra og annarra af „óæðri“ kynstofnum virðast hafa verið fremur óskipulögð og sett í sjálfvald hvers herforingja. Það var ekki fyrr en í kjölfar Wannsee-ráðstefnunnar snemma árs 1942 að útrýmingarherferðin tók á sig opinbera mynd og varð að skipulegri stefnu í átt að lokalausn „gyðingavandamálsins“, algerri útrýmingu í sérhönnuðum búðum. Þeir sem hafa hafnað því að helförin hafi átt sér stað, hún hafi ekki verið skipulögð eða að mun færri gyðingar hafi látist en haldið hefur verið fram, hafa ekki fengið mikinn meðbyr með hugmyndum sínum og byggja þær á fáum sem engum heimildum. Þó hafa þeir nokkuð til síns máls um skipulagsleysi aðgerðanna, einkum á fyrstu tveimur árum stríðsins.

            Margt bendir til að fjöldi almennra borgara hafi vitað af og tekið þátt í ofsóknum gegn gyðingum. Það lítur út fyrir að þeir sem voru andvígir aðgerðunum töldu sig ekki geta brugðist við með neinum hætti. Því útilokaði fólk raunveruleikann og reyndi að halda áfram sínu daglega lífi. Fjölmargir voru ósammála hugmyndum Hitlers og annarra nasista, sem héldu því fram að gyðingar og ýmsir aðrir væru af „óæðri“ kynstofnum, og þ.a.l. væri ofbeldi gegn þeim og útrýming réttlætanleg. Óttinn við yfirvaldið og eigin bana varð þó til þess að fáir brugðust við. Sagnfræðingar eins og Ian Kershaw hafa hafnað hugmyndum Daniels Goldhagen um að þýskt samfélag hafi verið gegnsýrt „drápskenndum gyðingafjandskap“, aðstæður þar hafi ekki verið ólíkar þeim sem þekktust um alla Evrópu. Styrjöldin og helförin höfðu hins vegar varanleg áhrif á þýskt samfélagið, þar sem skömm, vanlíðan og samviskubit hlóðst upp í sálarlífi Þjóðverja. Þó tæp sjötíu ár séu liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar er óvíst hvort þær tilfinningar séu horfnar úr þýsku þjóðarsálinni.

 

[1] Um hugmyndir fræðimannanna má til dæmis lesa í bókum Galtons Hereditary Genius og English men of science: their nature and nurture sem komu út á árunum 1869 og 1874, einnig í bók Carrels L'Homme, cet inconnu sem kom út á ensku árið 1936 undir heitinu Man, the Unknown. Kenningar Haeckels eru sennilega hvergi skýrar settar fram en í bók hans Natürliche Schöpfungsgeschichte frá árinu 1876. Ensk þýðing þeirrar bókar, The History of Creation, kom fyrst út árið 1876.

[2] Zweig, Stefan: Veröld sem var – sjálfsævisaga. Halldór J. Jónsson og Ingólfur Pálmason þýddu. 3. útgáfa. Reykjavík, 2010, bls. 8.

[3] Gercke, Achim: „Die Lösung der Judenfrage“, Nationalsozialistische Monatshefte, 38. hefti (1933), bls. 195-197.

[4] von Leers, Johann: „Das ende der jüdischen Wanderung“, Nationalsozialistische Monatshefte, 38. hefti (1933), bls. 229-231.

[5] Kershaw, Ian : Hitler. London, 2009, bls. 469.

[6] Friedlander, Henry: The Origins of Nazi Genocide. From Euthanasia to the Final Solution. Chapel Hill, 1995, bls. 39.

[7] Kershaw: Hitler, bls. 508.

[8] Sama, bls. 669.

[9] Sama, bls. 518-519.

[10] Barbarossa var dulnefni yfir innrás Þýskalands í Sovétríkin, sem hófst 22. júní 1941.

[11] Kershaw: Hitler, bls. 668-670.

[12] Sama, bls. 670-674.

[13] Sama, bls. 670-674.

[14] Sama, bls. 670-674.

[15] Sama, bls. 670-674.

[16] Sama, bls. 674-675.

[17] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 284.

[18] Jäckel, Eberhard: Hitler in history. Hanover NH, 1984, bls. 46.

[19] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 285.

[20] Sama, bls. 284.

[21] Sama, bls. 286.

[22] Kershaw: Hitler, bls. 684.

[23] Sama, bls. 687.

[24] Breitman, Richard: The Architect of Genocide: Himmler and The Final Solution. London, 2004, bls. 229-233.

[25] Kershaw: Hitler, bls. 696-697.

[26] Lipstadt: Denying the Holocaust. The Growing Assault on Truth and Memory. London, 1994, bls. 214.

[27] Friedlander: The Origins of Nazi Genocide, bls. 286-287.

[28] Koleinoxíð er baneitrað og binst auðveldlega við rauðkornin í blóðinu. Ástæðan er sú að hemóglóbínsameindir rauðkornanna vilja frekar bindast CO en O2. Afleiðingin er sú að vefir og líffæri líkamans fá ekki nægt súrefni. Snertur af koleinoxíði getur valdið höfuðverk og sljóleika en í meira magni getur það orsakað óafturkræfar heilaskemmdir og jafnvel dauða. (Dagur Snær Sævarsson: „Gæti ég fengið að vita það helsta um kolefni?“. Vísindavefurinn 20.11.2007. http://visindavefur.is/?id=6917. Skoðað 14.02.2011)

„Tilraunir leiddu í ljós að blásýra (HCN) væri „hentug“: Hún er nefnilega bráðdrepandi því að ekki þarf nema um 50 grömm til að myrða um 1000 manns. Hún verkar fyrst á frumur í öndunarvegi fórnarlambanna og leiðir oftast til þess að þau kafna á fáum mínútum.“. (Páll Björnsson: „Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands?“. Vísindavefurinn 20.3.2001. http://visindavefur.is/?id=1392. Skoðað 14.2.2011).

[29] Browning, Christopher R.: The Path to Genocide. Essays on Launching the Final Solution. Cambridge, 1992, bls. 169.

[30] Kershaw: Hitler, bls. 697.

[31] Lipstadt, Deborah: Denying the Holocaust, bls. 11.

[32] Lipstadt: Denying the Holocaust, bls. 214.

[33] Morgunblaðið 12. apríl 2000, bls. 30.

[34] Goldhagen, Daniel Jonah: Hitler‘s Willing Executioners. Ordinary Germans and the Holocaust. London, 1996, bls. 23.

[35] Kershaw, Ian: The Nazi dictatorship: Problems and Perspectives of Interpretation. London, 2000, bls. 255.

[36] Sama, bls. 257.

[37] Bankier, David: „German public awareness of the final solution“. The Final Solution. Origins and Implementation. Ritstjóri David Cesarini. London, 1994, bls. 215.

[38] Sama, bls. 216.

[39] Sama, bls. 216.

Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.


mbl.is 70 ár frá frelsun Auschwitz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið ósýnilega

http://www.youtube.com/watch?v=FjLrC1-PMDw

HVAR VORU LANDSMÆÐURNAR? Hlutverk og staða kvenna í amerísku byltingunni

Þó konur séu og hafi verið um helmingur mannkyns hafa þær fram á seinustu ár verið aukaleikarar á sviði sögunnar. Löngum var  sagan skrifuð um sigursæla hershöfðingja, konunga og keisara sem oftast  voru karlkyns. Helsta gagnrýni á sagnfræði fyrri tíma er einmitt skortur á konum þó það væri jafnvel talið að sá skortur stafaði af því að þær hefðu gert svo fátt.[1]  Smám saman efldist ritun sögu kvenna sem er talin eiga sér þrjú blómaskeið, það tilþrifamesta hófst á sjöunda áratug síðustu aldar með tilkomu kvennahreyfinga víða um veröld. Kvennasagan hefur þróast í þá átt að fjalla um samskipti beggja kynja í félagslegu samhengi, er orðin kynjasaga. Nýjar áherslur í söguritun, með áherslu á hversdagslífið, hið einstaka og persónulega, hafa dregið konur fram úr skúmaskotum sögunnar.[2]  Einstaklingar úr minnihlutahópum hafa orðið sýnilegir og mikilvægir sem viðfang sögunnar og ekki síður sem starfandi sagnfræðingar.[3]  Fyrsta blómaskeið kvennasögu var um og eftir frönsku stjórnarbyltinguna en hér verður skoðuð staða kvenna í aðdraganda og eftirmálum annarar byltingar, fáum árum fyrr,  þeirrar amerísku.  Allmiklar breytingar urðu hugarfarslega, á sviði stjórnarfars og menningar en það er ekki fyrr en á síðari árum sem þáttur kvenna hefur verið skoðaður markvisst. Hvernig var staða kvenna í nýlendum Breta fyrir, eftir og á meðan á amerísku byltingunni stóð?

Þeir sem undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsingu og sömdu stjórnarskrá Bandaríkjanna hafa verið nefndir landsfeður Bandaríkjanna en hvar voru landsmæðurnar?

II

Á átjándu öld var veröldin að breytast, á annan bóginn hallæri og farsóttir en samtímis glitti í birtu upplýsingarinnar. Upplýsingin varð til þess að hugsuðir og framkvæmdamenn sannfærðust um að vísindin gætu útskýrt lögmál heimsins og ekki síst að mannkynið gæti stjórnað og ráðið eigin örlögum. Talið var að hægt væri að upplýsa fólk og fræða um að örlögin væru ekki fyrirfram ákveðin af guðlegri forsjón heldur gæti hver og einn skapað sína eigin framtíð.  Framfaratrú upplýsingarinnar ásamt hugmyndum tengdum náttúrurétti auk kröfunnar um frelsi og jafnrétti allra skóp grundvöllinn fyrir frönsku byltingunni og ekki síður þeirri amerísku.

            Nýlendur Breta voru orðnar mjög sjálfstæðar um stjórnarmálefni sín þegar um miðja átjándu öld með mjög sveigjanlegt pólítískt kerfi sem tiltölulega stórir hópar fólks tóku þátt í.[4] Með afar mikilli einföldun má segja að áralangar deilur við Breta um skattheimtu og stjórnskipan hafi valdið því að nýlendubúar risu upp, gerðu byltingu sem lauk með stofnun lýðveldis og tilurð stjórnarskrár sem samin var af hópi (vel stæðra) hvítra karlmanna. Þessir karlmenn litu á sig sem fulltrúa allra en hverjir voru þessir allir?   Þegar  réttindi til handa öllum voru tryggð í öndverðu ríkti sá skilningur að ekki væri átt við konur, ekki eignalausa, ekki indíána, svarta menn né aðra minnihlutahópa. Allir voru einfaldlega hvítir karlmenn á tilteknum aldri sem áttu eignir.  Smátt og smátt  hefur mengið allir  stækkað mjög mikið.  Hugmyndin um réttindi allra segir kvennasögufræðingurinn Joan Wallach Scott að hafi orðið til þess að amerískir karlar jafnt og konur hafi séð fyrir sér fullkomið, samhuga, jafnréttissamfélag[5] og Linda Kerber, sagnfræðingur telur að hugmyndin hefði verið að skapa samfélag, sem allir fullorðnir einstaklingar ættu að taka þátt í að móta.[6] Á átjándu öld hafði orðið mikil fólksfjölgun í nýlendunum, hlutfall karla og kvenna hafði jafnast, æ fleiri íbúar voru af öðrum uppruna en enskum og borgarmenningu hafði vaxið fiskur um hrygg. Fjölskyldan var mög mikilvæg eining í nýlendendunum.[7] Eftir 1775 varð sú hugarfarsbreyting að nýlendubúar hættu líta á sig sem þegna Bretakonungs og urðu þess í stað borgarar í lýðveldi, en hvað þýddi það?

            Kvenfrelsishreyfingar hafa sótt réttlætingu sína í hugmyndir upplýsingartímans um frelsi og jafnrétti allra manna[8]. Áðurnefnd skilgreining á öllum, sem náði til hvítra, menntaðra, efnaðra karlmanna hefur mótað sjálfsmynd þjóða, sem aftur hafði áhrif á þjóðernislega sjálfsmynd kvenna án þess beinlínis að eiga við um þær[9] sem Joan Scott segir að sé þó ekki náttúrulögmál.[10]  Samkvæmt kenningum Nira Yuval-Davis hafa þjóðernislegar hugmyndir um konur með móðurhlutverkið að gera, varðveislu menningararfsins og varðstöðu um þjóðlegt siðferði og hefðir. Sömuleiðis að konum hafi borið að styðja karlmenn í baráttu sinni en að ekki standa í henni sjálfar.[11] Þetta rímar við það sem franski kvennasögufræðingurinn Dominique Godineau hefur skrifað um konu lýðveldisins,  sem átti að hafa það örláta hlutverk að vera móðir sem skyldi að byltingu lokinni ala upp synina og viðhalda siðavendni þjóðarinnar.[12]  Fleiri skrif staðfesta þá skoðun og jafnframt að í kjölfar amerísku byltingarinnar hafi mótast skilningur á hver væri viðeigandi hegðun karla og kvenna, en hugmyndafræði lýðveldisins gerði ekki ráð fyrir breytingum á þessu hlutverki kvenna.[13] Bandaríski sagnfræðingurinn Betty Wood segir að borgaralegar skyldur konunnar hafi legið í því að hafa góð áhrif á eiginmann sinn og syni, henni bæri að sjá til þess að þeir yrðu vísir, dyggðugir, réttlátir og góðir menn.[14] Árið 1785 kom út bæklingurinn Women invited to war  eftir óþekktan höfund sem kallaði sig „Daughter of America", sem bergmálaði þetta.[15] Hin þekkta enska kvenréttindakona Mary Wollstonecraft spurði á móti hvernig nokkur gæti verið örlátur sem ekkert ætti sjálfur eða siðlegur án þess að vera frjáls.[16]

Í nútíma sagnfræði hafa menn séð að  hlutverk kvenna hafi verið að starfa innan einkasviðsins, en þær hafi lítið látið fyrir sér fara á því opinbera.[17]  Karlmennskan var fyrirferðarmeiri  á opinbera sviðinu og öðlaðist merkingu sína með því að vera andstaða þess kvenlega. Karl- og heiðursmennsku var stillt upp í Norður Ameríku sem andstæðum kvenlegra eiginda og jafnvel vansæmdar, sem skapaði ójöfn valdatengsl og -stöðu.[18]  Konur í nýlendunum vestanhafs munu almennt ekki hafa tekið opinberan þátt í pólítísku lífi á átjándu öld[19] en þær voru ötulir þátttakendur í ýmsum trúarhópum.[20]  Þó voru þær alls ekki áhugalausar um stjórnmál, þvert á móti.[21]  Hinir svokölluðu Sons of Liberty, sem var leynilegur andspyrnuhópur kaupmanna og menntamanna í nýlendunum, hvöttu konur þegar árið 1765 til að hætta að drekka innflutt te, og jafnvel til að búa sjálfar til fatnað og fleira sem ella væri keypt innflutt. Linda K. Kerber tekur undir þetta, að það hafi verið talið hlutverk kvenna að sniðganga innfluttar, breskar, vörur.[22] Þessu er Betty Wood sammála og segir að mikilvægi þessarar þátttöku kvenna hafi verið ljóst þeim karlmönnum sem börðust fyrir frelsi Ameríku.[23] Konur komu saman á heimilum sínum, þar sem þær drukku kaffi frekar en te, prjónuðu eða ófu og héldu þannig afskiptum sínum af byltingunni á einkasviðinu, litlu virtist skipta hvar í virðingarstiga þjóðfélagsins þær voru. Konur í Norður Ameríku munu að mestu leyti hafa unnið að hinu sameiginlega markmiði, einar eða í litlum hópum. Þegar vopnuð átök brutust loks út milli Ameríkumanna og Breta, sáu margar konur einar um rekstur sveitabýla og fyrirtækja bænda sinna meðan þeir börðust á vígvellinum.

Dominique Godineau heldur fram að þó allmargar konur hafi tjáð sig opinberlega um byltinguna hafi stuðningurinn við hana oftar verið með einstaklingsbundnari hætti; þær voru uppljóstrarar, hjúkrunarkonur, eldabuskur eða þvottakonur og margar keyptu svokölluð stríðsskuldabréf (e. War Bonds).[24] Þau viðskipti fóru ekki alltaf vel eins og frásögn gamallar konu sem hafði keypt slík bréf af New Jersey ríki sýnir, en hún fékk ekki greidda vexti af því á grundvelli þess að hún bjó ekki lengur í sama ríki þegar frelsisstríðinu lauk.[25]  Dominique Godineau fullyrðir að eina samvinnuverkefnið sem konur tóku að sér í byltingunni hafi verið peningasöfnun fyrir hermenn sem eiginkonur stjórnmálamanna í félagsskap nefndum Philadelphia Ladies Association, stóðu fyrir. Linda K. Kerber er ekki alveg á sama máli og nefnir nokkur atriði sem sýna að konur hafi sýnt hug sinn opinberlega gagnvart byltingunni, þar á meðal með þátttöku í mótmælum á götum úti.[26]  Hún segir einnig að byltingin hafi haft mikil áhrif á félagsleg tengsl eiginmanna og -kvenna, hún hafi breytt miklu um stigveldisskiptingu milli kynjanna. Sömuleiðis hafi mun meiri fjöldi kvenna verið á vígvöllunum sjálfum en ætlað hefur verið, að þær hafi reynt að koma að gagni hvar sem það var mögulegt. Að sögn Kerber fylgdu konurnar, sem oft voru bláfátækar,  iðulega hersveitum manna sem þær áttu í samböndum við, þó helstu forystumenn hersins væru  fremur andvígir því. Undir lok byltingarinnar munu konur tengdar hernum hafa verið orðnar ein á móti hverjum fimmtán karlmönnum.[27]  Til eru fjölmargar sögur af konum sem dulbjuggu sig sem karlmenn til að geta tekið þátt í bardögum, en ekki er rúm til að rekja þær hér.

III

Þó Abigail Adams, eiginkona Johns Adams sé sennilega ein frægasta kona byltingartímans í Norður Ameríku, var hún á þeim tíma aðeins þekkt í tiltölulega stórum en mjög lokuðum hópi. Hún skrifaðist reglulega á við mann sinn, var með gott pólítískt nef og var eldsnögg að átta sig á stöðu mála.[28]  Bréf hennar voru að mati Dominique Godineau stundum með femíniskum undirtóni, eins og þegar hún eitt sinn varaði mann sinn við því að gleyma konum Ameríku við setningu stjórnlaga, ella gæti þjóðin átt á hættu að standa frammi fyrir byltingu kvenna.[29] Það fylgdi ekki sögunni hvaða áhrif þessi skrif höfðu á manninn sem síðar varð annar forseti Bandaríkjanna, en kvenna og sérstakra réttinda þeirra er hvergi getið í stjórnarskránni, né viðbótum hennar frá 1789. Þar er aðeins fjallað um einstaklinga og almenning.  Giftar konur máttu ekki sjálfar eiga eignir og jafnvel þó mikil áhersla væri lögð á  jafnrétti og einstaklingsfrelsi þótti ekki hæfa að konur fengju kosningarétt, því það væri eins og að veita eiginmönnum þeirra rétt yfir tveimur  atkvæðum.[30] Betty Wood telur að þó byltingin hafi hvatt til endurmats á stöðu kvenna hafi engar stórkostlegar breytingar orðið á lífi þeirra fyrstu árin eftir hana.[31] Margir umbótamenn hvöttu konur til að mennta sig, fyrst og fremst til að geta alið börnin sín almennilega upp.[32] Þó ruddust fram á ritvöllinn konur eins og Judith Sargent Murray sem vildi sjá ungar konur skapa nýtt tímabil í sögu þeirra, hún vildi að konur menntuðu sig, sín vegna, en létu sér ekki nægja að bíða eftir draumaprinsinum og öryggi hjónasængurinnar.[33]

Þó amerískar konur hefðu ekki bein afskipti af stjórnmálafélögum fullnægðu þær félagsþörf sinni með stofnun ýmis konar líknarfélaga, sem oft voru tengd kirkjum og trúfélögum. Þar fengu konur tækifæri til að vinna margskonar góðverk, meðal annars til aðstoðar ekkjum og munaðarlausum, í mun meira mæli en áður hafði þekkst.   Þessi þátttaka kvenna í kirkjulegu starfi átti síðar eftir að hafa áhrif innkomu þeirra á svið stjórnmálaumræðunnar í Bandaríkjunum. Þar með hófu þær innreið sína á opinbera sviðið.  

Lokaorð

Á stuttum tíma breyttist staða Ameríkumanna úr því að vera þegnar bresku krúnunnar yfir í að vera borgarar hins nýja lýðveldis.  Hugtakið borgari hélst samt kynbundið um hríð, þó mögulegum borgararétti kvenna væri fagnað í aðra röndina var djúpstætt vantraust gegn honum á hinn bóginn.   Því er óhætt að fullyrða að þó að atburðirnir í Ameríku á seinni hluta 18. aldar séu svo sannarlega bylting sem margar konur tóku þátt í af heilum hug, breyttu þeir ekki miklu til skamms tíma fyrir þorra kvenna.  Fjölmargar konur komu við sögu byltingarinnar, opinberlega og á einkasviðinu, með skrifum, ræðuhöldum og mótmælagöngum. Aðrar létu sér nægja að sniðganga breskar vörur og kaupa stríðsskuldabréf meðan allnokkrar gengu hreinlega til liðs við byltingarherinn. Þegar friður komst á varð einfaldlega ekki pláss fyrir róstursama kvenmenn í lýðveldinu, þær konur sem höfðu haft sig í frammi á meðan óróinn varði urðu að hverfa aftur til þess að vera gjafmildar og siðavandar eiginkonur og mæður. Smám saman fikruðu amerískar konur sig inn á svið stjórnmálanna í gegnum trú- og líknarfélög ýmis konar en verkefni framtíðarinnar var að gera róttækari breytingar.


[1] Sheila Rowbotham, Hidden from History, bls. xvi.

[2] Duby og Perrot, „Writing the History of Women", bls.ix-x.

[3] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 179.

[4] Jack P. Greene, „The Preconditions of the American Revolution, bls. 48-49.

[5] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 214.

[6] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[7] Robert V. Wells, „Population and family in early America", bls. 40-48.

[8] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 421.

[9] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 423.

[10] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425.

[11] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 423.

[12] Dominique Godineau, „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 28-29.

[13] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 304.

[14] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 407.

[15] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 301.

[16] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 303.

[17] Sigríður Matthíasdóttir, „Hin svokallaða þjóð", bls. 424.

[18] Joan Wallach Scott, Gender and the Politics of History, bls. 425 og Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 302.

[19] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[20] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 22.

[21] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 403.

[22] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 298.

[23] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 405.

[24] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.

[25] Rachel Wells, „I have Don as much to Carrey on the Warr as maney ...", bls. 88-89.

[26] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 299-300.

[27] Linda K. Kerber, „The Revolution and Women´s Rights", bls. 296-297.

[28] Linda K. Kerber, „The Republican Mother",  bls. 91.

[29] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 23.

[30] Linda K. Kerber, „The Republican Mother", bls. 90.

[31] Betty Wood, „The impact of the Revolution on the role, status, and experience of women", bls. 399.

[32] Robert V. Wells, „Population and family in early America", bls. 50.

[33] Dominique Godineau , „Daughters of Liberty and Revolutionary Citizens", bls. 27.


Hvenær hófst kalda stríðið?

Síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 eftir að bandamenn unnu fullnaðarsigur á Þjóðverjum og Japönum. Áður en styrjöldinni lauk mátti sjá að veröldin var að breytast. Tvö ný stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin, urðu til. Eldri stórveldi Evrópu stóðu á brauðfótum eftir hildarleikinn mikla og veröldin skiptist skyndilega í tvennt milli ríkjanna sem áður höfðu barist við sameiginlega óvini. Gríðarlegar andstæður á auði, hugmyndafræði og stjórnarformi hinna nýju stórvelda hlutu að kalla á gerbreyttan heim. Enda fór svo að áratugina eftir síðari heimsstyrjöldina geisaði stríð milli stórveldanna, stríð sem átti engan sinn líka í veraldarsögunni því þau háðu ekki eina einustu orrustu sín á milli, þó þau vígbyggjust af kappi. Stríðsástand þetta hefur verið nefnt kalda stríðið. Sagnfræðingar hafa löngum reynt að greina upphaf og orsakir kalda stríðsins og eru hvergi nærri  sammála. Fræðimenn hafa leitað orsaka kalda stríðsins í áður nefndum andstæðum, einnig í valdatómarúminu sem myndaðist við ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni og í þeirri staðreynd að Bandaríkjamenn einir bjuggu í upphafi yfir stríðstólinu ógurlega, kjarnorkusprengjunni. Pólítísk deilumál tengd framtíð Þýskalands, Póllands og annarra ríkja Austur-Evrópu höfðu mikil áhrif á samskipti stórveldanna. Nokkrir lykilatburðir hafa einnig verið nefndir sem upphafspunktar kalda stríðsins, hver þeirra markar skref að því ástandi sem varði í veröldinni í hálfa öld. Er einn þeirra öðrum mikilvægari í að ákvarða hvenær kalda stríðið hófst?

TVÆR RÁÐSTEFNUR, YALTA OG POTSDAM

Skömmu áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk höfðu leiðtogar bandamanna, Winston Churchill forsætisráðherra Breta, Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna og Josep Stalín leiðtogi Sovétríkjanna, komið saman í Yalta-borg á Krímskaga, til að ákveða framtíð stríðshrjáðrar Evrópu. Fullyrða má að á ráðstefnunni hafi þjóðirnar ákveðið yfirráð hinna herteknu landsvæða, en sovéski herinn var þegar búinn að ná yfirráðum yfir stærstum hluta Austur-Evrópu. Það má velta fyrir sér hvort vantraust milli stórveldanna hafi ríkt fyrir ráðstefnuna eða hafi skapast strax í kjölfar hennar. Bandarískum embættismönnum varð seinna tíðrætt um brot Sovétmanna á samkomulagi því sem gert hafði verið í Yalta. Þeir töldu sig hafa haft vilyrði  fyrir því að lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir tækju við völdum í ríkjum Austur-Evrópu. Þrátt fyrir að hafa lofað viðsemjendum sínum að efna til kosninga í ríkjunum hafi Stalín alls ekki ætlað sér það, en þess í stað séð sér leik á borði að færa landamæri Sovétríkjanna mörg hundruð kílómetra til vesturs. Bandaríski sagnfræðingurinn John Lewis Gaddis, sem hefur rannsakað kalda stríðið gaumgæfilega, hefur haldið því fram að vegna samspils landfræðilegra og stjórnmálalegra andstæðna í hugmyndaheimi stórveldanna hafi þau þegar verið komin í hár saman fyrir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Núningur milli stórveldanna jókst jafnvel enn frekar eftir að Potsdam ráðstefnunni lauk í ágúst 1945, þar sem ekki tókst að ákvarða sameiginlega lausn á hernámsáætlun gagnvart sigruðu Þýskalandi, sem lyktaði með því að til urðu tvö þýsk ríki, Vestur- og Austur-Þýskaland.

Einn helsti kenningasmiður breska kommúnistaflokksins um árabil, blaðamaðurinn Palme Dutt hélt því fram að það hefðu verið rof Breta og Bandaríkjamanna á Yalta og Potsdam samningunum en ekki ímynduð stefnubreyting í pólitík Sovétríkjanna sem væru ástæða erfiðleika þeirra sem steðjuðu að eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Hann hélt því enda fram að samningar sem gerðir voru þar hafi markað þá leið sem yrði að fara „til þess að tryggja friðinn og lýðræðið." Ástæðurnar sagði hann vera þær að þau væru voldugustu auðvaldsríki veraldarinnar og að hernaðarlega væri Bretland orðið háð Bandaríkjunum. Dutt hélt því fram að útþenslustefna Bandaríkjanna væri fremur beint gegn breska heimsveldinu en Sovétríkjunum. Orð Dutts lýsa óneitanlega vel því andrúmi sem ríkti milli sigurvegara síðari heimsstyrjaldarinnar, nánast strax að henni lokinni.

LANGA SÍMSKEYTIÐ

220px-KennanUngur stjórnarendreki í bandaríska sendiráðinu í Moskvu, George F. Kennan að nafni, sendi átta þúsund orða símskeyti til utanríkisráðuneytisins bandaríska í febrúar árið 1946, þar sem hann greindi stefnu Kremlverja og hvernig Bandaríkjunum væri best að bregðast við henni. Hann spáði í raun fyrir um hvernig andstæðar fylkingar austur og vesturs myndu skipa sér á næstu árum. Í skeytinu hvatti Kennan til að útþenslustefnu Sovétríkjanna yrði haldið í skefjum með harðri og ákveðinni innilokunarstefnu (e. containment). Skeytið fjallar því  í meginatriðum um utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar og hvaða áhrif hún gæti haft að lokinni styrjöldinni. Kennan reyndi einnig að kafa í utanríkisstefnu Sovétríkjanna.

John L. Gaddis sagði að Stalín hefði fljótlega komist á snoðir um skrif Kennans og beðið sendiherra Sovétríkjanna í Washington um  sambærilegt skeyti. Það fékk Sovétleiðtoginn og sagði Gaddis að það hafi endurspeglað skoðanir Stalín sjálfs um að Bandaríkin væru kapítalískt ríki sem stefndi að heimsyfirráðum og væri jafnframt að auka herstyrk sinn svo um munaði. Gaddis hélt því fram að vitneskja Stalíns um skeyti Kennans hafi orðið til þess að hann tók á móti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Moskvu í apríl 1947 og fullvissaði ráðherrann um að þó illa gengi að leysa málefni stríðshrjáðrar Evrópu væri það ekkert stórmál, ekkert lægi á. Gaddis fullyrti að það hefði langt í frá róað ráðherrann.

Kennan sagði sjálfur árið 1947 að Bandaríkin gætu ekki búist við friðsamlegri sambúð við Sovétríkin í fyrirsjáanlegri framtíð enda væri það stefna Kremlverja að brjóta smám saman niður og veikja andstæðing sinn. Hann hélt því fram að á móti kæmi að Sovétríkin væru mun veikbyggðari en Bandaríkin og að leiðin til sigurs á kommúnismanum væri að þrauka, vera staðfastir í trúnni á eigin gildi og verðleika og þannig þreyta Moskvuvaldið uns það gæfist upp og aðlagaði sig að vestrænum gildum. Sagnfræðingnum Anders Stephanson hefur fundist greining Kennans ófullnægjandi, fyrst og fremst því að Kennan hefði aldrei kannað mikilvægi hugmyndafræðilegrar stefnu Sovétríkjanna og hafi því frekar verið að réttlæta aðgerðir gegn þeim en reyna að spá raunverulega fyrir um hegðun þeirra í framtíðinni. Stephanson benti einnig á að Kennan hafi fljótlega fallið frá innilokunarstefnunni en það hafi verið orðið um seinan strax árið 1948.

TRUMAN-KENNINGIN OG MARSHALL-AÐSTOÐIN

220px-Harry-trumanEftir lok síðari heimsstyrjaldar virðast Bandaríkjamenn hafa haft skilning á að Sovétmenn þyrftu að eiga vinveitta nágranna. Bandaríski sagnfræðingurinn Thomas A. Bailey hélt því fram þegar árið 1950 að útþenslustefna Sovétríkjanna strax eftir seinna stríð hafi orðið til þess að Bandaríkjamenn og Bretar töldu sig þurfa að bregða skjótt við. Hann sagði að yfirvöldum í Bandaríkjunum hafi þótt mikill munur á að halda góðu samkomulagi við nágrannaríki sín eða að ráða algerlega yfir þeim. Svo er að sjá að Bailey hafi talið að bandarísk stjórnvöld hafi óttast að í kjölfar styrjaldarinnar gæti hugmyndafræði sovétsins, kommúnisminn flætt nánast óstöðvandi yfir Evrópu. Hálfu öðru ári eftir sameiginlegan sigur bandamanna á Þjóðverjum lagði Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna fram kenningu sína sem gekk í meginatriðum út á nauðsyn þess að halda kommúnismanum í skefjum hvar sem hann seildist til áhrifa. 

Þarna boðaði Bandaríkjaforseti nýja utanríkisstefnu. Sagnfræðingar eru ekki á einu máli hvort hún snerist um að vernda hagsmuni Bandaríkjanna gegn raunverulegri eða ímyndaðri ógn af hálfu Sovétríkjanna eða hvort hér var á ferðinni stefna sem ætluð var til að hafa bein afskipti af innanríkismálum annarra þjóða í þeim tilgangi að hafa hemil á kommúnismanum.  Dennis Merrill sagnfræðingur sagði að Truman kenningin hafi komið fram á þeim tímapunkti þegar leiðtogar Bandaríkjanna voru teknir að átta sig á því að utanríkisstefna þeirra gæti haft áhrif á aðra menningarheima, enda óttuðust þeir að pólítískar væringar í fjarlægum löndum gætu haft gríðarleg áhrif, ekki aðeins á Bandaríkin heldur siðmenninguna alla. Truman sagði að sérhver þjóð yrði að velja milli tvenns konar lífshátta sem annars vegar byggjast „á vilja meirihlutans, og birtist í mynd frjálsra stofnana, fulltrúaþingsstjórnar, frjálsra kosninga, öryggis fyrir frelsi einstaklingsins ... hinn byggist á vilja minnihlutans, sem er troðið upp á meirihlutann. Sá styðst við ofbeldi og kúgun ... fyrirfram ákveðnar kosningar og undirokun réttinda einstaklingsins." Grundvallarástæða Bandaríkjamanna fyrir að veita Tyrklandi og Grikklandi fjárhagsaðstoð var ótti við að kommúnistar næðu völdum í löndunum.  Haldið hefur verið fram að eftir að Truman-kenningin kom fram hafi stjórn Stalíns ákveðið að loka Austur-Evrópu. Thomas Bailey lýsti ástandinu þannig að Grikkland og Tyrkland væru smáir fletir í varnarlínunni gegn útþenslu kommúnismans og að eitthvað enn áhrifameira yrði að gera til að verjast falli lýðræðisaflanna í veröldinni.

Marshall utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í júní 1947 að til stæði að halda áfram efnahagsendurreisn ríkja Evrópu en hvatti þau jafnframt til sjálfsþurftar. Ráðamenn í Sovétríkjunum urðu þegar mjög tortryggnir og höfnuðu þátttöku í ráðstefnu sem halda átti um samningu áætlunar til endurskipulagningar Evrópu. Hið sama gerðu nágrannaríki þeirra, enda fór svo að ekkert ríki sem talist gat til Austur-Evrópu tók þátt í ráðstefnunni sem haldin var í júlí 1947.

Viðbrögð Sovétmanna lýsa því vel hvernig andrúmsloft vantrausts varð æ meira áberandi eftir því sem fram liðu stundir. Markalínur stórveldanna urðu sífellt greinilegri. Geir Hallgrímsson síðar borgarstjóri og forsætisráðherra skrifaði í tímarit sjálfstæðismanna, Stefni, árið 1950 að samtök Vestur-Evrópuríkjanna í Marshall aðstoðinni hafi „í bili í það minnsta stöðvað útþennslu kommúnista í vesturveg."  Þessi orð geta bent til þess skilnings að hugmyndin að baki Marshall aðstoðinni hafi verið að stöðva útrás Sovétríkjanna til vesturs. Adlai Stevenson sem var sendifulltrúi Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu Þjóðanna 1962 hélt  því reyndar fram að Sovétríkin hafi tekið til við útþenslu sína umsvifalaust og ljóst var  að Þjóðverjar væru að bíða ósigur í styrjöldinni. Við það væru „þær þjóðir sem vildu verja frelsi sitt ... neyddar til að grípa til varnaraðgerða." Það bendir sterklega til að grundvöllur kalda stríðsins hafi verið lagður all nokkru áður en  síðari heimsstyrjöldinni lauk.

KJARNORKUSPRENGJAN

Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima 6. ágúst 1945 sem sýndi glögglega fram á  hernaðarlega yfirburði þeirra í veröldinni. Það breyttist þó í júlí fjórum árum síðar þegar kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup stórveldanna hófst við að Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju. Þrátt fyrir að stórveldin kepptust um að framleiða æ ógnvænlegri vopn hélt breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm því fram að sérstaða kalda stríðsins hafi einmitt verið sú að með því að viðhalda valdajafnvægi milli stórveldanna hafi ekki verið yfirvofandi hætta á heimsstyrjöld. Það stangast á við minningar þeirra sem lifðu þessa tíma þegar þeim fannst sú hætta æ vofa yfir, raunveruleg eða óraunveruleg, að heimsendir gæti skollið á fyrirvaralaust. Hobsbawn hélt því fram að bæði stórveldin hefðu fallið frá því að stríð væri liður í stefnu þeirra hvors gegn öðru, enda jafngilti það sjálfsmorðsyfirlýsingu af beggja hálfu. Tilvist kjarnorkusprengjunnar telur Hobsbawn að hafi aukið á vantraustið milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna enda mun  Stalín hafa látið njósna um kjarnorkutilraunir bandamanna sinna  í heimsstyrjöldinni. John L. Gaddis nefnir það sem dæmi um vantraustið sem ríkti milli þessara ríkja þrátt fyrir að þau væru að heygja stríð gegn sameiginlegum óvinum. Hið sama gilti að sjálfsögðu um að halda Sovétleiðtoganum óupplýstum um hið hræðilega nýja vopn. Stalín fannst, að sögn Gaddis, að ítökin sem ríkin ættu að fá að lokinni heimsstyrjöldinni ættu að vera í samræmi við hve miklu blóði þær hefðu þurft að úthella, þetta nýja vopn mun hafa ýtt enn frekar undir þá skoðun hans.

Þrátt fyrir að Sovétmenn lýstu yfir stríði á hendur Japönum tveimur dögum eftir kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna hefur því verið haldið fram að Bandaríkjamenn hafi viljað halda Sovétríkjunum utan við stríðið í Japan. Til að tryggja það hafi þeir flýtt því sem verða mátti að varpa kjarnorkusprengjum á tvær þarlendar borgir. Eins hefur sú skoðun komið fram að kjarnorkuárásirnar hafi komið Stalín og hans mönnum í Kreml í varnarstöðu gagnvart Bandaríkjunum, þó ekki hafi dregið úr samstarfsvilja þeirra, samstarfið yrði aðeins að vera á forsendum Kremlverja sjálfra. Thomas Bailey sagðist aftur á móti telja víst að Sovétmenn hafi vitað að árásirnar voru fyrirhugaðar og að fögnuður Bandaríkjamanna yfir því að Stalín hafi loks ákveðið að lýsa yfir stríði gegn Japönum hafi hratt breyst í mikla óánægju, fyrst og fremst vegna þess að þeir gáfust fljótlega upp og hins vegar þegar upp komst að Kremlverjar eignuðu sér sigurinn heimafyrir. Til að bæta gráu ofan á svart fannst bandarísku þjóðinni að Roosevelt Bandaríkjaforseti hafi þurft að greiða of hátt verð fyrir þátttöku Stalíns í  stríði sem hann hefði engan veginn viljað láta fram hjá sér fara. Bailey þótti reyndar þjóðin fulldómhörð gagnvart Stalín, hann hafi verið í góðri samningsstöðu gagnvart Bandaríkjamönnum. Óneitanlega taldi Bailey þó að þessi framkoma hafi leitt til enn frekara vantrausts bandarísku þjóðarinnar gagnvart Sovétríkjunum.

Það er skoðun Johns L. Gaddis að Truman Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans hafi talið, að tilvist og notkun kjarnorkusprengjunnar myndi mýkja afstöðu Stalíns varðandi stöðu Sovétríkjanna í uppbyggingunni eftir stríð en þess í stað reyndi Sovétleiðtoginn af enn meiri hörku að ná fram stefnumiðum sínum. Með því gæti hann fyrst og fremst tryggt stöðu Sovétríkjanna. Vantraustið stigmagnaðist milli Breta og Bandaríkjamanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar, talsverðu áður en heimsstyrjöldinni lauk. Gaddis þykir, líkt og öðrum, erfitt að fullyrða nákvæmlega hvenær kalda stríðið hófst, enda voru ekki gerðar neinar árásir, ekki var lýst yfir nýju stríði né var skorið á diplómatísk tengsl. Það sem gerðist var að óöryggi æðstu ráðamanna þessara ríkja jókst sífellt meðan þau reyndu að tryggja innbyrðis stöðu sína í kjölfar ófriðarins. Niðurstaðan varð sú að Evrópa, og í raun veröldin öll skiptist nánast í tvennt, aðskilin með „járntjaldi" milli austurs og vesturs.

Viðbrögð Palme Dutt lýsa andrúmsloftinu vel. Hann fullyrti að kjarnorkusprengjan og einokun vesturveldanna á henni, hafi breytt valdahlutföllum heimsins, skapað möguleika á endurlífgun ráðagerða um bresk-bandarísk heimsyfirráð og hefði kippt „grundvellinum undan samvinnu og gagnkvæmu trausti, og henni fylgdi ný allsherjar áróðursherferð gegn Sovétríkjunum."

RÆÐA CHURCHILLS

churchillÍ mars árið 1946 flutti Winston Churchill ræðu í Westminster háskólanum í Fulton í Missouri-fylki í Bandaríkjunum þar sem hann notaði hugtakið „járntjald" til að lýsa áhrifaskiptingu veraldarinnar milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Almenningur leit sennilega enn á Sovétmenn sem vini og vopnabræður sem hefðu af ósérhlífni barist við hlið vesturveldanna gegn yfirgangi nazismans og japanska keisaraveldisins. Því þótti það bera vott um óþarfa stríðsæsingatal þegar Churchill sagði:

Annarsstaðar en í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem kommúnismans gætir lítið, eru kommúnistaflokkar landanna, eða fimmta herdeildin, vaxandi ógnun og hætta allri kristilegri menningu. Þetta eru sorglegar staðreyndir og vér sýndum mikla fávísi, ef vér gerðum oss ekki fulla grein fyrir þeim meðan tími er til.

Enn er áhugavert að líta til hvað Palme Dutt hafði að segja. Hann rifjaði upp spádóm Jósefs Göbbels, áróðursmálaráðherra nazista sem hafði í einni af hinstu ræðum sínum fullyrt að Evrópu og Þýskalandi yrði skipt upp í bresk-amerísk og sovésk yfirráðasvæði, sem myndi leiða til árekstra milli stórveldanna. Í þeirri ræðu notaði Göbbels hugtakið „járntjald" til að lýsa hulunni sem Sovétríkin myndi breiða yfir skipulagningu sína á Austur-Evrópu.  Dutt hélt því fram að í ræðu sinni hefði Churchill í raun verið að reyna að blása til ófriðar gegn Sovétríkjunum, nánast að hvetja til þriðju heimsstyrjaldarinnar.  Hann  hvatti til að Bretland horfði til lýðræðislegra utanríkisstjórnmála og fullyrti að breska þjóðin óskaði eftir vináttu við Sovétríkin en ekki við  „fimmtu herdeild" bandarísks auðvalds..  Á margan hátt er hægt að fullyrða að Churchill hafi haft rétt fyrir sér, enda reis járntjaldið svokallaða nánast eftir sömu markalínum og stórveldin höfðu ákvarðað á Yalta ráðstefnunni rúmu ári fyrr.

BARNIÐ FÆR NAFN

Það er í mannlegu eðli að gefa því sem ber fyrir í lífinu heiti. Við það öðlast það ákveðinn raunveruleika, sess og sæti. Það er nokkur óvissa um hver hafi fyrst notað hugtakið kalda stríðið yfir þá spennu sem ríkti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fyrir lok og í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Vitað er að breski rithöfundurinn George Orwell notaði það tvisvar, innan gæsalappa, fyrst í dagblaðinu Tribune í október 1945 og svo í The Observer hálfu ári síðar. Viðskiptajöfurinn og stjórnmálaráðgjafinn Bernard Baruch mun hafa sagt í ræðu sem hann hélt í apríl 1947 að Bandaríkin væru komin í kalt stríð og Walter Lippmann, blaðamaður, rithöfundur og stjórnmálaskýrandi, notaði hugtakið í samnefndri bók árið 1947.

Ástandið sem litaði heimsmálin um fimmtíu ára skeið var komið með nafn, og því var hægt að tala um það, reyna að útskýra það og átta sig á orsökum þess og afleiðingum.

NIÐURLAG

the-berlin-wall-separating-west-berlin-and-east-berlin-five-years-after-being-built-1966Ekki er mögulegt að benda á eina ákveðna dagsetningu og halda því fram að þann dag hafi kalda stríðið skollið á. Sumir sagnfræðingar og aðrir fræðimenn hafa miðað við árið 1945 en þá kom  mismunandi stefna stórveldanna varðandi Austur-Evrópu upp á yfirborðið og vantraustið milli þeirra varð nánast áþreifanlegt. Upphaf óstöðugleika í samskiptum austurs og vesturs má óhikað rekja til aðstæðna og atburða sem gerðust áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk. Frumkvæði Bandaríkjamanna í smíði kjarnavopna, gagnkvæmar njósnir stórveldanna og ásakanir um brot á samningum á báða bóga urðu til að kynda hið ískalda ófriðarbál. Vantraustið stigmagnaðist mánuðina og árin eftir stríðslok og óhætt er að fullyrða að kalda stríðið hafi verið tekið að geysa fyrir árslok 1947, eftir að Truman-kenningin var lögð fram og Marshallaðstoðin hófst. Niðurstaðan er því  sú að upphaf kalda stríðsins megi fyrst og fremst rekja til atburða sem gerðust á árabilinu frá 1945 til 1947.

Kalda stríðið fékk að lokum nafn og varð þar með samtvinnað raunveruleika veraldarinnar í fimm áratugi.


Ríkisvald

Manneskjan er félagsvera sem frá örófi alda hefur búið í samfélagi við aðrar verur sömu tegundar. Samfélögin hafa verið misjöfn og margvísleg en hafa reynt að finna hina bestu leið sem völ er á til að sambúð fólksins verði sem þolanlegust. Frá sjónarhóli nútímamannsins hafa sumar þeirra tilrauna ekki verið ýkja skynsamlegar né sérstaklega hagkvæmar stærstum hluta þess fólks sem samfélögin hafa byggt. Smám saman hafa orðið til stofnanir innan samfélaga manna, sumar hafa orðið tímans tönn að bráð og horfið meðan aðrar hafa vaxið og dafnað.

louis_xiv.jpgEin þeirra stofnana, þó huglæg sé, sem hafa gríðarleg áhrif á tilvist fólks er ríkið og ekki síður það vald sem því er búið, oft nefnt ríkisvald. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan einvaldskonungur einn í Evrópu á að hafa fullyrt hiklaust að hann sjálfur væri ríkið. Sjálfbirgingslegum konungi sem taldi sig fá valdið rakleiðis frá Guði var í þann tíð óhætt að tala þannig, en fljótlega eftir daga þessa konungs, og jafnvel meðan hann lifði, tók efasemda að gæta um að valdið kæmi frá himnaföðurnum sem fulltrúi hans á jörð sæi um að útdeila af visku sinni. Hugmyndir tóku að kvikna um að lýðurinn, fólkið sem skyldi háma í sig kökur vegna skorts á brauði, væri raunveruleg uppspretta valdsins. Hugsuðir víða um Evrópu settu fram hugmyndir um ríkið, valdið og tengsl hvors tveggja við almúgann. Síðan hafa liðið allmörg ár og aldir og nú virðist ríkja almenn samstaða um það að ríkið þiggi vald sitt frá almenningi, þegnum eða borgurum þess. En er það raunverulega svo? Þegar spurningunni um hvað ríki eða ríkisvaldið sé virðist aðspurðum oft vefjast tunga um tönn. Ríkið er bara þarna, hefur sína tilvist og hefur að margra mati alltaf verið til.

Hvað er ríkisvaldið, hver er uppspretta þess og hlutverk? Er tilvist ríkis og ríkisvalds algerlega óumflýjanleg? Þessum spurningum hyggst ég reyna að svara á næstu síðum.

I

Páll Skúlason, heimspekingur, hefur staðhæft að ríkisvald sé í sjálfu sér alræðislegt en hefur jafnframt, kannski til huggunar, bent á að lýðræði, það að fólk ráði sjálft sínum málum, sé leiðin til að komast hjá alræðinu. Til þess að það sé raunverulega mögulegt telur Páll þó nauðsynlegt að fólk sé vel upplýst.[1]

            Á sautjándu öld benti enski heimspekingurinn Thomas Hobbes á það að náttúrulegt ástand stjórnarfars væri í raun óþolandi, því það væri eins og viðvarandi stríðsástand þar sem allir berðust gegn öllum. Hann hvatti til samvinnu byggðri á trausti um að hver og einn stæði við það sem af honum væri ætlast. Með slíku trausti taldi Hobbes að skapaðist tryggt samfélag sem væri hagkvæmara en hið náttúrulega. Til þess að þetta gengi eftir lagði Hobbes mikla áherslu að gerður yrði samfélagssáttmáli; ríki yrði stofnuð og settar á fót ríkisstjórnir, sem ásamt öðrum stofnunum samfélagsins tryggði tiltekið öryggi fólks í millum og gagnvart utanaðkomandi árásum.[2]

john_locke_mynd_png.jpgEnski raunhyggjumaðurinn John Locke gaf út hina síðari ritgerð sína um ríkisvald árið 1698 þar sem hann lagði fram stjórnspekikenningu sem byggðist á hugmyndum um náttúrurétt og samfélagssáttmála. Á hans tíma hafði konungsvald verið að eflast mjög í Vestur-Evrópu. Að mati Johns Locke byggist ríkisvald á rétti til að setja lög og leggja refsingar við brotum á þeim.  Tilgangurinn er að hafa reglu á eignum manna og sjá þeim borgið. Afl samfélagsins, telur Locke, að rétt sé að beita til að framfylgja lögum og og til að verja ríkið fyrir utanaðkomandi árásum, í þágu almannaheillar.[3] Þarna er Locke fyrst og fremst að koma á framfæri hugmyndum sínum um hvernig ríkisvaldið skuli hegða sér og um rétt almennings til að gera uppreisn gegn kúgun og harðstjórn ríkisstjórnar sem ekki fer eftir þeim reglum sem henni hafa verið settar. Jean-Jacques Rousseau, fransk-svissneskur heimspekingur, ritaði samfélagssáttmála sinn sem kom fyrst út árið 1762 og vildi vísa mönnum veginn til æðra frelsis, sem byggjast átti á réttlátum lögum og stjórnskipun. Að mati Rousseaus átti almannaviljinn að vera æðsta vald samfélagsins, en hann hafði samtímis ofurtrú á skynsemi manna.[4] Ríkið ætti því að stjórnast af þessu birtingarformi hins góða í manninum, almannaviljanum.

Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins byggir á kenningum franska heimspekingsins Charles-Louis de Secondat Montesquieus sem hann aftur vann út frá hugmyndum Lockes. Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætisráðherra og lögspekingur, sagði þrískiptinguna í löggjafar- framkvæmda- og dómsvald vera grundvallarreglu stjórnskipunar, einkum í þeim ríkjum sem hann taldi vera „lýðfrjáls". Tilvist þessara handhafa ríkisvaldsins taldi Ólafur semsé að hvíldi á þeirri grundvallarreglu að lýðræði ríkti, og að mati Ólafs er löggjafarvaldið frumstofn ríkisvaldsins.[5] Í lýðræðisríkjum er gert ráð fyrir að valdið komi frá almenningi sem kýs fulltrúa sína sem sjá eiga um að gæta og framfylgja valdinu.  Miðstýring jókst og efldist í Vestur-Evrópu á 16. og 17. öld, þegar konungsvald styrktist og til urðu fullvalda ríki og ríkisvald í nútíma skilningi. Nítjánda öldin og fyrstu áratugir þeirra tuttugustu mörkuðu allmiklar breytingar í samskiptum ríkisvaldsins við almenning í ríkjum Evrópu. Einveldi liðu smám saman undir lok og lýðræðisþróun var mikil. Á sama tíma jukust möguleikar ríkisvaldsins á að beita áhrifum sínum til ystu endimarka ríkjanna.[6]

Á Bretlandi hófst þróun sem tók langan tíma, konungsvaldið takmarkaðist og kjörið þing tók við þeim völdum sem konungur áður hafði haft. Til varð fyrirbærið þingræði sem felur í sér að ríkisstjórn, sem er þá eftir orðanna hljóðan það fyrirbæri sem stjórnar ríkinu, hefur ríkisvaldið, verður að njóta stuðnings meirihluta þingsins.[7] Þingræðið er hugsanlega einhvers konar farvegur til að beisla almannaviljann sem Rousseau virtist hafa ofurtrú á.

Þess ber að sjálfsögðu að geta að hugsuðir eins og Tómas Aquinas og Georg Friedrich Hegel töldu ríkið af náttúrulegum meiði, að samfélag án ríkis væri óhugsandi og útilokað. 

II

Ef við göngum út frá hugmyndum Lockes, Montesquieus og Rousseau um skynsamlegt, þrískipt ríkisvald sem sér um að hafa reglu á samfélaginu, má greina einhvers konar afl sem hefur almannaheill í þess orðs víðustu merkingu að leiðarljósi. Enda er það svo í nútímalýðræðisríkjum að til hefur orðið kerfi stofnana sem settar hafa verið á fót til að tryggja heill almennings, og samtímis jafnvel til að framfylgja almannaviljanum. Samkvæmt kenningu Lockes hefur ríkið rétt til að verja sig fyrir utanaðkomandi árásum, sem þýðir að því er  afmarkað ákveðið landsvæði. Hvort tveggja á einmitt við um nútímaríki, þau eru landfræðilega afmörkuð og hafa rétt til að verja sig, inn- og út á við.  Það ríki sem hefur getu og úrræði til að halda uppi eigin vörnum telst sömuleiðis vera fullvalda.

weber.jpgHér má horfa til þýska félagsvísindamannsins Max Weber sem hefur haldið því fram að ríki hafi einokun á lögmætri valdbeitingu á afmörkuðu landsvæði sínu, og notar lagasetningarvald sitt til að setja þær reglur sem því og fólkinu ber að fara eftir. Með þessu er þó gert ráð fyrir að valdinu sem fulltrúum fólksins er fólgið sé ætíð beitt af skynsemi og góðvilja. Að mati Webers hafði hugtakið ríki þó ekki náð fullum þroska fyrr en í nútímanum, enda hafði það vaxið og þroskast í tímans rás.[8] Félagsfræðingurinn Michael Mann hefur haldið því fram að vald ríkisins sé nú orðið gríðarlegt. Hann hefur líka greint hversu voldugt ríkisvaldið er eftir mismunandi gerðum ríkja, þar sem greinilegt er að lénskerfi er lang valdaminnst og mesta valdið hvílir hjá valdboðsríkjum, eða í einræði.[9]

            Ef við gerum ráð fyrir að ríkisvaldið þurfi að vera byggt á upplýsingu og almannavilja, má ætla að það ríkisvald sem hentar best sé það sem almenningur verður minnst var við. Í nútímaríki eru það embættismenn ríkisins sem hafa einir rétt til að beita valdi þess. Slíkt gæti auðveldlega valdið kvíða. Er tilvist ríkisins og einkaréttar þess á valdbeitingu algerlega nauðsynleg og óumflýjanleg? Anthony De Jasay, ungversk ættaður hagfræðingur og heimspekingur, mikill andstæðingur ríkisafskipta hefur til dæmis velt upp þeirri hugmynd hvort það tæki því að finna upp ríkisvaldið væri það ekki til. Hann fullyrðir að ríki séu á grundvelli uppruna síns, einhvers konar óhapp sem samfélagið hafi þurft að laga sig að, og að almenningur hafi ímyndað sér að hann þyrfti á ríkisvaldinu að halda. Jasay virðist ekki telja útilokað að ríkið  gæti notað einokun sína á að beita afli gegn þeim sem það fær afl sitt frá; almenningi, sem í raun er algerlega á valdi ríkisvaldsins. Svo er að sjá að honum finnist það ekki áhættunnar virði.[10]  Sennilega eru ekki allir sammála þessu mati Jasays, en ríkisvaldið hefur þó þanist mikið út, undanfarna áratugi, og með því hefur fjölgað lögum sem snúa beinlínis að rekstri ríkisins og stofnana þess, en eru ekki eingöngu með það að markmiði að auka vellíðan og réttindi almennings og að bæta samskipti þeirra innbyrðis. Að mati fræðimanna á borð við ítalska lög- og félagsfræðinginn Gianfranco Poggi er eitt helsta einkenni nútímaríkisins er mikil stofnanavæðing, enda er óhætt að fullyrða að það lætur fáa þætti mannlegs lífs óáreitta.[11] Það þarf ekki að líta lengi í kringum sig í íslensku samfélagi nútímans til að komast á snoðir um það.

Hluti af valdboði ríkisins nær til þess að útilokað sé fyrir íbúa þess að segja sig úr lögum við það; hvort sem mönnum líkar betur eða verr neyðast þeir til að tilheyra tilteknu samfélagi. Páll Skúlason segir beitingu alls valds ætíð vera vandasama, valdbeiting fulltrúa ríkisvaldsins á að hans mati að vera í þágu almennings.[12] Hann slær þó þann varnagla að ríkisvaldið sé alræðislegt í sjálfu sér, og er sama sinnis og Jasay að ekki sé til örugg trygging fyrir því að það misbeiti ekki afli sínu. Þó telur hann að öflugt dómsvald og réttarvitund borgaranna geti farið næst því að tryggja að ríkisvaldið haldi sig á mottunni.[13]  Tilgangur laganna, frumstofns ríkisvaldsins, var að mati Lockes einmitt að vernda og auka frelsi en ekki að takmarka það eða afnema; að tryggja réttlæti í samskiptum þegnanna innbyrðis og gagnvart ríkisvaldinu.[14]

Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur, kemst að svipaðri niðurstöðu þegar hann segir að nútímaríki geti ekki beygt þegna sína nauðuga undir vald sitt til lengri tíma.[15]  Niðurstaðan verður því ætíð sú sama að fulltrúar ríkisvaldins mega ekki misbeita afli þess, því þá glatar ríkið trausti almennings sem er uppspretta valdsins. Gera má sér í hugarlund að  geri ríkisvaldið tilraun til kúgunar muni þeir sem valdið stafar frá brjótast undan henni og endurheimta vald sitt. Að mati marxista eru lögregla og her meginverkfæri ríkisvaldsins enda tilheyri það ráðandi yfirstétt.

III

nietzsche187c.jpgFriedrich Nietzche notaði líkingamál um ríkið eins og svo margt annað, hann kallaði það köldustu ófreskju í heimi sem gleypti fjöldann, tyggði hann og jórtraði á honum.[16] Í gegnum þessa andstyggilegu lýsingu heimspekingins þýska mætti sjá glitta í nútímaríkið sem sífellt þarf að glefsa í almúgann, ríkið seilist alltaf dýpra í vasa borgaranna til að fjármagna æ dýrari starfsemi sína; ríkið hefur einkarétt á að skattleggja þegna sína, hefur algert leyfi til að taka fé hans án þess að upplýsa endilega að fullu fyrir hvað er verið að greiða. Þetta stunda handhafar valds nútímaríkisins að sögn til að efla innviði þess og viðhalda vexti, ásamt því að yfirlýstur tilgangur skattheimtunnar er að geta haldið uppi lögum og reglu í samfélaginu.  Gera má ráð fyrir að hluti af skatttekjum ríkisins fari það mikilvæga verkefni að jafna lífsgæði milli fjarlægra svæða ríkisins og til að jafna hlut ólíkra hópa innan þess.

 

 

NIÐURLAG

Nútímaríkið nær yfir landfræðilega afmarkað svæði og inniheldur flókið kerfi margvíslegra stofnana með ólík hlutverk. Ríkið hefur orðið til eftir langa þróun í gegnum einhvers konar samfélagssáttmála, þar sem almenningur færir fulltrúum sínum umboð til að annast hlutverk þau sem ríkinu ber að sinna. Valdi þess hefur þótt réttast að skipta í þrennt, löggjafarvald, sem margir fræðimenn telja það allra mikilvægasta, framkvæmdavald og síðast en ekki síst dómsvald.  Ríkinu ber að stjórnast af almannavilja, sem að mati hugmyndasmiða á borð við Locke, á að vera birtingarmynd hins góða í manninum. Helstu hlutverkin sem fólkið færir ríkisvaldinu eru að viðhalda innri friði og jafnframt þarf það að vera tilbúið að bregðast við utanaðkomandi ógn eða árás. Sömuleiðis færir almenningur ríkisvaldinu einkarétt til að setja lög og reglur og með þeim rétti fylgir réttur þess til beitingar valds, sem verður ætíð að vera í þágu almennings. Bregðist það mega, og jafnvel eiga, íbúar ríkisins að losa sig við valdhafa sem misbeita valdi sínu. Með skattheimtu, sem ríkið hefur sömuleiðis einkarétt á, ber því að tryggja að lífsgæðum sé jafnt skipt milli allra og að innviðir séu tryggir. Á liðinni öld óx ríkið og vald þess mjög og það tók að skipta sér af æ fleiri þáttum mannlegrar tilvistar.

Ýmsir hugsuðir og fræðimenn hafa talið ríkið náttúrulegt fyrirbæri og aðrir hafa fullyrt að það sé ónauðsynlegt og jafnvel hættulegt, alræðislegt í eðli sínu. Til að halda aftur af ógnareðli ríkisins hafa fræðimenn komist að þeirri niðurstöðu að mikil réttarvitund fólks og öflugt dómsvald þurfi að vera fyrir hendi.

Að öllu framangreindu metnu þykir mér óhætt að  komast að þeirri niðurstöðu að ríki og ríkisvald í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, séu ill nauðsyn sem umbera þurfi, meðan við hvorki höfum né þekkjum annað betra.


[1] Páll Skúlason, „Réttlæti, velferð og lýðræði. Hlutverk siðfræðinnar í stjórnmálum", Pælingar II (Reykjavík 1989), bls. 71-74.

[2] James Rachels, Stefnur og straumar í siðfræði (Reykjavík 1997), bls. 186-188.

[3] John Locke, Ritgerð um ríkisvald, íslenzk þýðing eftir Atla Harðarson (Reykjavík 1986), bls. 45.

[4] Atli Harðarson, „Neyddur til að vera frjáls", Afarkostir. Greinasafn um heimspeki (Reykjavík 1995), bls. 95.

[5] Ólafur Jóhannesson, Lög og réttur. Þættir um íslenska réttarskipan (Reykjavík 1985), bls. 35.

[6] Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk (Reykjavík 2001), bls. 113.

[7] Stefanía Óskarsdóttir, „Þingræði verður til", Þingræði á Íslandi, samtíð og saga, Ritstjórn Ragnhildur Helgadóttir og fleiri (Reykjavík 2011), bls. 39.

[8] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls. 114-115.

[9] Michael Mann, „The Autonomous Power of the State", States in History, ritstjóri John A. Hall (Oxford 1989) bls. 114.

[10] Anthony De Jasay, The State (Indianapolis 1998), bls. 35-38.

[11] Gianfranco Poggi, „The Formation of the Modern State and the Institutionalization of Rule", Handbook  of Historical Sociology (London 2003) Gerard Delanty og Engin F. Isin (ritstjórar), bls. 253.

[12] „Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 66.

[13] „Réttlæti, velferð og lýðræði", bls. 71.

[14] Ritgerð um ríkisvald, bls. 93.

[15] Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk, bls.129.

[16] Friedrich Nietzche, Svo mælti Zaraþústra. Bók fyrir alla og engan. Íslensk þýðing eftir Jón Árna Jónsson (Reykjavik 1996), bls. 72-73.


Vopnaskak eða viðskipti? Ástæður stefnubreytingar vinstri stjórnarinnar 1956-1958 í varnarmálum

Ungverjaland 1956Það geisaði stríð, kalt stríð, en samt var varla hægt að kalla þetta stríð. Íslensk stjórnvöld höfðu talið skynsamlegt vegna stöðu heimsmála að taka þátt í varnarbandalagi vestrænna þjóða, Nató, frá stofnun þess árið 1949 og höfðu gert varnarsamning við Bandaríkin árið 1951. Fram eftir sjötta áratugnum var þó talið að friðvænlegar horfði í veröldinni.  Það varð til þess að Framsóknarmenn, sem höfðu setið í ríkisstjórn frá 1953, stóðu að þingsályktunartillögu ásamt stjórnarandstöðunni í mars 1956, um brottför varnarliðsins. Tillagan var m.a. byggð á 7. grein varnarsamningsins frá1951. Bandaríkjastjórn var síður en svo ánægð með þá atburðarás enda taldi hún hernaðarmikilvægi Íslands mikið.  Boðað var til kosninga í júní 1956.

Eftir kosningar í júní 1956 mynduðu framsóknarmenn ríkisstjórn ásamt Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Stjórnin ákvað að standa við þingsályktunartillöguna um brottför hersins. Þó fór hann hvergi og hafa ýmsar skoðanir  verið uppi um ástæður stefnubreytingar stjórnarinnar.  Voru það váleg tíðindi úr veröldinni eða skortur á skotsilfri sem ollu stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar? Var þingsályktunartillagan hugsanlega aðeins kosningabrella af hálfu Framsóknar- og Alþýðuflokks eða beittu bandarísk yfirvöld þau íslensku ef til vill einhvers konar þvingunum til að ná sínu fram?

Hvað segja stjórnmálamennirnir?

Það er talið hafa verið grundvöllur þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var á Alþingi 28. mars 1956 að friðvænlegt væri um að litast í heiminum. Vera hers í landinu væri því óþörf enda héldu  ráðamenn því að þjóðinni að uppsagnarferlið samkvæmt 7. grein varnarsamningsins hæfist þegar staðan væri þannig.

Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson hélt því fram að „hræðslubandalagið" hafi ætlað að freista þess að ná í atkvæði þjóðvarnarmanna  með því að gera kröfu um brottför varnarliðsins. Hann kallaði það ábyrgðarlausan og hættulegan sjónhverfingaleik sem honum hugnaðist ekki. Að hans mati var ályktunin frekar til heimabrúks í áróðursskyni heldur en til þess að „umturna utanríkismálastefnu þjóðarinnar". Hann reyndi ekkert að útskýra stefnubreytingu vinstri stjórnarinnar í varnarmálunum en sagði að samningamönnum Íslands hefði tekist „að afstýra vandræðum í þessum efnum ... með ... hæfni og lagni". Einar Olgeirsson var á sama máli og hélt því fram að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur hefðu ætlað að notfæra sér batnandi ástand í heimsmálunum sér til framdráttar í kosningunum. Ennfremur að sig hafi alltaf grunað að „gripið yrði til einhverra tylliástæðna" til að standa ekki við þingsályktunartillöguna.

Hann taldi hinsvegar að lán Bandaríkjanna stæði „í sambandi við það, hvort vinstri stjórnin situr áfram eða fer frá" en hafi ekki beint verið tengt hermálinu. Emil Jónsson, sem gegndi utanríkisráðherraembætti í vinstri stjórninni um skeið árið 1956, hélt því ítrekað fram að niðurstaða sú að herinn færi hvergi hafi eingöngu orðið „vegna þess að einmitt um þetta leyti eða í byrjun nóvember, hófu Sovétríkin innrás í Ungverjaland". Ólafur Thors, sem var forsætisráðherra frá 1953 þar til vinstri stjórnin tók við í júlí 1956, sagði að „enginn þeirra stjórnmálamanna sem um þetta tímabil fjalla, minnist einu orði á mútufé Bandaríkjastjórnar" sem að mati Ólafs og sjálfstæðismanna annarra „átti ekki síður en uppreisnin í Ungverjalandi þátt í stefnubreytingu (vinstri stjórnarinnar)". 

Það er greinilegt að stjórnmálamenn þess tíma sem hér um ræðir eru ekki á sama máli um hvað olli stefnubreytingu vinstri stjórnarinnar í herstöðvarmálinu árið 1956. Einn talar um áróðursleik „hræðslubandalagsins" meðan annar  heldur því fram að viðsjár í Ungverjalandi hafi verið megin ástæða stefnubreytingarinnar en sá þriðji tekur dýpst í árinni og segir að Bandaríkjastjórn hafi „mútað" ríkisstjórninni til að skipta um skoðun með því að veita henni hátt lán.  Það má hæglega gera því skóna að 1956 hafi farið í gang einhvers konar pólítísk refskák. Taflmennska var stunduð af miklu kappi af stjórnmálamönnum beggja þjóða og reynt að finna leiðir til að sigra andstæðinginn á svarthvítu borði stjórnmálanna.

Fyrir kosningar

Það er ekki síður mikilvægt að velta fyrir sér atburðum fyrir kosningarnar, í kjölfar þingsályktunarinnar, til að átta sig á hvaða stöðu stjórnin sem tók við var í. Hvernig var ástandið á  Íslandi?

Mikilvægi varnarliðsins fyrir atvinnulíf á Íslandi var mikið. Margir veltu fyrir sér hvaða áhrif brotthvarf þess hefði á stóran hóp vinnandi fólks og eins á þá staðreynd að varnarliðið skapaði 18% af gjaldeyristekjum ársins 1955. Sovétmenn áttu einnig mikil viðskipti við Íslendinga sem Bandaríkjamönnum hugnaðist að sönnu illa. Hvaða áhrif hefði brotthvarf varnarliðsins á þau viðskipti, og stöðu Nató landsins Íslands ef það yki enn frekar verslan sína í austurvegi?

Hvað um tímasetningu þingsályktunartillögunnar, var hugmyndin að „stela" hugmyndum Þjóðvarnarflokksins, án þess að hugur fylgdi máli? Það fannst Þjóðvarnarflokknum sjálfum og hélt því óhikað fram að Framsóknar- og Alþýðuflokkur væru að dulbúa sig sem hernámsandstæðinga og vinstrimenn. Flokksmenn töldu greinilega að um að kosningabragð væri að ræða, hið sama gerðu sjálfstæðismenn. Í leiðara Morgunblaðsins 10. maí 1956 segir:

"Samþykkt tillögunar á Alþingi ... um uppsögn varnarsamningsins ... er ekkert annað en kosningabrella. [S]á sem fyrst og fremst ber ábyrgðina á því, að Framsóknarflokkurinn hefur rofið einingu lýðræðisflokkanna um utanríkis- og öryggismálin er Hermann Jónasson. Það er hans verk, að þessi örlagaríku mál hafa nú verið gerð að kosningabitbeini."

Í maí 1956 setti Bandaríkjastjórn aukna pressu á Íslendinga með því að fresta viðræðum um frekari verkatakavinnu vegna óljósra aðstæðna í varnarmálinu. Svo eldfimt var málið að ekkert íslenskt dagblað sagði frá því fyrr en Tíminn tók af skarið 17. maí, fimm dögum eftir að The white falcon, blað varnarliðsins sagði fréttirnar:

"Hermálaráðuneyti Bandaríkjanna hefir ákveðið að fresta um óákveðinn tíma öllum framkvæmdum á Íslandi, sem ekki hafa þegar verið gerðir samningar um. Ýmsir talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu dylgjað um það á fundum og ögrað með því að dregið mundi úr framkvæmdum, jafnvel viðhaldi á flugvellinum innan skamms. Virðast þeir hafa haft góðar heimildir."

Þarna ýjar Tíminn að því að sjálfstæðismenn hafi vitað af áformum Bandaríkjamanna og jafnvel ýtt undir þau. Hermann Jónasson ræðst til atlögu í grein í sama blaði þann 30. maí.

Vitanlega er ekkert við það að athuga, nema síður sé, að Bandaríkjamenn hætti hér framkvæmdum. En þegar tónninn, um leið og það er gert, er sömu tegundar og í áróðri Sjálfstæðisflokksins, þá getur naumast talizt óheiðarlegt að álykta, að hér sé um samvirkar aðgerðir að ræða. Bandaríkjastjórn hefir því beinlínis hagsmuni af því, eins og bandarísk blöð hafa látið í ljós hvað eftir annað, að Sjálfstæðisflokkurinn vinni í þessum kosningum.

Ekkert virðist þó benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi vitað af fyrirætlunum Bandaríkjamanna í þessa veruna. Þessi skoðanaskipti sýna fyrst og fremst hversu erfitt málið var stjórnmálaflokkunum sem háðu harða kosningabaráttu vorið 1956, einkum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki.

„Hræðslubandalagið" náði ekki hreinum meirihluta á þingi í kosningunum 24. júní 1956  en myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu, vinstri stjórn í miðju köldu stríði.

Eftir kosningar

Það varð þegar ljóst að ríkisstjórnin hugðist halda sig við ályktun Alþingis frá 28. mars 1956 um brottför varnarliðsins frá Íslandi og einnig þurfti hún að verða sér út um fé til að fjármagna ýmsar stórframkvæmdir í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, að ógleymdum virkjanaframkvæmdum. 

Það varð þó aldrei úr að varnarliðið færi, því fljótlega hófust samningaviðræður milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna, sem lauk með því að samið var um að varnarliðið yrði áfram í landinu.  Þær samningaviðræður fóru að miklu leyti fram fyrir luktum dyrum og í leynum.

Valur Ingimundarson rekur og rökstyður  hugmyndir sínar um ástæðu sinnaskipta vinstri stjórnarinnar. Hann styðst einkum við bandarísk og íslensk skjöl, þar sem fram kemur að það væri skaðlegt fyrir hernaðarlega hagsmuni Bandaríkjanna ef þingsályktuninni um brotthvarf hersins yrði framfylgt. Valur heldur því fram að Bandaríkjamenn hafi verið „staðráðnir í að fá íslenska stjórnmálamenn til að skipta um skoðun".  Einnig rekur hann hvernig stjórnin reyndi að fá lán hjá Vestur-Þjóðverjum og Frökkum án árangurs.

Ríkisstjórnin var í verulegum bobba því hún fékk ekki lán á Vesturlöndum, og varla gat hún leitað til Sovétríkjanna enda gæti það brotið í bága við hernaðarhagsmuni Nato. Það er óhikað hægt að halda því fram að þetta hafi styrkt samningsstöðu Bandaríkjamanna, sem líklega beittu áhrifum sínum gagnvart öðrum bandalagsþjóðum Nató, þannig að þau voru ekki umsvifalaust tilbúin að lána Íslendingum fé. Það fór því svo að í september 1956 var hermálið tekið upp við Bandaríkjastjórn í þeim tilgangi að finna málamiðlun. Allar heimildir benda til að bæði Guðmundur Í. Guðmundsson og Emil Jónsson sem  báðir gegndu stöðu utanríkisráðherra árið 1956 hafi verið andvígir brotthvarfi varnarliðsins en þó viljað framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Sú afstaða þeirra kann meðal annars að hafa haft áhrif á það sem síðar gerðist. Það var að minnsta kosti þegar hafist handa við að finna lausn sem gæti hentað báðum þjóðum í málinu. Til eru bandarísk skjöl sem sýna að ráðherrar Framsóknar- og Alþýðuflokks hafi gert sér grein fyrir að ekki væri hægt að aðskilja varnarmálin frá lánsþörf Íslendinga, Bandaríkjamenn gerðu sér það einnig ljóst, því íslenska sendinefndin sagði hreint út að ella yrði ríkisstjórnin að leita á náðir Sovétríkjanna. Eftir allnokkurt þóf gerðist það, þann 25. október 1956 að fulltrúi bandaríkjastjórnar lagði fram minnisblað í fimm liðum sem hófst með þessum orðum:

"Bandarísk stjórnvöld eru reiðubúin að til að aðstoða íslensk stjórnvöld í efnahagsmálum, með því að semja samtímis um lánveitingu að upphæð 3 milljónir dollara og þau mál, sem varða varnarsamninginn."

Ýmis fríðindi og ívilnanir voru einnig nefnd í minnisblaðinu. Þarna er auðsætt að Bandaríkjastjórn hugðist nota lánveitingu sína til að knýja á um að varnarliðið yrði áfram á Íslandi, en þeir íslensku stjórnmálamenn sem fengu þetta minnisblað í hendur munu ekki hafa rætt það opinberlega síðan, svo vitað sé.  Í kjölfar þessa var haldið áfram að ræða málið fram og til baka, í þeim tilgangi að báðir aðilar næðu lausn sem þeir gætu sætt sig við.

Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra í vinstri stjórninni benti á að minnisblaðið hafi verið lagt fram daginn eftir að stjórnmálaráð Ungverjalands lýsti yfir rétti ríkisins að ráða sjálft málum sínum. Hann veltir upp þeim möguleika að minnisblaðið hafi hreinlega týnst eða gleymst vegna þess hve mikið gekk á í heimsmálunum, þeim sömu heimsmálum og hann staðhæfir að hafi seinna valdið stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar. Valur Ingimundarson svarar Gylfa með þeim rökum að greinilegt hafi verið í öllu samningaferlinu að samningamenn Íslands tengdu saman lán og varnarsamning.

Um miðjan nóvember 1956 hófust viðræður um endurskoðun samningsins. Í lok nóvember komust bandarísk og íslensk stjórnvöld að samkomulagi um að varnarliðið yrði áfram á Íslandi. Bandaríkjamenn fengu sínu framgengt og Íslendingar fengu 4 milljón dollara lán. Þó var ákveðið að skýra ekki frá niðurstöðum samningaviðræðnanna fyrr en um jólaleytið því „það myndi ekki vekja eins mikla athygli og á öðrum árstíma". Lánið var gert opinbert 28. desember.

Niðurstöður

En hvað var það raunverulega sem olli stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar? Alþýðuflokksmenn og Framsóknarmenn hafa rökstutt sinnaskipti sín með því að ljóst væri að Ísland þyrfti á hervernd að halda áfram vegna innrásar Sovétmanna í Ungverjaland og vopnaskaks við Súez-skurð þar sem Bretar, Frakkar og Ísraelsmenn beittu vopnavaldi.

Sennilega hafa nokkrar samverkandi ástæður valdið sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar;  allmargir framámenn,  jafnvel ráðherrar, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks voru æ á því máli að halda skyldi samstarfinu við Bandaríkjamenn áfram.  Því voru þeir hugsanlega aldrei alveg heilir í afstöðu sinni til brotthvarfs varnarliðsins. Þó tel ég að hugdettur um að þingsályktunin væri aðeins kosningabrella hafi verið venjulegt pólítískt moldviðri, ekkert bendir til annars. Ísland var fjárþurfi og það má færa fyrir því rök að snjallir stjórnmálamenn hafi gert sér grein fyrir því að nota mætti hernaðarlegt mikilvægi Íslands til að auðvelda lántöku. Þó virðist það vopn hafa snúist í höndum þeirra því lýsingar af tilraunum Íslendinga til  að fá lánsfé lýsa nánast örvæntingu, enda varð snemma ljóst að Bandaríkjamenn hugðust nýta sér efnahagsmátt sinn og tengja saman varnar- og lánamálin.  Þeir virðast einnig hafa beitt aðrar þjóðir ákveðnum þrýstingi, að lána Íslendingum ekki fé að svo stöddu. Sjálfstæðismenn fullyrtu þó strax að lánveitingin væri meginástæða stefnubreytingarinnar:

Dollararnir, sem Ísland fær eru teknir úr sjóði sem „aðeins má nota til ráðstafana, sem forsetinn telur mikilvægar fyrir öryggi Bandarikjanna". Þetta lán er með öðrum orðum veitt sem borgun til ríkisstjórnar Íslands fyrir að hafa fallist á áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi.

Það má þó ekki líta framhjá því að atburðirnir í Ungverjalandi og við Súez-skurð hafa að lokum vakið þá af værum blundi, sem trúðu að smáþjóð eins og Ísland gæti þrifist án afskipta stórveldanna. Sú skýring hefur einnig án efa þótt hljóma best út á við. Það sem vóg að lokum þyngst var lánamálið, hvort sem það var ætlun ríkisstjórnarinnar allt frá upphafi að nota brotthvarf varnarliðsins sem samningsvopn eða ekki.

Einnig vil ég geta þess að Dr. Donald E. Nuechterlein segir í bók sinni að lánveitingin hafi haft áhrif á að áframhaldandi starfsemi Íslendinga í kringum varnarliðið væri tryggð, auk þess sem ríkisstjórnin hélt velli. Hann nefnir einnig að Alþýðubandalagið, sem þó hafði verið haldið utan við samningaviðræðurnar við Bandaríkjamenn, hafi fallist á þessa stefnubreytingu vegna þess að í þeirra huga breyttu nokkrir mánuðir til eða frá í veru varnarliðsins ekki öllu. Dr. Nuechterlein segir að fáir Íslendingar hafi dregið það í efa að náin tengsl væru milli ákvörðunar ríkis-stjórnarinnar að hætta við að senda varnarliðið heim og lántökunnar

Niðurstaðan varð því sú að varnarliðið fór hvergi og samið var um ótiltekna frestun á brottför þess, vegna ástandsins í alþjóðamálum. Hermann Jónasson sagði í umræðum á þingi þegar verið var að gera grein fyrir niðurstöðum viðræðnanna að skoðun sín á málinu hafi ekki breyst heldur ástandið í heiminum. Undir það tóku einnig aðrir þingmenn stjórnarinnar.

Eftir þetta gerði vinstri stjórnin ekkert til að framfylgja ályktun Alþingis frá því í mars 1956 þar til hún lét af völdum 1958. Varnarliðið sat reyndar sem fastast á Íslandi allt til ársins 2006 þrátt fyrir hávær mótmæli oft og tíðum. Þó svo að íslenskar ríkisstjórnir gerðu tilraunir til að láta varnarsamstarfinu lokið fór þó svo að Bandaríkjamenn áttu síðasta orðið.  Þeir réðu því endanlega að nóg væri komið þegar þeir þurftu ekki lengur á Íslandi að halda sem hluta af varnarkeðju sinni.

Athugasemdir:

  1. Í 7.grein varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 segir: „Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður- Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt".   Í þingsályktunartillögunni frá 28.mars 1956 sagði að „..eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan ... að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja - þó ekki hernarðarstörf - og að herinn hverfi úr landi." Loks var því bætt við að náist ekki samkomulag um það mun málinu verða fylgt eftir á grundvelli 7.gr varnarsamningsins frá 1951. Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar, bls.104.
  2. Andstæðingar Framsóknarflokks og Alþýðuflokks kölluðu samstarf þeirra fyrir kosningarnr 1956 „Hræðslubandalagið", Sjálfir kölluðu flokkarnir samstarfið umbótabandalagið. Flokkarnir tveir gerðu með sér málefnasamning og fóru í mikla fundaherferð til að kynna samninginn og vinna að framboðum sínum. Í raun var þessu þannig farið að flokkarnir hvöttu fylgismenn sína til að kjósa samstarfsflokkinn þar sem hann var í framboði. Þórarinn Þórarinsson, Sókn og sigrar, bls. 266-267.
  3. Fyrir kosningar hafði góðvinur Ólafs, Konrad Adenauer kanslari Vestur-Þýskalands boðið Íslandi hátt lán, sem Ólafur ekki þáði af ótta við að það kæmi Sjálfstæðisflokknum illa í kosningabaráttunni Ísland var fjár  vant og því ekki að undra að Ólafur Thors dragi þessa ályktun af niðurstöðu samningaviðræðnanna við Bandaríkin. Matthías Johannessen, Ólafur Thors ævi og störf  II.
  4. Alþýðuflokkur fékk 18,3% atkvæða í kosningunum 1956, Framsóknarflokkur 15,6% og samtals 25 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% og 19 menn kjörna. Alþýðubandalagið hlaut 19,2% atkvæða en aðeins 8 þingmenn. Þjóðvarnarflokkurinn náði ekki manni á þing. Hagskinna, töflur á bls. 878-881
  5. Dr. Donald E. Nuechterlein skrifar um Alþýðuflokksmanninn Gylfa Þ. Gíslason að hann hafi verið einn af aðaltillögumönnum þess að farið væri út í kosningabandalag við Framsóknarflokkinn 1956. Gylfi var að sögn dr. Nuechterlein í andstöðu við hin alþjóðlegu sjónarmið í utanríkismálum sem stefna Stefáns Jóhanns Stefánssonar fyrrum forsætisráðherra mótaðist af. Iceland reluctant ally, bls. 17.

Heimildaskrá:

Dagblaðið Tíminn

1956.

Einar Olgeirsson, Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar, Jón Guðnason skráði. Reykjavík, 1980.

Emil Jónsson, Á milli Washington og Moskva. Reykjavík, 1973.

Frjáls þjóð

1953, 1956.

Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland

Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Reykjavík, 1997.

Helgi Skúli Kjartansson, Ísland á 20 öld. Reykjavík, 2002.

Matthías Johannessen, Ólafur Thors ævi og störf  II. Reykjavík, 1981.

Morgunblaðið

1956, 1995.

Nuechterlein, Donald E., Iceland a reluctant ally. Ithaca NY, 1961.

Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar, síðara bindi. Reykjavík, 1967.




Valur Ingimundarson, „Vinstri stjórnin og varnarmálin 1956". Saga tímarit Sögufélags 33 (1995), bls. 9-53.


Þórarinn Þórarinsson, Sókn og sigrar, saga Framsóknarflokksins 1937-1956 2. bindi. Reykjavík, 1986.


Einhvers konar röskun...

utrasin.jpgEin alvarlegasta tegund persónuleikaröskunar er persónuleikatruflun af andfélagslegri gerð, sérstaklega af því að hún kemur verst niður á öðrum. Meðal einkenna má nefna:
  • Tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni.
  • Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum sem leiðir oft til afbrota.
  • Viðkomandi beita ofbeldi ef það þjónar eigin stundarhagsmunum.
  • Beita lygum og blekkingum auðveldlega.
  • Hafa litla stjórn á löngunum, framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni.
  • Hafa grunnar tilfinningar og hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu.
  • Hafa ekki hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum.
  • Samviskuleysi.
  • Siðblinda. 
Jahérna...líkist þetta einhverju sem við erum farin að þekkja alltof vel?
mbl.is Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband